SiggiSiggiBangBang

Nornabrenna

Mar
09

Blogheimur ásamt fréttamiðlum hafa lagst á eitt að úthúða og hæða ónefndan doktor við Háskóla Íslands. Ég persónulega þekki fljótfærni nokkuð vel af eigin rammleik. Þ.e að eitthvað málefni sem mér er annt um geri það að verkum að ég dragi annaðhvort rangar ályktanir, eða að ég dragi réttar ályktanir og bregðist rangt við. Að þessu leitinu til, kenni ég í brjóst um doktorinn. Það geta allir hlaupið á sig. Þar fyrir utan tel ég að það sé nokkuð til í þeim pistli sem hún skrifaði, en ég ætla hvorki að hafa það eftir, né að rökstyðja það. Að mínu mati finnst mér gott að doktorinn hafi skrifað þennan pistil. Hann vekur okkur til umhugsunar um hluti sem við hefðum annars ekki velt okkur fyrir. Við erum fljót að berast með straumnum, hneykslast, öskra, garga, úthrópa, brenna á báli osfrv.

– – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – –

Ég vaknaði í morgun með ævintýralegan höfuðverk. Ég var ekki búinn að vera lengi vakandi þegar ég fann mig knúinn til að eiga rómantíska stund með klósettskálinni. Að því búnu lagðist ég upp í rúm. Kötturinn minn hann Mefisto, þessi sem ég gerði burtrækan um daginn, fann á sér að ekki var alveg í lagi með húsbóndann. Svo þar sem ég lá á koddanum tók ég eftir því að kvékindið var eitthvað að baxa við höfuð mér. Yfirleitt sefur hann mér til fóta, en er ekki að aðhafast neitt í námundan við hausinn minn. En í þetta skiptið átti hann eitthvað erindi þarna við koddann minn. Ég var með augun lokuð, enda ennþá sárkvalinn. Áður en ég vissi af, var helvítið búið að hlassa sér svo gott sem beint ofan á hausinn á mér. Upp úr því sofnaði ég. Mig dreymdi að mér hefði vaxið sítt þykkt krullað hár. Í draumnum gerði ég lítið annað en að dást að hárinu. Lokkarnir stóðu út í allar áttir. Þegar ég vaknaði upp var hausverkurinn farinn.