Pizza Hut er matsölustaður djöfulsins

Ég fór með dóttur minni á Pizza Hut á sunnudaginn. Vegna þess að ég er í eilífu aðhaldi pantaði ég mér Ceasar kjúklingasalat. Ég hugsaði með sjálfum mér “prótein” og “salat” og fékk út ásættanlega útkomu. Dóttir mín sem er betur að sér í Pizza Hut fræðum pantaði sér pizzu. Ceasar salatið mitt var viðbjóður og tel ég mig ekki vera ósanngjarnan þegar ég segi að mig hreint og beint langaði til að kasta því umsvifalaust upp. Af virðingu við dóttur mína hélt ég salatinu niðri, en hafði orð á því að það væri viðurstyggð. Hún sagði mér að ég væri fífl að panta ekki pizzu á pizzastað. Jæja, hún sagði nú kannski ekki að ég væri fífl, en hún hafði orð á því að best væri að kaupa pizzu á Pizza Hut.
En eins einkennilegt og það nú hljómar, hélt ég áfram að gleypa salatið. Því meira sem ég át af því, þeim mun meira varð mér bumbult. En ég gat ekki hætt. Ég hreinsaði diskinn minn, eins ég hefði verið að læsa tönnunum mínum í eitthvað það almesta lostæti sem ég hef á ævinni minni smakkað. Ég lét ekki þar við sitja, held tók til við að éta pizzuenda af disk dóttur minnar. Það var rétt eins ég væri andsetinn. Allt þetta vibbilaði settist á mjöðm mér og læri.

Þetta gerir það að verkum að ég ætla ekki út úr húsi næstu daga.

Það er komin vetrartíð

Þá er blessaður veturinn kominn. Hann kemur til með að endast okkur hér á ísklump, næstu 9 mánuði. Meðan við íslendingar njótum veðursins yfir vetrarmánuðina, leyfum við okkur að hlakka til, því þegar vetrartíð er lokið kemur eitthvað sem við hér í rassgati kjósum að kalla sumar. Við köllum það einungis sumar vegna þess að það spannar mánuðina júní, júlí og ágúst. Veðrið er mjög svipað og yfir vetrarmánuðina, nema að trén laufgast, grasið grær og fáeinir villuráfandi fuglar frjósa í hel. Þrátt fyrir að það sé ekki verandi hér vegna ansdtyggilegs veður erum við í fjórða sæti yfir hamingjusömustu þjóðir heims.
Ég var ekki spurður í þeirri könnum, svo mikið er víst. Ég sem hélt ég væri miðdepill alls sem skipti máli.

Súperkúl fyrirtæki

Í dag er sunnudagur. Samkvæmt mínum útreikningum þá er mánudagur á morgun. Þegar ég vann hjá hinu opinbera voru mánudagar ógeðslegir dagar. Núna vinn ég hjá súperkúl fyrirtæki sem kallar ekki allt ömmu sína. Þetta súperkúl fyrirtæki er stofnað til höfuðs stóru, ljótu og bólugröfnu fyrirtækjunum sem framleiða ekkert nema kúk. Það kann að þykja einkennilegt að ég taki svona til orða. Best þykir þó að skafa ekkert utan af því þegar koma á sannleika málsins áleiðis. Þá er einmitt gott að nefna eitthvað eins og kúk, því það vekur tafarlaust athygli. Kúkur snertir líka streng í mannfólkinu sem kemur því án nokkurra véfenginga í hátíðarskap.

Hjá hinu opinbera voru allir alltaf rétt í þann veginn að fara að drepa sig. Ég sá lífið hjá mörgum góðum drengnum fjara út í vinnu hjá hinu opinbera. Það var engu líkara en allir lögðust á eitt að gera þetta að einum af þeim mest óaðlaðandi vinnustað fyrr og síðar.

Súperkúl fyrirtæki einkennast af mikilli gleði og söng. Ég og portkonan frú Sigríður syngjum okkur í gegnum hvern daginn á fætur öðrum. Það er gott fyrir sálina. Af þessum sökum, hlakka ég til að mæta í vinnuna á morgun. Það verður gaman að sjá hana frú Sigríði, því þó hún sé drullukunta, þá er hún alvöru manneskja að innsta lagi. Manneskja sem ég elska og dái.

Frú Sigríður, þú ert æði.

Ráðabrugg

Life is a sexually transmitted disease.
R. D. Laing

Þetta er mikil prýðis tilvitnun. Ég rakst á hana þegar ég var að leita að tilvitnuninni Life is just a damed thing after another! eftir Elbert Hubbard.

Ég er að hlusta á Eckhart minn Tolle. Hann er að tala um lífsviðhorf. Ég fór að hugsa það í gær hversvegna ákveðnir hlutir í mínu lífi gerðust einfaldlega ekki. Hvort það gæti verið að þeir ættu alls ekki að gerast.

Ég sá myndina Lady in the water í gærkvöldi, með ágætis fólki. Mér fannst svo margt í þessari mynd ekki stemma eða vera of langsótt til að ég geti sagt að þessi mynd sé góð. Hann fær þó plús fyrir frumleika, jafnaldri minn hann M. Night Shyamalan.

Eitt og annað í myndinni gerði það þó að verkum að þegar ég var kominn heim í hlað, fór ég að velta fyrir mér tilgangi þessa lífs. Það er nefnilega svo að sumt af því sem gerist eða gerist ekki virðist vera nánast of ævintýralegt til að einhver eða eitthvað hafi ekki komið að því með einhvern fyrirfram ákveðinn tilgang í huga.

It’s not true that life is one damn thing after another; it is one damn thing over and over. sagði Edna St. Vincent Millay.

Ég ítreka að þetta eru ekkert endilega viðhorf mín nú á dögum. Ég finn mig þó stöku sinnum í þessum pytti neikvæðninnar.

En nú er ég að íhuga að skreppa til Grænlands.

Fóstradamus skrifar vefleiðara

Krúttíbollan hann Fóstradamus hefur hafist handa við blog. Þess ber að geta að Fóstradamus notar hið margumrædda veflókakerfi pymazine til að koma skilaboðum áleiðis á alnetinu ógurlega. Hann er enginn aukvisi og því síður eftirbátur. Ég er ekki alveg með á tæru hvort er verra, að vera aukvisi eða eftirbátur. Ég veit bara að hann Fóstradamus minn er hvorugt.

Downtown Laugavegur

Even though living in Laugavegur can be intolerable during the weekends, while the drunks roam the street. It has the potential to become very lively and enjoyable in the daytime. This afternoon, when returning from my office a few bands performed outside my window. The one in the picture is a band called Mammut, of which I know no details of.
Laugavegur is vivid.
Almost every parade there is strolls down this street. I have a coffeehouse right opposed to my window. I get to see all kinds of events take place. Some are nice, and others are not. Still I love it. I’m sad to say that in the coming february I will have to move. Some man with dough has bought the building and he will demolish it. I will surely, surely miss it.

Tom Waits og Woody Allen

Ég ætlaði að skrifa veflók um það hversu ömurlegur ég er í mannlegum samskiptum, en svo þegar ég fór hugsa þetta aðeins lengra, komst ég að því með sjálfum mér að annar hver veflókur sem ég skrifa er annað hvort um það hversu ömurlegur ég er, eða hversu ömurlegur ég er í mannlegum samskiptum. Í ljósi þess ákvað ég að skrifa ekkert um sjálfan mig heldur tala um það hversu æðislegir Tom Waits og Woody Allen eru. Ég er einmitt búinn að vera að hlusta á þá báða undanfarna viku, mér og fröken Sigríði til sérstakrar skemmtunar. Portkonan að venju ber ekkert skynbragð á tónlist, enda er hún frummanneskja, en henni finnst þó Woody og Tom prýðilegir. Woody Allen spilar á klarinett og gerir það af mikilli prýði. Ég hef áhuga á því þessa daganna að festa fé í klarinett. Ég ætla að tala um það í u.þ.b 3 vikur, en hugsanlega kem ég ekki til með að gera neitt í því. Ég er einnig um þessar mundir að tala um að ég sé á leiðinni í Ashtanga jóga hjá Ingibjörgu Stefáns. Ég er búinn að tala um að flytja til útlanda síðustu 9 ár. Ætli ég láti einhvern tímann verða af því.

Fallega og flotta fólkið

Ég og fröken Sigríður, sem er landsfræg bryggjubredda stundum saman viðskipti í hjarta Reykjavíkurborgar. Við leggjum allan okkar metnað í að vera flott og kúl. Ímynd okkar út á við skiptir höfuðmáli. Þegar ímynd sem þessi er byggð upp eða viðhaldið er gott að einangra sín samskipti við fólk sem jafn kúl og flott og við teljum okkur vera. Við að sama skapi reynum að forðast aukvisa sem kunna ekki að klæða sig og froðufellir þegar það tjáir sig. Að klæðast sama klæðnaði 2 daga í röð er gersamlega óásættanlegt. Það er ekki bara óásættanlegt, heldur einfaldlega ömurlegt. Það ber merki um lélega sjálfsvirðingu og léleg sjálfsvirðing er eitthvað sem á heima inn á stofnunum án undantekninga. Þetta kann að hljóma eins og hroki, en ég tel að það sé betra að leggja spilin á borðið, þó ekki nema til þess að forðast það að þurfa að eiga viðskipti við fólk sem er ömurlegt.

Á meðfylgjandi mynd má sjá undirritaðan þar sem hann er á leiðinni á viðskiptafund. Hann er rétt í þann veginn að fara að rukka margar milljónir. Hann kann að punta sig í takt við aðstæður. Takið sérstaklega eftir því hversu hundrað og einn hann er til útlits. Þessum manni verður vel tekið og honum greiddar milljónir án nokkurra véfenginga. Þessi maður er síður en svo ömurlegur. Hann er hornsteinn þeirrar ímyndar sem ég hef fjallað um í þessum veflók.

Barbarella

Jane Fonda var mjög kynþokkafull sem Barbarella í samnefndri mynd.
Þegar ég var í kringum ellefu ára aldurinn var ég mikill áhugamaður um kvikmyndir. Ekki bara áhugamaður heldur heltekinn lúði. Á meðan bekkjarfélagar mínir styttu sér stundir með að sniffa lím á skiptistöðinni í Kópavogi, eyddi ég öllum mínum stundum í að sinna þessu áhugamáli mínu. Ég tók upp kvikmyndir á super 8, klippti, setti hljóð saman við og lék allskyns barbabrellur.

Ég var tíður gestur í Kvikmyndamarkaðnum efst á Klapparstíg. Þar átti ég vinkonu sem hét Emelía. Hún var að mínu viti ein sú svalasta manneskja sem ég hafði komist í kynni við. Til að iðka pólítískt réttmælgi, þá tel ég öruggast að segja að hún átti afrísk-amerískan mann og litla gullfallega dóttur sem ég man ekki hvað hét. Dóttur þeirra passaði ég margoft. Í Kvikmyndamarkaðnum ól ég manninn hvenær sem færi gafst. Ég tók að mér að lagfæra slitnar myndir. Þetta voru yfirleitt kvikmyndir sem höfðu flækst í sýningarvélunum, beyglast eða brotnað úr sporunum á þeim. Oftar en ekki voru brunagöt í ramma og ramma, sem þótti æskilegt að fjarlægja. Kvikmyndirnar tók ég með mér heim í tonnavís og klippti ég í burtu skemmdirnar, límdi þær og skilaði aftur í búðina. Ég var félítill svo þetta var kjörin leið fyrir mig til að sjá nánast allar myndirnar sem til voru í leigunni. Eftir þessum leiðum sá ég tildæmis Barbarella, Taxi Driver, The Godfather, Jaws, The Deep, Close Encounters Of The Third Kind og heila dopíu af japönskum skrímslamyndum.

Ég átti Elmo st 180 sýningarvél, sem var alltaf biluð. Samt keypti ég hana nýja fyrir svo til aleigu mína. Ég hafði lengi safnað mér fyrir henni. Ég bar út 3 blöð í tveimur hverfum til að ég gæti keypt þennan dýrgrip. Í mínum huga var allt heimsins prjál lítilvægilegt í samanburði við að eignast þessa vél.
Tímarnir breyttust og myndabandaæðið tók við. Ég hélt samt sem áður tryggð og trausti við 8mm filmurnar. Ég pantaði mér myndir frá Bretlandi. Derrann hét fyrirtækið sem seldi þær. Ég átti orðið fyrirmyndarsafn af 8mm kvikmyndum. Núna í dag veit ég ekki hvað varð af þeim.
Hvar eru filmurnar mínar fínu eiginlega?
Hvar eru bernskuár mín?
Hvar er lífið?

Hersluhringur

Ég hef áður skrifað pistla um sanna karlmennsku. Ég hef einnig tíundað hvernig er æskilegt að haga sínum samskiptum í karlaheimi. Ég hef hinsvegar verið eilítið afskiptur í þessum heimi. Það vill nefnilega svo óheppilega til að í gegnum lífstíð mína hef ég aldrei í raun átt karlkyns vini sem tala fjálglega um neðri byggðir og hvernig skal bera sig að þegar á hólminn er komið. Þetta er að mínu viti galli í nauðsynlegu þroskaferli. Ég er á því að ég hafi verið svikinn, eða ég hafi svikið sjálfan mig. Stundum er munurinn þar á milli, mér mjög óljós.

Þegar ég stundaði líkamsrækt í vonlausri tilraun til að koma karlmennsku minni á kopp, þá fékk ég í kaupbæti að hlusta á samræður kynbræðra minna í búningsklefanum. Hvað gerðist helgina sem leið. Hversu mörgum tjellingum var landað osfrv. Mér þótti þetta afar merkilegt. Þetta voru vel stæltir strákar, oftar en ekki með træbal tattú og smá lit á kroppnum. Þeir voru uppfullir af sjálfsöryggi. Heimurinn var þeirra, en ég var aðeins áhorfandi.

Um helgina sem leið, sökum vinnu minnar í hörðum heimi viðskipta átti ég mjög óvanaleg samskipti við tvo karlmenn. Á einhverjum tímapunkti upphófust mjög innilegar samræður um hvernig væri að nota hinn svokallaða “cock ring” eða “arab strap”. Ég leitaði af íslenskri þýðingu sem notuð er yfir þetta áhald ástarlífssins, og komst að því að “cock ring” er kallaður “hersluhringur” á svellköldu móðurmálinu.

Einhver kann að halda að ég jafn illa áttaður og ég er, hafi fyllst hneykslan og viðbjóði yfir útlistun þessara manna, en því fór fjarri. Ég hinsvegar varð sorgmæddur í hjarta mínu, yfir því að eiga ekki alvöru karlmenni fyrir vini, sem gætu leitt mig í gegnum neðri byggðir svo ég geti borið höfuðið hátt eins og guðs barni sæmir, hamingjusamur, glaður og frjáls. Þeir vinir sem ég hef sópað að mér eru ekkert nema djöfuls teprur, sem ræða ekki um neitt sem skiptir raun og veru máli.

Já, það er heilsdagsvinna að vera ömurlegur. Það get ég sagt fullur af sjálfsöryggi.

Mótherjinn

Ég hef sagt sjálfum mér stríð á hendur. Ég hef í hyggju að spara engu til að vinna þetta stríð. Þessi barátta á sér hið arabíska heiti Jihad. Þegar talað er um Jihad nú á dögum er átt við heilagt stríð Múslima gegn vestrænum heimi, eða vestrænum gildum, en þessi skilningur heimsbyggðarinnar er togaður og teygður, svo ég orði það pent.

Jihad á við um hina innri báráttu sem er álitið að hver maður þurfi að heyja. Jihad er staðfesta mannskepnunnar í að breyta rétt, þó sér í lagi þar sem aðstæður eru henni sjálfri ekki hagkvæmar.

Síðustu mánuði hef ég legið í lestri á andlegum fræðiritum úr ýmsum áttum. Ég fann sjálfan mig knúinn til að reyna að betrumbæta mig í andlegum skilningi. Einfaldlega til að komast af í þjökuðum heimi. Ég hef það upp úr einu af þessu ritum að hið viðurstyggilega egó verður að deyja. Egóið eða mótherjinn eins og hann er kallaður í einum af þessum fræðum, er voldugur og bíræfinn andskoti. Mótherjinn er sá hinn sami og reynir með öllum tiltækum ráðum að knésetja manneskjuna með því að telja henni í trú um að hún sé ömurleg eða of mikið fyrirtak til að geta gengið meðal meðbræðra sinna. Mótherjinn framleiðir ótta, vænisýki, feimni, angist, óöryggi, sjálfumgleði, hégóma og þunglyndi, ásamt líkamlegum sjúkdómum sem eru oftar en ekki uppskera þess hvernig sálarlífi manneskjan lifir.

Til að drepa mótherjann er svo ég vísi beint í eina skrudduna sem ég hef verið að lesa, áhrifaríkast að klæða sig upp í trúðsbúning og gera sjálfan sig hressilega að fífli. Því meiri sem niðurlægingin er, því meiri er afraksturinn. Það kann að vera að þessi skrif mín hljómi einkennilega, og að undirritaður sé gersamlega að missa tökin á lífi utan félagasamtakanna, en ég get fullyrt að ég hef aldrei verið betur með á nótunum.