Kettir

Það tóku tveir kettir á móti mér, þegar ég kom heim í hlað eftir erfiðan dag á skrifstofunni. Annar þeirra kolsvartur, kippti sér fjandakornið ekkert upp við, er ég gekk inn í betri stofuna. Ég var himinlifandi með þetta, gekk rakleiðis að honum og byrjaði að knúsa og kjassa. Að því búnu gaf ég kvékindinu fínasta mozarella ost, sem hann hámaði í sig. Hann þakkaði pent fyrir sig, en hafði sig á brott þegar ég tók mig til og spilaði Óð til gleðinnar, á klarinettinn minn fína og fallega.

**

Nágrannar mínir, sem og aðrir íglendingar horfðu á leikinn í gær. Ég heyrði í þeim þar sem þeir öskruðu “koma svo”. Er “koma svo” eitthvað sem allir skilja nema ég. Við hvað er átt eiginlega. “Koma svo”. Hvert?
Ég hata handbolta sem og aðrar boltaíþróttir.

Það er gott að hata!

orðagjálfur

Það er hinn mesti misskilningur að þátttaka í samtökum iðnaðarins krefjist þess af manni, að maður fari að haga sér eitthvað öðruvísi en maður gerði þegar maður var og hét. Eitt útilokar ekkert endilega annað. Það að pissa undir í lífssins ólgusjó hefur til að mynda aldrei verið ánægjulegra en eftir að undirritaður sótti um aðild að ofangreindum samtökum. Það hefur margsannað sig að menn þurfa ekki að láta af þartilgerðum fávitahætti þó svo að þeir komist til álna í títtumræddum félagsskap. Það skiptir hinsvegar höfuðmáli að bera sig mannalega, tala hátt og snjallt, helst þannig að enginn komist að, eða þá að ekki heyrist í öðrum.

Það kemur fyrir að ég sit með fólki sem ber sig alveg sérstaklega mannalega. Oftar en ekki, við þannig aðstæður held ég að mér höndum, og ekki er laust við að mér líði eins og barni í hópi fullorðinna. Þetta er einkennilegt, því í sumum tilfellum er um að ræða fólk sem er mun yngra en ég sjálfur. Það er óhjákvæmilegt er lagt er við hlustir, að fá það á tilfinninguna að þessir aðilar beri höfuð og herðar samfélagsins eins og við þekkjum það.

Mér finnst þetta persónulega fyndið, og ég finn mig jafnvel í félagi við þessa menn og í búningsherbergi niður í Laugum, með graðfolunum sem voru að landa gellum helgina sem leið. Svo á hinn bóginn, þegar kafað er dýpra að þá er mál þessarra manna álíka mikið orðagjálfur og þessir veflókar sem ég skrifa hér á mínum samastað á alnetinu prýðilega. Því eitt er víst að innihaldsminni veflókar skrýddir stórum orðum og orðasamböndum eru vandfundnir.

Það er verið að gera gys að mér

Ég skrifa ekki fleiri veflóka um laugaveginn, því ég er svo blessunarlega fluttur yfir á Óðinsgötuna prýðilegu. Ég bjó á laugaveginum í fjögur ár, og eru þetta töluverð viðbrigði fyrir mann jafn einhverfan og undirritaður er.

En nú spyr ég, er verið að gera gys að mér? Nú hvers vegna, kann einhver að spyrja sig.
Jú, vegna þess að það er verið að spila heila breiðskífu með Bjartmari Guðlaugssyni, hér á hæðinni fyrir ofan mig. Þegar ég heyrði laglínuna “með vottorð í leikfimi skoða ég bæinn minn”, hélt ég að þetta væri eitthvað flipp í nágrönnum mínum, en þar skjátlaðist mér all verulega, því þau eru að spila alla plötuna, rétt á meðan þau ryksuga og punta hjá sér. Enginn smá stemmari það.

Ég veit ekki um neitt skelfilegra en þetta tímabil í mannkynsögunni, þegar þetta lag náði vinsældum. Ég var unglingur með unglingakomplexa, núna er ég hinsvegar fullorðinn með fullorðinskomplexa.

Nei, það er ekki svona gaman.

Fyrirtækjavefir þar sem birt er ein mynd eða fleiri af fólki hlæjandi eins og fífl vegna þess að það er svo æðislegt að vinna hjá viðkomandi fyrirtæki eru að mínu mati ein sú viðbjóðslegasta klisja sem fyrirfinnst á alnetinu prýðilega.

Oftar en ekki er hafður með á myndinni blökkumaður, eða manneskja með asískan uppruna. Þetta er gert til að fyrirtækið sé álitið fordómalaust þegar aðrir kynþættir en sá hinn hvíti á í hlut.

En þrátt fyrir að vera ógeðsleg klisja, þá enn þann daginn í dag er þetta aðferð sem er víða notuð. Ekki þarf að eyða löngum tíma í að finna fyrirtækjavef, þar sem er mynd af einhverjum fáráðlingum hlæjandi yfir einhverju snéðugu. Og hvað vitum við um það hvað þetta fólk er að hlæja af. Gæti ekki mögulega verið að þarna sé á ferðinni eitthvað andstyggðarpakk að gleðjast yfir óförum manna eins og Guðmundar í Byrginu. Er það hugsanlegt?

Dr. Bob er dáinn

Það hryggir auman mig að Dr. Bob fraus í hel fyrir hartnær sólahring síðan. Hann hefur prýtt gluggakistu mína í orðrómuðu kaupsýsluhreiðri mínu og hórkonunnar frú Sigríðar.

Ég var fyrir nokkrum mánuðum síðan beðinn um að passa Dr. Bob fyrir unga stúlku sem vinnur á sömu hæð og ég og hóran. Unga stúlkan þurfti að sinna kaupsýslu í útlandinu stórkostlega, en gat ómögulega tekið Dr. Bob með sér.

Hann var þá ekki nema lítil spíra í potti. Lítill og varnarlaus í andstyggilegum heimi, fullum af vondu fólki með steinhjarta. Ég sem hef aldrei verið mikill pottaplöntumanngerð, tók hann að mér og sýndi honum ástúð og nærgætni, sem varð þess valdandi að hann óx og dafnaði í kærleiksríkum félagsskap við undirritaðan. Á örfáum mánuðum var Dr. Bob orðinn það stór að hann rúmaðist vart í gluggakistunni.

En í morgun kom ég að honum dauðum og verð ég að segja að ég varð sorgmæddur í hjarta mínu. Ég varð óneitanlega fyrir smá áfalli. En enga fékk ég áfallahjálp, því ég deili skrifstofu með fólki sem hefur aldrei elskað og kann það ekki.

Dr. Bob er afleggjari af plöntu sem samnefndur gubbaði yfir á síðasta drykkjutúrnum sínum í Akron Ohio fyrir rúmum 70 árum síðan. Síðan þá hefur afleggjari þessi gengið manna á milli og verið stoð og styrkur þeirra er þreyta kaupsýslu í samtökum iðnaðarins.