Elsku vina mín ég er á leið í land!

Ég er ennþá ástfanginn upp fyrir haus af henni Amy minni Goodman. Hrynjandinn í röddu hennar er svo kynæsandi, að ég fæ vart við mig ráðið. Ég hlusta á hana daglega á vefsetrinu fína og flotta democracynow.org. Hún er heldur enginn viðbjóður í sjón. Fallegt grásprengt hárið. Tregablandið brosið. Ó, hún Amy mín. Höf og álfur skilja okkur að. Biturð mín á sér engin landamæri. Ég get ekki sagt að ég hafi verið samkvæmur sjálfum mér þegar ég gaf þá yfirlýsingu að ég hefði helst viljað hrækja framan í þetta ástfangna par sem varð á vegi mínum. Það er einfaldlega ekki rétt. Ég er ekki persóna sem hefur áhuga á að skyrpa framan í fólk. Nei, ekki ég. Ég er einlægur og yndislegur. Ó, ef aðeins hún Amy mín vissi af mér. Við gætum saman tvö sigrað heiminn. Eftir erfið mótmæli, væri ég til staðar fyrir hana. Ég gæti hrært oní hana Hummus og Babaghanouj.

Þessi færsla tók svo tilfinningalega á mig að ég kláraði einn poka af kasjúhnetum. Ég sem er í ströngu aðhaldi.

Fáein orð um ástina

Ég hitti fyrir alveg sérstaklega ástfangið par í dag. Ég var alveg komin að því að hrækja framan í þau. Ég hugsaði þeim hinsvegar bara þegjandi þörfina. Þau halda þó ekki að þetta sé dans og söngur þar til eilífðin svo blessanlega grípur í taumana. Það var þó ekki annað að sjá. Gleðin var yfirþyrmandi og nísti mig inn að beini. Ég veit þó hverskyns er. Ég hef ekki neina trú á ástinni. Ég vildi óska þess að ég þyrfti ekki að leiða hugann að þessu framar, en ég fæ ekki við mig ráðið. Þegar tómleikinn er yfirþyrmandi, þá fer ég að hugsa einhverja svona vitleysu. Ekki skrifa athugasemd í athugasemdakerfið mitt, þar sem þú lýsir því yfir að það sé svo yndislegt að vera ástfanginn og bla, bla, bla. Þú veist það innst inni að það er ekki á rökum reist. Það reyndar er ekkert minna en fjarstæða. Þetta er enginn reiðipistill. Ég vill fá að sjá hlutina fyrir það sem þeir eru. Ég kæri mig engan veginn að tölta í gegnum lífið, verandi dragbítur á einhverjum eða hafandi einhvern sem er letjandi silakeppur í mínu lífi. Hlustið á samræður aðila sem hafa eytt nokkrum árum saman. Hljómar oftar en ekki eins og símtal við þjónustuver OgVodafone, þar sem er verið að kvarta undan þjónustu. Já fyrir alla muni, að finna mér eitthvað eintak sem ég get að einhverju leiti sætt mig við, fá viðkomandi til að skrifa upp á kaupsamning þess efnis að hann verði áfastur mér til enda lífdaga. Andskotans leiðindi. Ég hef ekkert á móti því að eiga vini, þangað til ég gef upp goluna. En að drattast í gegnum lífið með þartilgerðan maka, sem ég byggi alla mína afkomu og hamingju á, hljómar ekki eins og eitthvað sem er mjög ráðlegt að gera. Sumir þó hafa náð þessu og virðast nokkuð sátt í sínu hlutverki. En hver er sannleikurinn í þessu máli? Veistu það fyrir víst. Er hægt að vita það fyrir víst. Því að fólk virðist koma manni nokkuð hressilega á óvart. Ég veit um nokkur sambönd sem hafa virst mér nokkuð arðvænleg, en hvað gerist, pipp pipp barbabrella og konan sem skrifaði undir kaupsamninginn er farinn að leyfa einhverjum mel að skrönglast á sér, öllum gersamlega að óvörum. Er ég svartsýnn? Nei, ég er bara búinn að lifa nógu lengi til að sjá að lífið er fallvalt. Væri ég til í að verða ástfanginn enn á ný. Já, engin spurning.

Trabant

Ég hef vitað af þeim og jafnvel séð plötuumslagið þeirra, en ég hef hvorki heyrt í þeim, hvað þá séð þá standa á sviði fyrr. Þar sem ég stóð út í sal í laugardagshöllinni, í boði krúsídúllunnar Fóstradamusar, spiluðu þeir músik ásamt hljómsveitum á borð við Echo And The Bunnymen, Benni Hemm Hemm, Elbow og Badly Drawn Boy. Ég staldraði hinsvegar ekki við til að klára að horfa á Elbow né að sjá Badly Drawn Boy.
Meðlimir Trabant gersamlega áttu salinn. Þeir voru ekkert minna en framúrskarandi. Sviðsframkoma og kímnigáfa þessara manna er alveg sérstaklega vel lukkuð. Allir meðlimir hljómsveitarinnar voru eins uppáklæddir í eitthvað sem ég kann ekki að nefna. Þegar á leið, týndu þeir fötum öllum nærstöddum til einstakrar gleði. Þeir skreyttu einnig sviðsframkomu sína með allskonar glingur sprengjum og fíneríi. Trabant voru einu orði sagt æðisgengilegir, eins og það kallast á fagmáli.

From the corpses flowers grow

Það ber ekki á öðru. Blessað sumarið er komið. Ég fór einmitt út að hlaupa fyrr í dag í fallegu sumarveðrinu. Ég má þakka fyrir að þegar ég þreytti Skerjafjörðinn að vindurinn feykti mér ekki á haf út. Jú, rétt til getið. Farið hefur fé betra. Ekki má svo gleyma notalegri rigningunni sem barði á andlitinu á mér. Afskaplega frískandi. Já, ég verð að viðurkenna að ég er kominn í sumar og hátíðarskap. Ég flauta lítinn lagstúf, sem léttir mína lund. Lagstúfurinn er tákn velgengni minnar. Lífið er yndislegt. Sólin skín. Úpps.. Þarna hljóp ég á mig. Sólin skín bara rassgat ekki neitt. Sólin skín aldrei á þessa ógeðslegu spildu sem við erum svo forkastanleg að kalla land með ríkisstjórn, bubble economy og 200 HaHa fundum í viku hverri. Blessað sumarið. Það má þó segja með sanni að við erum ákaflega þakklát fyrir þá 2-3 sólskinsdaga sem við fáum á hverju sumri. Það er jú, svo sannarlega þess virði. Hvað er fegurra en landið okkar þegar þessi snobbaða sól skín loksins hér fyrir norðan allt sem eðlilegt getur talist, Svíþjóð þar með talin. Því allt sænskt er æðislegt.

Sjónvarpsgláp

Þrátt fyrir að ég sé orðinn afhuga sjónvarpi kemur það fyrir að ég horfi á einn og einn þátt af The Apprentice, sem er án efa uppáhalds raunveruleikaþátturinn minn. Með tilliti til þess að þessir þættir eru ekkert nema auðvirðilegt sorp þá rekur marga í rogastans yfir því að jafn fágaður einstaklingur og ég leggist svona lágt. Ég skal útskýra. Ástæðan fyrir því að ég elska að horfa á þessa þætti er sú að ég er fyrir það fyrsta mikill áhugamaður um mannlega bresti. Mannlegir brestir fá hvergi betur sín notið en einmitt í raunveruleikaþætti. Þátttakendur þessara þátta hafa yfir höfuð ekki til að bera nein heilindi þegar á hólm er komið. Það er jú einstaka maður sem rembist sem rjúpan við staurinn að halda í heiðri hinum og þessum gildum, en þeir eru oftar en ekki troðnir undir af andstyggilegum meðbræðrum sínum. Það sem vekur sérstaka furðu mína er þetta óbilandi sjálfsálit sem þetta fólk hefur til að bera. Hvaðan kemur það eiginlega. Hefur það verið alið upp í því að það sé æðisgengið og það megi ekki gera mistök. Þau eru öll alltaf alveg klár á því að þau geti gert betur en manneskjan sem heldur um stjórnvölinn þá stundina. Þau eru sýnd í einkaviðtölum, þar sem þau baknaga hvort annað, og dásama svo sitt eigið ágæti. Hinsvegar þegar á það reynir, kúka þau sjálf svo kyrfilega í buxurnar og það fyrir framan milljónir áhorfenda.

Já, þetta er einkennileg skemmtan sem ég hef af þessu.