Goodbye 2005

Þá er þetta blessaða ár að renna skeið sitt á enda. Svona byrja öll góð áramótablogg. Ég persónulega sé ekkert eftir þessu ári, ég hef vart upplifað aðra eins andstyggð. Ég hef ferðast töluvert á þessu ári í hinum og þessum tilgangi. Örlagarík ferð mín vestur um haf til hennar Ameríku er mér í fersku minni. Þar brenndi ég nokkrar þrálátar brýr að baki mér. Ég hef dundað mér talsvert við það að brenna brýr á lífsleið minni. Hér á árum áður stundaði ég þá iðju nánast án þess að vera með meðvitund. Það er því frískandi að geta haldið þessum áhugamálum lifandi og ómetanlegt að geta stundað þau alveg glaðvakandi. Ég hef sérstakan hug á að gera árið 2006 alveg sérstaklega gott. Ég hef ákveðið að missa 30 kíló, hætta að drekka pepsi og læra stærðfræði alveg upp á nýtt.

Þrálát hegðun

Allt það súkkulaði sem ég tek til við að hesthúsa þessa daganna, endar undantekningalaust uppi á lærunum á mér. Þetta er að mínu mati svindl og brýtur í bága við almenna lífsgleði af þeirri tegund sem ég aðhyllist. Ég er orðinn í seinni tíð sjúkur í sykur. Ef eitthvað kemur upp á eða ég er eitthvað hnugginn þá veit ég fátt betra en að troða af áfergju í skolt mér súkkulaði og sætindi. Þar er efst á blaði súkkulaði eða “laði” eins og við fagmennirnir köllum það. Ég og grákuntan hún fröken Sigríður. Það er svipað og þegar menn sem þykjast eða hafa talsverðan pening á milli handanna segja “100 kall” í stað þess að segja “100 þúsund kall”. Vegna þess að þegar auðmenn eru annars vegar þá er aldrei talað í hundrað köllum, og þykir ekki nein ástæða til að nefna “þúsund”.