SiggiSiggiBangBang

kjaftablaður

Jul
10
starwars74.jpg

Ég ræddi það í gær við Obi Wan Kenobi hvað er viðeigandi í samskiptum við fólk. Það er tildæmis ekki viðeigandi í gleðskap að spyrja einhvern sem bregður sér á salernið hvort viðkomandi sé að fara að fá sér að kúka. Það þykir heldur ekki fínt að sitja til borðs með fólki og lýsa því yfir hversu gott það væri að vera bara dauður. Það er eitt og annað sem ekki þykir við hæfi að segja í hópi fullorðinna. Það er hinsvegar ásættanlegt þegar maður er staddur meðal fólks að tala um eitthvað eins og stjórnmál, veðrið, markaðinn, menningu og fleira í þá veruna. Vandamálið með mig er að mér finnast öll þessi látalæti alveg yfirnáttúrulega leiðinleg. Ég er með öðrum orðum alveg sérstaklega illa að mér í svokölluðu froðusnakki. Yfirborðshjal hefur vafist svo fyrir mér að ég hef íhugað að fara á námskeið til að tileinka mér meiri færni í því. Ekki svo að skilja að ég gefi mig út fyrir að vera einhvern snilling í vitrænum og djúpum samræðum. Mér líður best meðal fólks þegar ég þarf ekki að vera gefa mig út fyrir að vera eitthvað sem ég er ekki. Mér líður vel með því fólki sem kippir sér ekki upp við að ég bresti allt í einu í söng, sem ég reyndar geri iðullega.

Í dag hitti ég konu á Laugaveginum, sem ég reyndi að eiga samskipti við fyrir kurteisissakir.
“Já, blessuð. Bara blíðan.” sagði ég, meðan ég gat engan veginn leynt því hversu hræðilegt mér fannst að vera fyrri til að tala um veðrið, bara í þeim tilgangi að segja eitthvað. Tala í þeim tilgangi einum að tala. “Já, það er svo yndislegt að vera í fríi þegar veðrið er svona mikið æði.” sagði hún og brosti út að eyrum af gleði yfir því hvað veðrið var yndislegt, heimurinn frábær og guð góður. Hvað í fjandanum á ég að segja næst, hugsaði ég með sjálfum mér. Ég brosti eins og fáviti og bætti við: “Já, er þetta ekki dásamlegt.” “Jú, svo sannarlega,” sagði hún og hló. Ég verð að finna mér undankomuleið, hugsaði ég og jók gönguhraða minn. “Alveg yndislegt,” sagði ég “…..sjáumst.” Ég veifaði henni þar sem hún hvarf í mannfjöldann.

Skelfing og hryllingur.

Ég gæti líka verið staddur í boði þar sem ég er spurður að því hvernig fyrirtækið mitt gengi. Mér leiðist sú spurning alveg ævintýralega. Ég er þess viss að enginn hafi raunverulegan áhuga á því og það er orkusóun fyrir mig að vera sífellt að blaðra um það. Jú, ég veit að til eru menn sem eyða alveg óheyrilegum tíma í að tala um fyrirtækið sitt eða hversu vel þeim gengur í viðskiptum, en mér finnst það sjálfum alveg ógeðslega leiðinlegt. Það eru því litlar líkur á að einhver komi að mér á stefnumóti talandi um fyrirtækið mitt, þangað til hinn aðilinn afsakar sig meðan hann fer á salernið og kemur aldrei aftur. Það reyndar eru svo gott sem engar líkur á að einhver finni mig á stefnumóti, vegna þess að ég er ekki bara fáviti í froðusnakki heldur er ég apaköttur þegar kemur að samskiptum við hitt kynið líka.

07.07.07

Jul
07

Í dag eru sjö ár síðan ég…………..

Rusl rusl rusl rusl rusl

Jul
05

Svokallaðir vinir mínir plötuðu mig með sér á Die Hard 4.0. Ég held ég hafi ekki séð annað eins rusl það sem af er þessu ári. Ég leið kvalir undir endann svo ógeðslega leiðinleg var þessi mynd. Bíósalurinn var pakkfullur af unglingum sem lyktuðu af pizzaáti og sjálfsfróvun. Þegar John McClane tók tilfinningaþrunginn monologue um það hvað það væri dýru verði keypt að vera hetja, þá veltumst ég og vinur minn úr hlátri. Við uppskárum illt auga allra nærstaddra; að við voguðum okkur að hlæja í þessum viðkvæma kafla í myndinni. Endemis steypa. Þessi mynd er að fá 8.2/10 á imdb; 17.000 manns hafa kosið. Ég er svo hlessa, er fólk kannski bara eitthvað brjálað. JibbíogJæja var kannski ógeðslega sniðugt í fyrstu Die Hard myndinni, en guð sé oss næstur að fylgjast með ellidauðum Bruce Willis leika þetta himpi gimp enn eina ferðina, segjandi sömu brandarana er algert gubb. Það er ekki oft sem ég er svona gáttaður yfir aumkunarverðri frammistöðu í kvikmyndagerð, en þessi mynd fær vinninginn yfir verstu myndir kvikmyndasögunnar. Varist hana eins og heitan eldinn.

4. júlí

Jul
04

Í rassaborugat með Ameríku og allt sem hún stendur fyrir.

Félagsleg þroskahefta

Jul
01

Eins og áður hefur komið fram á vefsetri mínu er ég ekki áhugamaður um stangveiðar. Ég ætla ekki að fara að taka upp á því að rökstyðja andúð mína á stangveiðum. Ég er ekki vanur að beita rökum þegar kemur að kreddum sem þessum og ekki ætla ég að reyna að útskýra þessi sjónarmið af einhverri skynsemi.

Ekki er nóg með mér hryllir við stangveiðum heldur hef ég ímugust á hverskyns boltaíþróttum. Það eru þessvegna ekki miklar líkur á að til mín sjáist á ölkrá, þar sem boðið er upp á beinar útsendingar af knattleikjum. Enn síður færi ég á völlinn með kynbræðrum mínum, til að sýna liðinu – sem við höfum sameinast um að hafa dálæti á – stuðning. Ég hata fótbolta og boltaíþróttir svo mikið að það jaðrar við heilabilun.

Svo þegar ég fer að hugsa þetta aðeins betur, þá man ég ekki eftir neinu áhugamáli – sem ég hef tileinkað mér – sem ég hef getað notað til að tengjast karlmennsku minni.

Ég hef reynt við eitt og annað sem flokkast undir karlaáhugamál. Þegar ég var í kringum tvítugt þá rembdist ég hvað ég gat við að hafa áhuga á bílum og bílaviðgerðum. Eins og oft áður var ég í tilvistarkreppu og taldi að ef ég reyndi með einhverju móti að tengjast mínum innri karlmanni, þá myndi mér jafnvel líða ögn betur. Þar skjátlaðist mér hrapallega; smurolía, gírkassar og spindilkúlur urðu ekki til að bæta geðheilsu mína.

Ég hef líka reynt að leggja ástund á einskonar jaðarsport. Á gamalsaldri lét ég hafa mig út í að sanna karlmennsku mína með því að stökkva niður í hyl á Kjalarnesi. Enn og aftur var mér mikið í mun að tengjast minni innri karlmennsku. Eftir að hafa stokkið fram af fjögurra til fimm metra háum kletti, var ekki laust við að ég bæri mig ögn betur. Mér fannst ég öllu karlmannlegri; gott ef að rödd mín dýpkaði ekki eftir þetta frækilega afrek. Ég bar mig mannalega en þeim sem með mér voru þótti frammistaða mín einskis virði, því þarna var enn hærri klettur; heilir ellefu metrar. Tveir úr þessum hóp voru búnir að stökkva fram af þeim kletti. Ég hugsaði með sjálfum mér að ég gæti ekki verið eftirbátur þessarra manna. Annar þeirra var yfirlýstur hálfviti og ég gat engan veginn látið það spyrjast út að hann hefði stokkið ellefu metrana en ekki ég. Það fór því svo að ég lét vaða. Ég hugsaði ekki mikið um hvað ég væri að gera, enda borgar sig engan veginn að blanda skynsemi og karlmennsku saman. Búmm, bamm, splass, – eitthvað lenti ég illa, því ekki bara uppskar ég fagurt brunasár af þeim núningi sem varð þegar ég skall á vatninu, heldur splæsti ég líka í heimsókn á bráðamóttökuna með þetta líka fyrsta flokks rifbeinsbrot, sem tók heilar sex vikur að gróa. Karlmannlegt ekki satt?

Á þeirri stundu ákvað ég að hin svokallaða karlmennska væri ekki fyrir mig. Enda hvað í andskotanum er karlmennska: Heimska og fávitaháttur?