Hvurskonar orð er supercalifragilisticexpialidoceous?

[MEDIA=21]

Ég sá þessa mynd í Gamla bíói með hipp og kúl systur minni. Ég var þá barn og hún með bílpróf. En hvaða tegund af orði er supercalifragilisticexpialidoceous, og hvað gerir það svona lýsandi fyrir ofsagleði og umframkátínu? Hvernig er þetta orð íslenskað? Mér kom til hugar orðið yfirburðaframúrskínandi, en meira að segja það fangar ekki fyllilega töfrabrögðin sem leynast í þessu orði. En hvað um það, það ætti engum að vefjast tunga um tönn, þegar sungið er með þessu myndbroti, því að meðfylgjandi er söngtextinn.

Koma svo!

Ég hefi gert stórar uppgögvanir, með því einu að gúggla.

chicken_soup.jpg

Þegar gyðingar fá subbupest, hafa þeir tröllatrú á að kjúklingasúpa sé best til þess fallin að koma sjúklingi aftur til heilsu. Til þessa hef ég haldið að þetta væri nánast beint upp úr Torah og Talmúd, en svo er nú aldeilis ekki.

Oft þegar mér finnst eitthvað vera að naga annaðhvort sál mína eða líkama, þá leggst ég í þartilgert gúggl til að athuga hvort einhver kunni góð ráð við tildæmis Multiple Personality Disorder eða kvef og hitapest.

Nú vill svo óskemmtilega til að ég hef ekki getað hlaupið í tæpa viku sökum subbupestar sem hóran hún fröken Sigríður hefur sjálfsagt smitað mig af. Í örvæntingu og allnokkurri skelfingu setti ég mig í samband við internetið snemma í morgun, og gúgglaði þangað til það bogaði af mér svitinn.

Á ekki ómerkari vef en doktor.is, las ég um hin og þessi viðbrögð við veikindum af þessu tagi, þar á meðal var mælt með kjúklingasúpu sem miklu undralyfi. Ekki var vitað nákvæmlega hvað það var í súpunni sem hafði þessi tortímandi áhrifa á veiruna, en fólki bar saman um að ekki gerði súpan illt verra. Örvilnaður, hvorki heill né hálfur maður, hugsaði ég með sjálfum mér að ég þyrfti jú að borða eitthvað og að það gæti ekki sakað að prufa þessa remedíu. Það varð því úr að ég fór leið sem liggur í Hagkaup og keypti hráefni fyrir ótal þúsund kalla. Ég hugsa að ég hafi borgað 2000-2500 krónur bara fyrir efnið í súpuna. En guð sé oss næstur, hvað þessi súpa lukkaðist vel. Og hér gefur að líta á mynd af súpudisknum, rétt áður en ég hesthúsaði gúmmilaðið af dónalegri áfergju sem ég ætla ekki að útlista hér á vefsetri mínu.

Uppskriftina fær enginn. Ég ætla að liggja á henni, eins og ormur á gulli.

shalom shalom

Gosdrykkjadilemma

dead_soldier.jpgÞegar ég var lítill strákur var besti vinur minn gömul kona sem bjó spölkorn frá mér. Þegar ég fór í heimsókn til hennar gaf hún mér alltaf mjólk og kremkex. Hún passaði upp á að eiga alltaf nóg til af kexi og gúmmilaði, ef ske kynni að ég kíkti við hjá henni, sem ég gerði nánast daglega.

Árin liðu og nú er ég sjálfur orðinn gamall maður. Ég var staddur í kjörbúð um daginn, þegar ég stóð sjálfan mig að því að kaupa inn þrjár flöskur af eftirlætis gosdrykk manneskju sem mér þykir afskaplega vænt um. Ég hugsaði með sjálfum mér, að það væri nú snjallt fyrir mig að eiga þessa tegund af gosdrykk, ef þessi tiltekna manneskja bankaði upp á hjá mér. Þegar heim var komið, raðaði ég flöskunum samviskusamlega inn í ísskápinn, ásamt öðrum vörum. Það var svo ekki komið kvöld, þegar ég hugsaði með sjálfum mér að það sakaði ekki að drekka eina flösku, ég ætti þá tvær upp á að hlaupa ef svo ólíklega vildi til að þessi blessaða manneskja tæki hús af mér. Ég tók tappann af flöskunni og þambaði innihaldið. Mikið var þessi gosdrykkur svalandi. Í mér var ekki vottur af eftirsjá.

Deginum eftir, fór ég út að hlaupa. Þegar ég kom heim, áttaði ég mig á því að soda stream vélin var kolsýrulaus. Ég mundi eftir gosdrykkjaflöskunum inn í ísskáp. Mér varð hugsað til orða Oscar Wilde: Freistingin er til að falla fyrir henni, berjist gegn henni og sál yðar verður sjúk í þá hluti sem hún hefur bannað sjálfri sér. Áður en ég vissi af stóð ég með tóma gosdrykkjaflösku í hendinni, í þetta skiptið eilítið skömmustulegur. Nú, átti ég eina flösku eftir. Ég hugsaði að það væri eiginlega ómögulegt að eiga ekki tvær flöskur, því ef gest þennan bæri núna að garði, yrði ég að skála í vatni meðan viðkomandi teygaði þennan ljúffenga drykk. Ég greip því síðustu flöskuna, og kálaði henni.

Vertu vinur minn á facebook eða ég drep mig!

Í hádeginu í dag hitti ég fyrir mann, sem ég bað um að verða svokallaður vinur minn í netsamfélaginu facebook. Ég sagði honum að hefði hann ekki samþykkt að verða vinur minn á facebook, hefði ég og ekki átt annarra kosta völ en að drepa mig. Ég hefð tekið þeirri höfnun sem óyggjandi sönnun þess að ég er ömurlegur, og við það uni ég ekki. Ég hef ekkert við það að athuga þó annað fólk sé ömurlegt, en ég get ekki undir nokkrum kringumstæðum orðið uppvís af því sjálfur.

Svo varð úr að ég fór að íhuga það með sjálfum mér hvort til sé fólk sem tekur því illa ef einhver vill ekki vera vinur viðkomandi í netsamfélagi af þessu tagi. Ég tel líklegt að sumir láti það stjórna lífi sínu og líðan, hver hafi samþykkt að gerast bloggvinur þeirra. Allavega þegar ég skoða viðurstyggilega veflóka morgunblaðsins, sé ég ekki betur en að mörgum þyki afskaplega elegant að raða upp í dálk bloggvinum sem eru: “nafntogaðir.” Ég leyfi mér að setja orðið nafntogaðir inn í eldhressar gæsalappir, rétt til að ýja að því: að sitt sýnist hverjum um frægð manna í fjölmiðlum hérlendis. Ég hef setið til borðs með fólki sem talar um að þessi og hinn sé vinur þeirra á myspace. Ég hinsvegar spyr: hvað þýðir það nákvæmlega? Þýðir það að ef einhver sem manni sjálfum þykir hipp og kúl vill vera yfirlýstur vinur manns í netsamfélagi, að maður sjálfur sé þar með orðinn hipp og kúl? Eða hvað tilgangi þjónar þetta?

me_and_a_turtle_small.jpgHvað er ég að gera á facebook? Ég er ekki á facebook að leita af ástinni, það eitt er klárt. Ástæðan fyrir að ég skráði mig þarna fyrir nokkrum mánuðum síðan er sú að árið 1995 var ég staddur út í Ísrael á samyrkjubúi, með fjöldanum öllum af fólki víðs vegar að úr heiminum. Þetta var áhrifamikill tími í mínu lífi og hef ég oft og mörgum sinnum velt því fyrir mér hvað hafi orðið af þeim sem mér þótti einna vænst um. Rétt upp úr páskum setti maður sig í samband við mig, sem ég hafði kynnst á þessum tíma. Hann var orðinn auðugur lögfræðingur, eins og oft er með gyðinga. Hann sagði mér að á facebook, væru meira og minna allir þeir sem ég hafði kynnst á samyrkjubúinu skráðir notendur. Hann stakk upp á að ég skráði mig, svo ég gæti tíundað hvað á daga mína hefði drifið.

Ég tel mig vera búinn að gera grein fyrir hvers vegna ég er þarna staddur. Ég hef þó gaman af því endrum og eins að skoða hverja er þarna að finna. Stundum þegar vel liggur á mér, bið ég meira segja fólk sem ég hef kynnst á lífsleiðinni um að gerast vinir mínir, svo ég geti montað mig af því eins og um frímerkjasafn sé að ræða.

Rúmfatahyskislagerinn

Mér finnst fátt fyndnara en fólk sem lifir í þeirri trú að það sé alltaf verið að hlunnfara það. Ég var einmitt staddur í Rúmfatahyskislagernum um helgina, þegar ég varð var við óánægjuhljóð í ungu pari sem var þarna í rómantískri laugardagsgöngu. “Það er ekki hægt að fá neina þjónustu hérna,” hnussaði feitlagin stúlkan, þess fullviss að þetta væri samsæri gegn henni og opinmynntum kærasta hennar. Hann stóð við þétt við hlið hennar og tók heilshugar undir ummælin: “Hverskonar verslun er þetta eiginlega.”

Ég reyndar man ekki hvort hún hafi verið feitlagin, eða hvort hún hafi bætt á sig 30 kílóum í hausnum á mér síðan þau fönguðu athygli mína. Í minningunni er ég líka búinn að setja á hann svona hvíta hnakkahúfu, eins og þykir móðins meðal vaxtarræktarhnakka. Og þarna stóðu þau, með mig sem vitni. Hann opinmynntur og hún svínalin á McDonald’s. Allt þeirra líf hafði einhver með beinum eða óbeinum hætti svindlað á þeim, eða ekki sinnt þeim, þegar þau höfðu svo rækilega unnið sér inn viðurkenningu meðbræðra sinna.

Ég sat með Obi Wan Kenobi fyrr í dag. Hann hafði orð á að engu væri líkara en ég væri orðinn fordómalaus með öllu. Já, eins og um töfrabrögð væri að ræða, sagði hann. Ég vildi ómögulega eyðileggja mómentið með að segja þessum andlega leiðtoga mínum frá því þegar ég brá mér af bæ til að kaupa mér tvo sófapúða í Rúmfatahyskislagernum.