jiddu

Mér kom til hugar einstaklingur einn sem ég hef átt samskipti við og í sömu andrá varð ég heltekin af gremju og viðbjóði af áður óþekktum uppruna. Það skal undrun minni sæta að enn þann daginn í dag er ég ekki orðinn allskostar gallalaus. Ég stóð í þeirri meiningu að þetta væri allt að koma. Illa svikinn. Ekki æðrulausari og yndislegri en það að ég eyði dýrmætri orku minni í að hugsa allskonar kjaftæði um fólk sem er að öllu jöfnu sjálft uppfullt af bölvuðu kjaftæði. Mér líður eins og íslenskum ferðalangi sem fest hefur fé í pakkaferð til Costa Del Sol og verið svikinn um allskonar gúmmilaði sem átti að vera innifalið í verði. Ég heyri sjálfan mig kvarta við fararstjórann um hitt og þetta sem mér finnst aflaga í þessari ferð sem ég keypti dýrum dómum fyrir svo gott sem aleiguna.

Það kann að vera að flest af því sem ég skrifa um á þessum appelsínugula vef mínum komi lesendum fyrir sjónir sem orðagjálfur og málalengingar. Ég get þó fullvissað lesandann um að flest af því sem ég skrifa um, á sér einhverja tilveru, hvort sem er upp í haus á undirrituðum eða í hinum svokallaða raunveruleika sem við öll þykjumst upplifa svo áþreifanlega.

Maðurinn sem ég fór að hugsa um er ekki slæmur maður. Við eigum hinsvegar ekki skap saman. Ber mér að nefna að ég á mjög bágt með mannleg samskipti og þó sér í lagi síðustu daga, jafnvel vikur. Stundum tek ég mér hugarfóstur sem ég stundum nefni við þá sem slysast til að sitja til borðs með mér. Mér finnst það hinsvegar erfitt ef að allt sem ég tek mér í munn, er túlkað út frá einhverri einni ákveðinni stefnu, eða einni aðferð til að lifa lífinu. Það er ekki til aðeins ein leið til að upplifa hlutina. Það er alger fásinna að viðhafa stór orð um málefni af andlegum toga. Andleg málefni og andleg líðan er ekki eitthvað sem að mínu mati er hægt að taka og setja í hæfilega stóran kassa og merkja með þartilgerðum límmiða. Eru ekki upprót alls hins illa vegna þess að einhver í sandkassanum segir eitthvað eins og “Mín trúarbrögð eru betri en þín”. Er það ekki slæmska þessa heims í hnotskurn. Þetta er allt af sama meiði.
Jiddu Krishnamurti sem setti sig mjög á móti trúarbrögðum og trúarleiðtogum sagði ‘When Krishnamurti dies, which is inevitable, you will set about forming rules in your minds, because the individual, Krishnamurti, had represented to you the Truth. So you will build a temple, you will then begin to have ceremonies, to invent phrases, dogmas, systems of belief, creeds, and to create philosophies. If you build great foundations upon me, the individual, you will be caught in that house, in that temple, and so you will have to have another Teacher come and extricate you from that temple. But the human mind is such that you will build another temple around Him, and so it will go on and on.’.

Sama hvaða nafni sem það nefnist. Alltaf skal það vera tekið úr öllu samhengi, afskræmt og látið standa sem eitthvað tákn um það hvað hver manneskja heldur að hún sé. Nú þar sem ég er búinn að vitna í meistarann mikla jiddu Krishnamurti vill ég að lokum rifja upp fallega línu úr kvikmyndinni Mars Attacks, þar sem forseti Brandararíkjanna segir eitthvað á þessa leið þegar marsbúar eru að murka úr okkur lífið: “Why can’t we just all get along”.

Syngja og dansa

Í fyrirtaks veðrinu á sunnudaginn, fór ég leið sem liggur niður í Öskjuhlíð. Ég fann mér laut, þar sem ég flatmagaði og hlustaði á fuglana tísta. Mér þótti ég komast í tengsl við náttúru og mína innri kirkju, eins hommalega og það nú hljómar. Mér varð það á fyrr í dag að tíunda þetta fyrir hjartalausu drullukuntunni henni fröken Sigríði. Hún brást ókvæða við. Rétt eins og ég hefði verið að viðurkenna fyrir henni kynferðislega óra þar sem hún væri í aðalhlutverki. Hún horfði á mig eins og ég hefði verið kosinn viðrini mánaðarins, með öllum töldum atkvæðum. Ég leit samstundis undan með tárin í augunum uppfullur af skömm. Ég hef alltaf verið kveif. Ég hef aldrei komist af í búningsklefum ætluðum alvöru karlmönnum með hárugar hreðjar. Hvernig er hægt að komast af í heimi sem þessum, þar sem fólk jafn illa innréttað og fröken Sigríður fær að lifa. Það eina sem ég vill er að dansa og syngja. Fyrir það vill andstyggilegt fólk á borð við hana druslu þarna, brenna mig á báli. Ó, þú vondi heimur.

Hin ofmetna hamingja

Þessi veflókur er mér að skapi. Ég er farinn að hallast að því að hjörtu okkar Rúnars slái mjög svo í takt.

—————————

Ég ákvað snemma í dag að homma vefinn minn aðeins upp og gera hann appelsínugulan. Ég gerði þetta meðan ég drakk morgunkaffið mitt. Þegar ég hafði lokið áætlunarverki mínu lagðist ég aftur upp í rúm, rétt til að viðhalda eðalþunglyndinu sem ég hef lagt allan minn metnað í síðustu daga. Þegar líða tók á daginn gat ég ekki með nokkru móti haldið þetta þunglyndi út. Blessuð sólin skein og hitabylgja upp á heil 9 stig yfir landinu. Það örlar þó ennþá á þessu prýðilega þunglyndi, svo ég er að vonast til að ég geti lagst í kör, áður en að ég verð mér og nærstöddum skaðlegur sökum ánægju og gleði, sem er eitthvað sem engum er stætt að tileinka sér.

Skínandi

Það kann að skjóta skökku við að maður jafn andlega þenkjandi og ég skuli bölva, ragna, þusa og þrasa yfir þessu blessaða sumarveðri sem yljar okkur landsmönnum um hjartarætur þessa daganna. Mér er síður en svo skemmt verð ég að segja. Ég á bágt með að trúa því að einhver sé orðinn það æðrulaus að þessi viðurstyggð hafi engin áhrif á viðkomandi. Það má þó vel vera. Hvað veit ég um dyggðir eins og æðruleysi. Ég hef hinsvegar ákveðið að ég ætla ekki að láta bjóða mér lengur upp á þetta ógeð sem við erum svo djörf að kalla land. Hér er ekki hægt að búa, punktur. Það hefur ekkert með “grasið er grænna hinum megin syndrómið”. Það vill nú nefnilega svo andskoti skemmtilega til að grasið er bara einfaldlega grænna hinum megin. Hér er gaman að koma í heimsókn, en ekki sögunni meir. Ég vill gjarnan eiga kost á að fara út að hlaupa án þess að koma heim ofkældur með heilahimnubólgu. Það má vel vera að þessi viðhorf mín gagnvart ættjörð minni sé hægt að útleggja sem skortur á víðsýni, en það verður þá að hafa það. Mér er skítsama. Héðan verð ég að komast og það ekki seinna en fyrir 9 árum síðan. 9 ár segi ég. Fyrir 9 árum síðan, var ég staddur í Ísrael. Enn þann daginn í dag er ekki séð fyrir endann á því sem gerðist í Ísrael fyrir 9 árum síðan. Þetta líf er einkennilegt vægast sagt, en jafnframt mikið ævintýri.

Condolezza Hrís

Tímabundin tilvistarkreppa sem staðið hefur yfir í 35 ár. Ég tel að þessi setning lýsi lífi mínu með mikilli prýði. Bráðaþunglyndi helltist yfir mig þessa helgi. Bráðaþunglyndi er alveg sérstakt afbrigði af þunglyndi sem er jafn áreiðanlegt og íslenskt veðurfar. Talandi um íslenskt veðurfar, þá snjóaði í höfuðborginni. Það er kominn 21 maí og það snjóaði. Þetta er alveg nóg til að gera mig gersamlega brjálaðan. Það lætur því nærri að lundarfar mitt sem er vanalega blómum prýtt, hefur meira og minna hlaupið í kekki síðustu daga. Ég sem hef fengið orð á mig í gegnum lífstíð mína fyrir að vera dagfarsprúður, kærleiksríkur og gefandi í samskiptum mínum við mús og menn, þurfti að láta í minni pokann fyrir gremju, vænisýki og hugsunarhætti sem þar af 90% var mér og mínum gersamlega gagnslaus. Hver er ástæðan fyrir þessu. Ég satt best að segja geri mér enga grein fyrir því. Þar af leiðandi ætla ég að skrifa þetta á land og þjóð, ásamt þeirri staðreynd að ég óskaði ekki eftir því að fæðast og bla, bla, bla. Þetta er tugga, sem yfirleitt er tuggin í þessu hátíðarskapi. Ég gæti líka kennt Condoleezza Rice um. Hún stendur vörð um mannvonsku þessa heims. “Þið sem sprengið turnana mína, skuluð sko eiga mig á fæti!”, segir hún. Án fíflaláta, þá vill þetta fólk ekki að lausn verði fundin á viðhorfum heimsins til Brandararíkjanna. Það vill frekar ala á hatri og gera hvað sem í þeirra valdi stendur til að skara eld að hatursköku þessa heims. Já, bráðaþunglyndi mitt er Condoleezzu Rice að kenna. Hún og hennar líka eru að sigla með okkur öll í gin glötunar. Hún er viðbjóðurinn í þessu dularfulla máli.

United 93

United 93 er enginn subbubjóður. Fyrst þegar ég vissi að þessi mynd væri til, hélt ég að þarna væri á ferðinni Hollywood ógeðsvella um atburði 11. september 2001. Því fer víðsfjarri og kann skýringin að vera sú að leikstjóri myndarinnar er breskur. Samtöl og samskipti eru á eðlilegum nótum. Þá á ég við að öll samskipti fara fram eins og þau eigi sér stað í raunveruleikanum. Þær persónur sem eru mest áberandi út myndina eru rétt svo lauslega kynntar í byrjun, en ekki verið að tíunda óendanlega hver bakgrunnur þeirra er, til þess eins að maður samsvari sér með þeim. Sú aðferð er alveg ótrulega ófrumleg og leiðinleg. Þegar líða tekur á atburðinn, þá fer maður að finna áþreifanlega til með fólkinu sem mannar þessa vél. Hryðjuverkamönnunum er ekki lýst sem einhverjum villimönnum og drulluháleistum, heldur sem leiksoppum sem er ekkert minna skelfingu lostnir og saklausir farþegarnir. Þessi mynd er vel þess virði og leyfi ég mér að mæla hiklaust með henni.

Guð er óður

Jæja, þá er bara kominn háttatími. Hver hefði séð þetta fyrir. Mig hefði aldrei órað fyrir þessu þegar ég vaknaði í morgun. Ég held athöfnin að sofa, sé svo gott sem ein af mínum uppáhaldsathöfnum. Mér er því spurn hvers vegna ég bý hér á Laugarveginum, með tilliti til þess að hér er ekki nokkur svefnfriður. Nú er klukkan u.þ.b 12:00 og gleðskapurinn er hafinn. Núna í alla nótt fram undir morgun kem ég til með að heyra í tónlist sem ég hata. Hatur nær eiginlega ekki yfir það hvað mér finnst um þennan hávaða og þá einstaklinga sem hafa af einhverjum orsökum komist að þeirri niðurstöðu að allir vilji heyra músikina þeirra. Þennan hávaða heyri ég í gegnum svefnrofin þegar þetta andstyggilega fólk keyrir hér framhjá á sportbílunum sínum. BAMM BAMM BAMM BAMM. Engin laglína, bara BAMM BAMM BAMM BAMM. Er ég orðinn gamall? Er farið að síga á seinni hluta lífs míns? Þegar ég hinsvegar glaðvakna vegna ólátanna, ligg ég í rúminu mínu og læt mig dreyma að eiga haglabyssu. Ég sé þá sjálfan mig tölta út fyrir, alveg sallarólegan. Miða haglaranum á húddið á þeim bíl sem hefur að mínu mati hæst og taka léttilega í gikkinn. Þetta kæmi bílnum samstundis í óhæft ökuástand, sem léttir fyrir mér því næst ríf ég upp bílhurðina og skýt úr hólk mínum í geislaspilarann. Skelfing viðstaddra breytist á örfáum sekúndum í fagnaðarlæti og ég uppsker áður óþekkta virðingu og aðdáun. Við þessa hugsun sofna ég svo aftur, rétt til þess eins að vera vakinn upp af einhverjum hálfvita sem kann aðeins að syngja eitt lag á fylleríum. Ólei, ólei, ólei. Ég grínast ekki með þetta. Þetta lag er sungið hérna um HVERJA helgi. Nú er ég búinn að troða böttplöggum í eyrun á mér. Rétt bráðum þakka ég í bænum mínum fyrir fegurðina í þessum heimi og svo líð ég fyrr en varir út af. Guð er óður.

Hann er enginn viðbjóður

Fyrir tilstilli mikils meistara naut ég þess að hlusta á Joanna Newsome í kvöld. Alveg sérstaklega ánægjulegt. Hún er vopnuð englarödd og ekki er hægt að segja að útlitið kasti skugga á velgengni hennar, því hún er alveg gullfalleg, ásamt því að vera framúrskínandi krúsídúlla. Nú væri gaman að fá að sjá Regina Spektor, Laura Veirs, Kristin Hersh og Catpower, sem spilaði hérna meðan ég var staddur erlendis. Kvenkyns tónlistarmenn sem eru rétt í þann mund að fá taugaáfall höfða af einhverjum orsökum vel til mín. Er það kannski vegna þess að mér finnst ég sjálfur vera á barmi taugaáfalls. Er það nú svo? Nei, það getur ekki verið. Þegar ég hlusta á Kristin Hersh þá hef ég það á tilfinningunni að hún fari aldrei út úr húsi án þess að vera með dúkahníf í veskinu sínu, ef ske kynni að hún þyrfti nauðsynlega að drepa sig.
Takk fyrir mig elsku besti Fóstradamus, þér eruð sko enginn viðbjóður.

Grouphug

Hópkynlífsrúta samfylkingarinnar er eitthvað með því andstyggilegra sem ég hef augum borið. Ég hef verið á nokkrum stöðum í borginni, þar sem þessari vibbarútu hefur verið lagt. Síðast sá ég hana á Sæbrautinni. Þetta er algert ógeð. Tveggja hæða strætisvagni hefur verið plastaður með hvítri filmu og á hana límdir forystusauðir Samfylkingarinnar. Einn þeirra lendir á samskiptunum á rúðu og kemur fyrir sjónir eins og hann sé stökkbreyttur. Mig minnir að það sé Stefán Jón Hafsteinn. Ég hef engan áhuga á þessum kosningum í ár. Þetta eru leiðindarkosningar. Báráttumáĺin eru leiðindi. Fólkið í forsvari fyrir flokkana eru leiðindi. Mér þykir alltaf vænt um hann Steingrím minn J. Sigfússon, og hans flokk, en hinir flokkarnir vekja upp í mér óhug. Ég sé engan mun á Samfylkingu og Framsókn. Þeir eru hvor um sig flokkar gersamlega vangefnir frá fæðingu. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki einu sinni þess virði að ég bloggi um hann. Mér er sama um hvaða vegur í borginni verður malbikaður og hvort flugvöllurinn verði settur í endaþarmsop. Ég kýs, en ég kýs vinstri græna, bara vegna þess að Steingrímur er krúsídúlla. Segið svo að ég sé ekki málefnalegur.

Hammari

Rúnar Jensen er hvorki aukvisi né eftirbátur. Hann er tildæmis ekki viðurstyggð eins og hann ______________ svo ekki sé talað um ___________, sem er algert ógeð. Hann er þvert á móti alveg sérstakt eintak af krúsídúllu. Rúnari er margt til listanna lagt. Hann leggur af mikilli alúð stund á garðyrkju. Er fyrirtaks kokkur og fyrsta flokks eiginmaður. Hann er höfðingi heim að sækja og yndislegur vinur. Ég vildi óska að ég væri núna í Memphis að halda upp á afmælið hans Rúnars.

Til hammara með ammara elsku besti Rúnar minn Jensen!

Transamerica

Um þessar mundir lifi ég fátæku félagslífi. Ég er þó sæll og ánægður eins og ég er þekktur fyrir um víða veröld. Af þessum orsökum tók ég til við kvikmyndagláp á þessu prýðilega föstudagskvöldi. Ég horfði á myndina Transamerica og vill ég mæla ríkulega með henni. Myndin segir sögu manns sem bíður þess að gangast undir kynskiptaaðgerð. Hann honum gersamlega að óvörum kemst að því að hann á son á betrunarheimili í New York og ákveður samvisku sinnar vegna að koma honum á réttuna. Rétt eins og mig langaði til þess að gerast hommi eftir að ég sá Brokeback Mountain, langaði mig að sama skapi að láta sarga undan mér tólin eftir að hafa horft á þessa mynd. Ég er mjög áhrifagjarn einstaklingur og ætti að gera lítið af því að horfa á kvikmyndir. En mynd þessi er sérstaklega falleg. Hún er sönnun þess að sumir eru nokkuð vel staðsettir í kvikmyndageiranum. Reyndar orðið frekar sjaldgæft að ég sjái almennilega mynd, en þessi er þar á meðal. Megnið af þessu er ekkert minna en sorp og stundum nær það ekki einu sinni þeim gæðastaðli.

Á topp tíu yfir vibbaklysjur

Ég skipti á rúminu mínu. Ég lét ekki þar við sitja heldur tók ég mig til og hengdi sængina mína út um gluggann og lét hana hanga þar megnið af kvöldinu. Núna, ligg ég undir sænginni sæll og glaður. Hún er fersk og frískandi. Óhjákvæmilega kemur upp í huga mér hversu prýðilegt lífið er. Það liggur við að ég noti viðbjóðslega klysju á borð við “guð er góður”. Ég held á hinn bóginn aftur að mér. Því ég vill ómögulega verða uppvís af of mikilli bjartsýni. Ég held að af öllum klysjum þá skori “guð er góður” gubbklysjan ansi ofarlega yfir klysjur sem vekja upp í mér óhug. Það má vera að ég þurfi eitthvað að endurskoða afstöðu mína með þartilgerðum faglærðum, þ.e.a.s ef ég hefði einhverja trú á því. En jú það stemmir, það má með sanni segja að ég sé bitur manneskja stútfull af breyskleikum. Ég verð þó að játa það að ég hræðist fólk sem viðurkennir ekki að það sé gallað á einn eða annan máta. Mér einfaldlega er um megn að slaka á í kringum þá sem spila sig óaðfinnanlega. Hvað breyskleika mína snertir, þá rembist ég eins og rjúpan við staurinn að reyna að verða þægilegri í umgengni. Stundum þegar tíðin er góð, er mér kleyft að vera aðeins minni viðbjóður en ég er að öllu jöfnu. Svona er guð nú góður.