SiggiSiggiBangBang

Ann Maxalikk

Sep
23
sjonvarpsglap.jpg

Þarna sit ég í sjónvarpsherberginu. Ég er ekki ýkja spenntur yfir dagskránni, en eins og sjá má á innfelldu myndinni er verið að flytja veðurfréttir. Ég skildi aldrei eitt né neitt í veðurfréttum. Fyrir mér hljómuðu veðurskýringar eins og kveðskapur vitstola manns: “Suð, suð, vestan, súld, rigning, norðanvindur, él, vestan, austan, stormur, Ann Maxalikk.” Hver var þessi Ann Maxalikk, og hvers vegna var alltaf verið að minnast á hana í veðurfréttum? Og þessar teikningar. Jú, ég vissi að þetta voru útlínur Íslands, besta lands í heimi, en hvaða hringir og strik voru þetta. Hverjum datt þetta eiginlega í hug?

Ég fékk heldur ekki skilið hvers vegna allir þurftu að láta af þeim munaði að tala á meðan á veðurfréttum stóð. Afhverju veðurfréttir skiptu hann pabba minn svona miklu máli, áttaði ég mig engan veginn á. Hefði pabbi verið sjómaður, hefði ég mögulega skilið þennan áhuga, enda töluvert um sjóslys á þessum tíma, en hann pabbi var ekki neinn sjómaður, hann var kennari af fínustu sort.

Það var svo seinna að ég skildi að veðrið ákvarðaði það, hvernig skapi maður gæti leyft sér að vera í. Ef að spáin fyrir morgundaginn, var slæm, þá var alveg ástæðulaust að leggja sig eitthvað sérstaklega fram um að vera léttur í lund. Það var hundur í öllum, og skapaði það óneitanlega létta afslappaða stemningu þar sem fólk sameinaðist í hjörtum sínum um að vera geðstirt og fúlt. Einstaka sinnum gerðist það þó að spáin var góð, en þá urðu allir eins og fífl og vissu ekki hvernig þeir áttu að haga sér, en sem betur fer heyrði það til algerra undantekninga.