SiggiSiggiBangBang

fallacius pluralibus

Oct
19

Mikill urmull er til af sjúkdómum sem hrjá aumt mannkynið. Sjúkdómar bera torskilin heiti sem einungis er á færi þartil útbúinna fræðimanna að skilja. Þekkjast þeir oftar en ekki á akademískri ólund sem er þrálátur fylgifiskur þess að vera langskólagenginn.

Í lífsins ólgusjó er manninum nauðsyn að kunna nafn á þeirri óhamingju sem hrjáir hann. Það er engum blöðum um það að fletta að eitthvað amar að okkur öllum. Þar fyrirfinnast engar undantekningar þori ég að fullyrða. Það er ólíklegt að manneskja þurfi ekki einhvern tímann á lífsleiðinni að takast á við einhvern ára sem veldur viðkomandi ásamt öllum sem til hans þekkja einhverjum óþægindinum ásamt vel útilátnum skammti af helberum leiðindum.
Það er við þessar aðstæður sem margir gleyma sér gersamlega í þeirri sjúkdómsgreiningu sem þeim hefur verið útrétt af fyrrnefndum uppáklæddum og langskólagengnum. Fólk yfir höfuð er sjúkdómsgreiningunni fegið og margir, þó ekki allir, lifa sig af mikilli ástríðu inn í hlutverk sjúklingsins. “Já, ástæðan fyrir því að mér hefur ætíð liðið bölvanlega er vegna þess að ég er með vélindabakflæði!” gæti einhver tilkynnt digurbarkalega í fjölskylduboði eða á viðskiptafundi. Í þessu tilfelli er búið að koma nafni yfir ófögnuðinn og þrátt fyrir að ekkert verði kannski að gert, líður sjúklingnum mun betur með að geta kallað sig sjúkling. “Hann er svona vélindabakflæðismanngerð!”, gæti einhver sagt um viðkomandi, eða “Hann er með persónuleika gallsteinasjúklings!” Þarna er sjúklingurinn orðinn sjúkdómurinn. Innhald hans er sjúkdómur og allt lífið fer í að vera sjúklingur.

Þess ber að geta að þessi veflókur er ekki skrifaður með þá í huga sem berjast fyrir lífi sínu vegna veikinda.

Ég þekki þetta af eigin raun, þar sem ég undirritaður var sjúkdómsgreindur af uppástríluðum sérfræðingum sem ætti helst að banna öll mannleg samskipti. Ég fór í kjölfarið á því að vera orðinn yfirlýstur sjúklingur að haga mér algerlega samkvæmt þeim sjúkdómi sem greindist með. Ég fór að klæða mig í samræmi við sjúkdómsgreininguna. Sækja viðeigandi kaffihús. Umgangast fólk sem þótti við hæfi . Hlusta á músik sem passaði best við, o.s.frv.
Ég talaði um sjúkdóminn minn látlaust og hafði hann með mér í farteskinu hvert sem ég fór, öllum til óbærilegra leiðinda. Svo kom á daginn að ég var bara ekki með einn né neinn sjúkdóm, heldur var ég bara að kljást við lífið eins og það birtist fólki, með tilheyrandi skini og skúrum.
Það má segja að ég hafi verið eilítið umkomulaus þegar ég komst að þessu. Hver er ég eiginlega ef ég hef ekki einhverjum sjúkdómi um að kenna þegar miður fer?
Er ég kannski maðurinn hennar Jónínu hans Jóns?