Kærleikur í 101

Karlmaður á fertugsaldri, drekkur ekki, reykir ekki, stundar ekki hórdóm, borðar lífrænt ræktað, er umhugað um að betra sjálfan sig, lifa í kærleik, elska náungann, mennta sig, ná frægð og frama í viðskiptum, -brá undir sig betri fætinum og hrækti á tvo jeppa í dag. Umræddur karlmaður og hreystimenni fór út að hlaupa 10 kílómetrana með Æpöddu á hausnum. Er hann var staddur á Hringbrautinni keyrði – herra ómissandi; er á leiðinni á mikilvægan fund; er að flýta mér svo mikið að ég þarf ekki að taka tillit til meðbræðra minna, -næstum yfir hann. Hlauparinn sem átti ekkert til nema ást og umburðarlyndi, tók sig þá til og hrækti á aftari hluta jeppabifreiðarinnar. Athæfið kom honum sjálfum á óvart. En þó var annað sem kom honum ennþá meira á óvart, það var að um hann fóru straumar af gleði og hamingju. Hann ákvað með sjálfum sér að þetta kæmi hann til með að endurtaka við fyrsta tækifæri. Yfirgangur og ókurteisi í umferðinni á ekki að líðast.

Eftir að hafa hlaupið heilan hring, sem reiknast eftir vísindalegum aðferðum sem u.þ.b 10 kílómetrar varð vammlausi hlauparinn var við risastóran pikköpp sem búið var að leggja á gangstéttina, þannig að enginn fótgangandi komst framhjá honum. Mest langaði honum til að stökkva upp á húddið á pikköppnum, og fóta sig leið sem liggur yfir þakið, niður á pallinn og svo áfram gangstéttina. Hann reiknaði í huganum skemmdirnar sem hann kæmi til með að valda, dróg það frá innistæðu sinni á reikningnum í Landsbankanum og fékk út að það borgaði sig að öllum líkindum ekki að láta það eftir sér. Hvatvísi vék fyrir köldu raunsæi. Hlauparinn neyddist til að taka krók út á götu til að komast framhjá. Hann leit sem snöggvast á bílinn sem var stífbónaður. Áður en að hann vissi af gekk hrákan upp úr honum yfir glansandi 10 milljón króna jeppann. Hlauparinn brosti; honum leið vel á sálinni.

Í Æpöddunni hljómaði þetta lag: [MEDIA=10]

Hann hljóp þann spöl sem hann átti heim í hlað, fór í sturtu, og bað Guð almáttugan í himinhæðum um að gera þetta að góðum degi. Honum varð að ósk sinni.

Hver er þessi Kalli Bjarni?

Ég reyni að forðast það í lengstu lög að skrifa moggablogg, en í þessu tilfelli get ég ekki haldið hestum mínum innan girðingar.

Ég varð fyrir því óláni að horfa á Kastljós í gærkveldi og það var ekki annað að sjá en að það væri gúrkutíð hjá RUV. Ennþá meiri gúrkutíð er hjá mér, því ég hef í hyggju að blogga um gúrkutíð sjónvarpsins.

Þarna var á ferðinni tilfinningaklám í hæsta gæðaflokki. Dramatískt viðtal við örvæntingafulla móður, sem sagðist viss um að sonur sinn hefði verið neyddur til að vinna fyrir sér sem burðardýr. Ég hef fulla samúð með þessari konu. Ég hef ennþá fulla samúð með því fólki sem stóð mér næst þegar ég var og hét.

Lesið var upp bréf sem Kalli Bjarni skrifaði bróður sínum. Undir bréfinu held ég að hafi hljómað lítill lagstúfur eins og er spilaður í Oprah þáttum, þegar viðmælendur og þeirra saga er presenteruð. Ég veit ekki með aðra, en ég fann ekki fyrir neinu. Mér fannst þetta bara alveg ótrúlega hallærislegt. Upplesturinn á þessu bréfi var látinn hljóma eins og síðustu orð þessa manns og var áhorfandum gert að taka þetta alveg sérstaklega nærri sér.

Þegar líða fór á þáttinn vaknaði upp sú spurning hvort Kalli Bjarni hefði orðið fíkninni að bráð sökum frægðar? Hvaða frægð? Ég man ekki til þess að hafa heyrt eitt einasta lag með þessum Kalla Bjarna. Ég held ég hafi aldrei heyrt hann syngja. Ekki svo að skilja að fólk verði ekki frægt án þess að ég heyri nokkurn tímann í þeim. Ekki var nóg með að þessi spurning vaknaði, heldur fór einn af þáttastjórnendum að velta því fyrir sér hvort það þyrfti ekki að gera eitthvað í því þegar fólk verður frægt; kannski svona forvarnarnámskeið fyrir íslendinga sem eiga það á hættu að öðlast heimsfrægð á Íslandi.

Alvarleiki málsins var svo undirstrikaður með að kalla til authority okkar íslendinga þegar kemur að frægð, frama og fíkniefnaneyslu: Bubbi okkar Morthens. Bubbi hefur marga fjöruna sopið og veit hvað er að vera bæði frægur og fullur. Spyrjandinn reyndi eftir fremsta megni að gera Bubba ábyrgan fyrir vesalings Kalla Bjarna, sem fyrir mikla ólukku “lenti” í eiturlyfjum. Hún falaðist eftir því hvort Bubbi hefði virkilega ekki tekið eftir því að fórnarlambið hann Kalli okkar Bjarni hefði átt við fíkniefnavanda að stríða. Ég endurtek mig og spyr: hver er þessi Kalli Bjarni? Er þetta eitthvað celeb? Í hvaða veruleika býr þetta fólk?

Tilfellið er að fólk hefur raunverulegan áhuga á þessu. Það sést best á því hvaða tegund greina eru mest lesnar á morgunblaðsvefnum.

Það er kannski ég sem er ekki í takt við íslenskan raunveruleika?

ísitvhav

Ég sá gullfallegan kvenmann í umferðarsultu fyrr í dag. Hún varð mín var og veifaði til mín. Ég roðnaði léttilega og veifaði til hennar á móti.
Ég gleymi því ekki, að einu sinni endur fyrir löngu sat ég til borðs með manni sem var nýorðinn hennar fyrrverandi. Hann var að segja okkur frá því sem á daga hans hafði drifið. Ég þóttist hafa áhuga á því sem hann var að segja, en það eina sem komst að í hausnum mínum prýðilega var að hann væri bölvaður kjáni að klúðra samskiptum sínum við þessa glæsilegu konu.

Ef aðstæður væru aðeins öðruvísi, þá stykki ég um borð í flugleiðavél og héldi út í heim. Mér leiðist Ísland alveg stjarnfræðilega þessa daganna. Ég nýt mín best í sól og sumari. Hvorugt er að finna hér.

Allt verður í lagi

Ég er staddur í gleðskap með lykilmanneskjum í íslenzku viðskiptalífi. Skálað er í freyðivíni og glatt er á hjalla. Að máli við mig kemur Ingibjörg Sólrún og mér til mikillar undrunar, þá leiðist henni hófið alveg skelfilega. Hún segir mér að enginn þarna búi yfir heilindum, -að allir gestir samkvæmisins séu misgóðir í að fela raunverulegan ásetning sinn.

“Komum okkur í burtu héðan,” segir hún og brosir blíðlega “…ég á tveggja manna fisflugvél út á Reykjavíkurflugvelli. Skreppum til Detroit, þar er fólk sem ég vill kynna þig fyrir.” Mér sem að leiðast samkundur af þessu tagi alveg óheyrilega, tek vel í boð Ingibjargar. Ég segi henni að ég þurfi að pissa, og að því búnu komi ég út á flugvöll.

Ekki er mér ljóst hvað gerist í millitíðinni, en það næsta sem ég veit, þá ligg ég fyrir í rellunni hennar Ingibjargar. Hún er oggulítil og minnir meira á kajak en fisflugvél. Það er kalt og í móðurlegum kærleik breiðir Ingibjörg yfir mig flísteppi frá KB banka. Hún setur upp gamaldags flughettu úr leðri. Vélin litla rétt svo hefur sig til flugs og áður en ég veit af erum við komin til Detroit.

Ingibjörg leiðir mig inn á skrifstofu í gömlu rauðbrúnleitu steinhúsi við eitthvað breiðstræti. Þar hitti ég mann sem líkist einum lækninum í Grey’s Anatomy. Ég heilsa honum kurteislega, en gef mig ekki frekar að honum út af því að ég kann ekki við hann.
Til okkar kemur undurfögur kona. Kona sem frá mínum bæjardyrum séð er ákaflega tíguleg og með töfrandi útgeislun. Hún brosir svo fallega til mín að ég er að því komin að bráðna. Ég svitna og mér verður órótt, en samt ekki þannig að mér líði illa.
Hún brosir og réttir út hendurnar, gengur að mér og áður en ég fæ rönd við reist er hún búin að fanga mig í faðm sér. Ég faðma hana á móti. Ég finn fyrir frið. Mér líður vel. Ég vill ekki vakna. Hún segir mér að allt verði í lagi.