SiggiSiggiBangBang

They shoot horses don’t they.

Sep
22
yawn.jpg

Þá hefur það verið gjört opinbert, að ég er orðinn gamall kverúlant sem hefur dálæti á köttum. Enn og aftur dettur mér í hug titill á bíómynd sem ég sá þegar ég var krakki, hún hét They Shoot Horses Don’t They. Mikil átakasaga um par sem tekur þátt í maraþondanskeppni á kreppuárunum. Þátttakan, er þeirra eina von um að komast af, því í vinning eru vegleg peningaverðlaun. Þegar þau svo vinna ekki keppnina, biður konan – sem er leikin af Jane Fonda – manninn um að skjóta sig í hausinn. Hann í örvæntingu sinni verður við beiðni sinnar heittelskuðu. Titill myndarinnar er svo tilvísun í eftirfarandi díalók:

Policeman: Why’d you do it, kid?
Robert: Because she asked me to.
Policeman: Obliging bastard. Is that the only reason you got, kid?
Robert: They shoot horses, don’t they?

Ef ég man rétt, þá var mér vísað út úr sjónvarpsherberginu, þegar Robert lét vaða. Það var til siðs á mínu heimili, þegar ljót atriði voru í bíómyndum, að skipa mér fram á gang á meðan. Þetta gekk þó ekki upp í öllum tilfellum, því foreldrar mínir sáu tildæmis ekki fyrir atriðið í The Picture Of Dorian Grey, þegar Dorian Grey afhjúpar málverkið af sjálfum sér upp á háalofti. Það atriði er ör á barnæsku minni og mig hryllir ennþá þegar ég hugsa um það.