Stuttur texti um ládeyðu

Þessa daganna ræ ég ládeyðu lífsins og ekki laust við að mér drepleiðist allt mannanna prjál. En ég brosi eins og fábjáni. Ekki má ég verða uppvís af sorg og sút. Dansaðu fíflið þitt, dansaðu, árétta ég við sjálfan mig. Þau mega ekki halda að þú sért að missa móðinn. Svona áfram með þig.

Næsta uppsveifla verður ævintýri líkast – ég er um það viss. Kannski er orðið tímabært að verða ástfanginn. Það er nú leitin af annarri eins geðveiki og ástarsýki.
Ástin er geðveikisástand í hæsta gæðflokki sem örvar bæði blóðflæði og skapandi hugsun. En þú verður dýrvitlaus, því get ég lofað. En allt er jú betra en að sigla lygnan sjó. Þú veist, – fyrir okkur sem ekki lifum bara fyrir munn og maga.

Nýju nágrannarnir mínir

Ófögnuður og hræðileg viðurstyggð af ófínustu sort. Ég er farinn að ganga um gólf tautandi fyrir munni mér: drepa, drepa, drepa. Þó hafa þau einungis búið hér á hæðinni fyrir ofan mig í tæpar tvær vikur.

Ég hef Gvuð og Jesúbarnið grunuð um að hafa sent þau hingað á Óðinsgötuna til að tortúra í mér viðkvæma sálina. Jesúbarn og Gvuð almáttugur í himinhæðum, hvað hef ég gert til að verðskulda þetta? Því sendið þið mér alltaf tóma unglinga, sem finna sér ekkert betra að gera en að stunda stórfelldar ríðingar, þegar undir áhrifum áfengis? Hvað hef ég gert? Ég sem er hjartahreinasti maðurinn í öllum Þingholtunum! Ég græt beiskum tárum. Ó, mig auman.

Til klukkan 5 í morgun bögglaðist nýi feiti nágranninn minn, við að sýna meðleigjanda sínum ástaratlot, með viðbjóðslegum ólátum sem minntu helst á dansiball svína. Hefði hann andskotast til að vera allsgáður, hefði þessi óþverri tekið af á örskömmum tíma, en eins og allir sem fengið hafa sér í aðra tánna vita, þá dregur úr virkni spritze líffæranna við neyslu áfengis. Þannig að andstyggðin stóð yfir í c.a 2 klukkustundir.

Framan af fór ég með þær helstu bænir sem ég kann, til að viðhalda kristilegu hugarfari mínu meðan á hryllingnum stóð. Næst reyndi ég að finna hinn svokallaða hamingjureit, þar sem ég var aftur orðinn barn og var að leika mér í móanum í Kópavogi. Svo greip ég bók og með herkjum las ég mig í gegnum nokkrar blaðsíður.

Yfirleitt er ég vel byrgur eyrnartöppum, ef ske kynni að nágrannar mínir lyfti sér á kreik, eða finni hjá sér löngun til að vinda ofan af sér í enda vinnuvikunnar, en vanþakklátasti köttur í öllum heiminum hún Þórkatla étur alltaf tappana, eins og hún fái ekki nóg að bíta og brenna.
Á endanum missti ég mig og fékk taugaáfall. Ég barði svefnherbergisveggina með höndunum. Endursentist síðan í réttlátu reiðikasti inn á klósett og skellti hurðinni af alefli aftur. Þegar ég kom aftur inn í svefnherbergi var allt dottið í dúnalogn.

Ég hálf skammaðist mín fyrir að missa stjórn á annars fallegu lundarfari mínu. Ég stundaði þó ekki umfangsmikla sjálfskoðun lengi, því ég sofnaði stuttu síðar.

Brúðguminn

Nú er best að skrifa um bíómynd.

Til þessa hefir mér þótt Baltasar ófrumlegur og alveg sérstaklega leiðinlegur kvikmyndagerðarmaður. Brúðguminn hinsvegar er skemmtilegasta íslenska kvikmynd sem ég hef séð í tuttugu ár. Því segi ég til hamingju Baltasar og til hamingju Ólafur Egilsson.

Ég á nokkur eftirlætis atriði, og eitt af því er atriðið þar sem Anna, leikin af gullfallegri Margréti Vilhjálmsdóttur, hleypur nakin út í Jónsmessunóttina og heimtar að Jón ríði sér í dögginni. Jón, sjálfshyggjukrónprinsinn, hefur engan kynferðislegan áhuga á Önnu og þegar hún gerir sér grein fyrir því, skammast hún sín og álasar sjálfa sig með þessum orðum: Ég er ömurleg! Ég er ógeðsleg! Ég fékk gæsahúð og grátstaf í kverkarnar, svo mikið fann ég til með Önnu. Ég hef mikið hugsað um þetta atriði og ekki laust við að ég geti að vissu leyti samhæft með Önnu, verandi sjálfur frík í hæsta gæðaflokki.

Fyndnasta atriðið að mínu mati, er þegar foreldrar Jóns sitja á traktorspallinum á leið sinni til kirkju. Konan diskúterar við mann sinn hvort presturinn í sókninni tilheyri þjóðkirkjunni. Næsta mynd sýnir Ólaf Egils, sem leikur prestinn, eltast við peningana hans Lárusar, sem fjúka í allar áttir á kirkjulóðinni. Karlinn svarar: Ég fæ ekki betur séð.

Hér má svo sjá skemmtilegt video frá gerð Brúðgumans í boði Hildur82 . Takk fyrir myndbandið Hildur.

[MEDIA=109]

Ferilskrá misheppnaðra mannlegra samskipta

Fárveikur hafði ég mig til í gærkveldi, puntaði mig, setti á mig vellyktandi og fór nokkuð ringlaður í hausnum vegna hita, en fullur af góðum ásetningi á árshátíð akademíunnar. Nokkuð bætti ég við ferilskrá mína í misheppnuðum mannlegum samskiptum, en ég er alveg sérstaklega lélegur í froðusnakki og á í bölvuðum erfiðleikum með að gera mér upp einhvern áhuga á einhverju sem ég hef engan áhuga á.

Í eitt skiptið var ég spurður hvert mitt hlutverk væri innan akademíunnar og ég sem var í frekar góðum fíling að gantast í samstarfsfólki mínu, reyndi eftir fremsta megni að svara, en fann ekki neina löngun hið innra til að segja frá starfi mínu, sem mér finnst alveg sérstaklega óspennandi. Ok, ekki kannski óspennandi, en allavega ekki neitt sem ég nenni að tala um þegar ég lyfti mér á kreik.

Ég reyndi að gera röddina mína aðeins dýpri og bera mig svolítið mannalega. En hversu mikið sem ég reyndi að sýna spjallinu áhuga, uppskar ég ekki árangur sem erfiði, enda báru tilsvör mín þess merki: Jú, jú, við erum með fullt af tölvum, sagði ég og vonaði að svarið væri tæmandi og ég fengi frið til að halda áfram að haga mér eins og fífl. Ég varð ekki að ósk minni, og þurfti að halda áfram að rembast eins og rjúpan við staurinn, en að lokum sagði ég viðkomandi að vinna mín væri sérstaklega óspennandi og það væri í rauninni ekki mikið meira um það að segja. Gvuð sé oss næstur. Ég hefði átt að getað haldið þetta út og látið sem ég hefði áhuga, en mér var það lífsins ómögulegt.

En svo talaði ég við annan mann um lífið, tilveruna og fallvaltleika ástarinnar, og það var þá sem ég áttaði mig á að ég á miklu betri samskipti við homma og kvenfólk, en karlalega karla. Karlalegir karlar vilja tala um praktísk mál og mér dauðleiðast praktísk mál.

Þrátt fyrir háan hita og slæmsku, fékk ekkert mig stöðvað þegar hljómsveitin hóf spilerí. Ég bókstaflega rauk út á gólfið og dansaði eins og móðurríðari, þannig að svitinn bogaði af mér og draup á dansgólfið. Mikið ægilega er gaman að dansa. Enda mikilll ruþmi og melódía í mér.

Ég fór heim frekar snemma. Snýtti mér. Tók inn sýklalyf. Las síðan til að ganga fimm í morgun. Svona er lífið hjá hjartahreinum karlmanni á fertugsaldri.

Þóttafyllerí

self–right-e-ous
sjálfbirgur, sjálfréttvís, sjálfumglaður, sannfærður um siðferðilega yfirburði sína; þóttafullur.

self-right·eous
confident of one’s own righteousness, esp. when smugly moralistic and intolerant of the opinions and behavior of others.

Það hlýtur þá að vera hægt að tala um þóttafyllerí. En stundum þá koma netheimar mér fyrir sjónir sem eitt stórt þóttafyllerí, þar sem hver moggabloggarinn á fætur öðrum skakklappast rammhálfur og stundum ekki stígandi í lappirnar, á milli umræðuvefa og blogga til að segja öðrum til syndanna, rétt til að honum líði aðeins betur í sínu eigin skinni. Moggabloggari er ekki endilega persóna sem heldur úti bloggi á blog.is, heldur er moggabloggari uppnefni, eða slangur, líkt og tröll eða internet troll. Moggabloggari er þóttafyllibytta.

Að vera moggabloggari er síðasta sort og nú eiga heiðvirðir hjartahreinir netskrifarar, eins og ég sjálfur, undir högg að sækja vegna þóttafyllibyttna. Uppfullar af gremju og ástfangnar af eigin skoðunum leggja þær af stað út á upplýsingahraðbrautina, tilbúnar að reka sannleikann ofan í hvern sem dirfist að láta í sér heyra.

Sannleikann má draga saman í eina setningu: “Ég er æði, en þú ert fáviti!”

Þetta var lítill pistill um þóttafyllibyttur og þóttafyllerí. Ég sprella ekki með það, þegar ég segi að ég hafi það á tilfinningunni, eftir að lesa blogg og athugasemdir, að mér sé ekki óhætt að bregða mér af bæ, nema vopnaður.

Mikið andskoti er ég glaður – hversdagsblogg

51h9z98pzhl_aa240_.jpg
Einkennilegt og mikið skrítið, sérstaklega vegna þess að undanfarnar vikur hef ég helst viljað liggja undir sæng í upphituðu rúmi með bók. Já, hún kemur aftan að manni þessi stórskrítna tilvera.

Og ég hef ekki setið auðum höndum í þessari júforíu minni því ég hef, meðal annars, puntað örlítið heima hjá mér, gert við eitt stykki þvottavél, unnið hörðum höndum fyrir fyrirtækið, svo tók ég mig til og byrjaði að læra á saxafóninn sem ég festi fé í fyrir nokkrum mánuðum.

Ég hafði áður reynt að læra á hann og keypti mér meira að segja DVD kennsludisk, en eftir að hafa horft á diskinn í rétt rúmar 5 mínútur, hætti ég vegna þess að mér þótti leiðbeinandinn svo skelfilega hallærislegur; svo púkó að ég ákvað að læra bara aldrei á saxafón, því ég mætti bara ósköp einfaldlega ekki við því að verða jafn hallærislegur og þessi leiðbeinandi.

Er ég hvað? Hégómagjarn? Þessi ummæli særa hnarreist stolt mitt!

En allavega, meðan ég bíð óþreyjufullur eftir að klarinettið rati heim í hlað, ætla ég að læra á saxafón.

En hver er ástæðan fyrir því að ég er svona ægilega glaður? Ekki er ég ástfanginn….. Ahhh, það er óþarfi að orðlengja þetta frekar, ég hef svarað spurningu minni sjálfur.

Flippaðasti arinn í öllum Þingholtunum

Undirrituðum er umhugað um að hafa skæslegt heima hjá sér og á það til að eyða heilu og hálfu föstudagskvöldunum í að punta og gera fínt. Þetta föstudagskvöld var ekkert frábrugðið öðrum föstudagskvöldum og þrátt fyrir að blíðviðrið drægi aðeins úr framkvæmdagleðinni taldi ég rétt að vopnast ryksuginni og soga upp ló sem safnast hafði í einstaka hornum.

Ryksugan mín til tuttugu og tveggja ára af Hitachi gerð, er geymd fram á gangi, og þar sem ég opna hurðina til að ná í hana, mætir mér sterk brunalykt. Ég ákveð að bíða aðeins með að fá taugaáfall og opna út til að athuga hvaðan þessi lykt er ættuð. Sé ég þá að glóð rignir yfir húsið og virðist koma að sunnan.

Ég loka hurðinni í rólegheitunum og hugsa með sjálfum mér að ég þurfi þá andskotann ekkert að ryksuga því nú sé kveiknað í. Mér léttir svolítið við þetta, en ákveð að halda út í veðrið til að athuga hvort ég þurfi ekki að bjarga nokkrum konum og fáeinum börnum úr brennandi byggingunni. Ég hef mig til og stumra í hinn endann á húsinu og mæti þar nágrönnum mínum, sem ég hef reyndar aldrei áður hitt.

Ég spyr konuna hvort kveiknað sé í. Konan, sem ég hef grunaða um að spila Gvend á Eyrinni og Bjartmar Guðlaugsson þegar hún fær sér í aðra tánna, segir mér að ekki logi í húsinu, heldur sé arnininn á Hótel Holti flippaðasti arinn á öllu Íslandi, og úr honum gangi glóðirnar yfir allt hverfið. Ég með naumindum kemst aftur inn í íbúðina mína og tek til við að ryksuga.

Að öðrum málum.

Húsfundur á Óðinsgötu:
Fundinn sátu Sigurður Einarsson og Þórkatla köttur.
Helstu mál: Gosdrykkja og þá sérstaklega af þeirri tegund sem inniheldur aspartame. Önnur mál.

Var ákveðið að leggja blátt bann á alla neyslu gosdrykkja sem innihalda eiturefnið aspartame. Sigurður talaði um kosti og galla þess að vera alltaf að sötra gos. Hann sagði að aspartame gerði fólk snarvitlaust í skapinu og hefðu vænstu menn orðið að drepurum, við það eitt að drekka gos sem inniheldur þennan óþverra. Tillagan var samþykkt með öllum atkvæðum.

Þórkatla hafði orð á því að sér finndist að það ætti að vera grillaður kjúklingur úr Nóatúni í öll mál. Sú tillaga var felld, hótaði Þórkatla þá að láta sig hverfa í viku, eða jafnvel lengur. Fór þá Sigurður Einarsson næstum að gráta og lofaði að hér yrði ekki boðið upp á neitt annað en kjúkling úr Nóatúni.

Fundi slitið.

Svona er lífið í Þingholtunum.

Sinfóníuhljómsveit lýðveldisins misþyrmt

Atli Heimir komst upp með að misþyrma Sinfóníuhljómsveit lýðveldisins fyrr í kvöld, – með renniskít sem hann lét hana dæla inn í hlustir uppástrílaðra góðborgara. Ég sé allavega enga frétt um að honum hafi verið skellt í gólfið í lok tónleikanna og hann sprautaður með rotskammt af Haldol , svo ég geri ráð fyrir að hann hafi komist undan með hlussufeitt egóið sitt. Elskuleg vinkona, bekkjarsystir og andlegur leiðtogi minn Magga Best dróg mig með sér á þessa tónleika, og kann ég henni bestu þakkir fyrir. Sinfóníuhljómsveitin er afskaplega glæsileg og þótti mér mikið til um. Hvernig Atli Heimir fær afnot af henni er mér hinsvegar hulin ráðgáta. Kannski hefur hann eitthvað á forstjóra Sinfóníunnar, ég tel það líklegustu skýringuna.

Þegar liðið er á sýninguna, fer ég að skima um eftir klarinett. Það er sama hvað ég skima og píri augun, ekkert klarinett virðist vera á sviðinu. Þegar ég er búinn að leita af mér allan grun, verð ég alveg skelfilega miður mín og dreg umsvifalaust þá ályktun að Sinfóníufólkið hafi haft veður af því að ég er að læra á klarinett og hafi því ákveðið að hætta tafarlaust notkun á því.

Ég horfi á Möggu, sem situr við hliðina á mér og tyggur Tópas. Ég ætla ekki að þora að nefna þetta, en get mig svo ekki hamið og hnippi í hana.
Magga mín Best, segi ég aumingjalega, einhver hefur kjaftað því í Sinfóníuna að ég sé að spila á klarinett, nágrenni mínu til ama og leiðinda og ákveðið þess vegna að klarinett sé gersamlega úr móð.
Magga mín Best, sem er vel gefin kona, hlær að mér og segir að þetta sé nú bara vitleysa í mér, að þeir þarna á efri pöllunum séu með klarinett. Nei, þeir eru ekki neitt með klarinett, segi ég með grátstafinn í kverkunum, þeim finnst klarinett vera ömurlegt hljóðfæri eftir að ég fór að blása í það. Það liggur við að ég rjúki bara út, en ákveð að gera það ekki, því þá þarf ég að fara í gegnum mannmergðina, og ég var búinn að koma auga á fullt af fólki sem mig langaði ekkert til að heilsa og brosa til.

Magga mín Best, lætur sem ekkert sé, og heldur áfram að tyggja Tópas. Allt í einu, eins og um galdra sé að ræða, tek ég eftir, ekki einu klarinetti, heldur tveimur. Ég verð ægilega glaður á örskömmum tíma og anda léttar vitandi af því að Atli Heimir fær að vera með klarinett, til að fullkomna djöfulsins garnagaulið sem hann samdi fyrir okkur íslensku smáborgaranna, eins og það var svo pent orðað í dagskránni.

Þórkatla snýr aftur

Mikið hefur mér þótt lífið skelfing leiðinlegt síðan Þórkatla yfirgaf mig fyrir rúmlega viku síðan. Ég hef eiginlega bara ekkert gert, nema grátið. Mér leiddist svo ægilega að ég varð mér út um gubbupest, til að hafa ofan af fyrir mér þegar söknuðurinn var næstum eða gera út af við mig.

En undur og stórmerki. Rétt rúmlega fjögur í nótt heyri ég þrusk fram í eldhúsi. Ég hugsa með sjálfum mér, þar sem ég ligg andvaka, að líklega sé þetta feitahlussukisinn sem ég greip glóðvolgan, fyrr í vikunni, étandi mat sem ég hafði til handa Þórkötlu ef ske kynni að hún rataði aftur heim til sorgmæddasta íbúa Óðinsgötunnar..

Ég nenni ekki fram úr og held áfram að reyna að festa svefn, en heyri að þruskið nálgast svefnkompu mína. Forvitni mín eykst, en mér þykir þó vissara að setja mig í stríðsstellingar, ef þetta er skítuga feitahlussukisan og hún gerist svo djörf að stökkva upp í það allra heilagasta.

Áður en ég fæ nokkuð að gert, er næturgesturinn kominn upp í rúm, og er farinn að fikta eitthvað í bréfi utan af beiskum brjóstsykur sem hefur glatt mig, meðan ég ligg fyrir og les. Ég sest upp í rúminu og þegar ég sé að þetta er hún Þórkatla mín, fer hjarta mitt samstundist að dæla hamingju inn í lagnakerfi sálu minnar.

Elsku besta Þórkatla mín, söngla ég ölvaður af júforíu. Hún svarar mér ekki og ég geri mér grein fyrir að ég verð að hafa hraðan á og gefa henni gúmmilaði, áður en að hún yfirgefur mig enn á ný og skilur mig einan eftir í þessum grámyglulega heimi, fullum af þóttafullum moggabloggurum og viðbjóðslegum hnökkum sem sötra sponsoraða drykki.

Ég sprett á fætur, og rýk fram í eldhús. Svo vel vill til að ég á djúpsteiktar rækjur sem ég keypti dýrum dómum af okraranum Herra Nings á Suðurlandsbraut, en hann hefði betur selt mér mat á kostakjörum, þá kannski hefði ekki kveiknað í rassaborunni á honum. Einnig átti ég harðfisk, sem fallega hórkonan hún Frú Sigríður færði mér, þegar gubbulaðið mitt stóð sem hæst. Þetta tvennt hef ég til á disk handa fagrasta ketti allrar veraldar, sem heitir í höfuðið á prýðilegasta tannlækni sem um getur.

[MEDIA=108]

Hér má sjá Þórkötlu fyrr í dag. Hún er vel mett og ef lagt er við hlustir má heyra hana mala um ágæti þess að vera í fæði á Óðinsgötunni. En hvar var hún í rúma viku? Það veit enginn nema Gvuð.

Dauðinn

Fólki finnst ég stundum eitthvað lítið jákvæður í skrifum mínum og hefur óskað eftir að ég skrifi eitthvað um fegurð lífsins. Ég hef því ákveðið að skrifa fáeinar línur um dauðann og hvernig sé best að haga málum eftir að dauðann ber að garði.

Ég persónulega kvíði ekki dauðanum, kannski vegna þess að mig grunar að ég verði miklu eldri en ég kæri mig um að verða og því töluvert í að ég segi bæ bæ. Ég horfi þó til þess með hryllingi, allt umstangið sem kann að verða í kringum skrokkinn á mér eftir að ég hverf á vit feðra minna.

Ég hef því lagt höfuðið í bleyti, ekki til að drekkja mér heldur til að finna lausn á þessu áhyggjuefni mínu. Lausnin er lítið snjallt júnit, eða infrastrúktúr, sem komið er fyrir á heppilegum stað í líkamanum. Þegar svo litla snjalla júnitið verður þess áskynja að hjartað hefir ekki starfað sem nemur fjórum mínútum, þá setur það af stað mjög svo snyrtilega sprengju þannig að líkamlegar leifar hins nýdauða fuðra upp í örlítilli flugeldasýningu.

Júnitið er ekki fulluppfundið í mínum huga, því hægt væri að bæta við fleiri skemmtilegum eiginleikum. Tildæmis gæti júnitið spilað mp3 sem innihalda nokkur vel valin orð um ágæti þess sem er verið að stimpla út, sent sms til aðstandenda, og að því búnu leyst viðkomandi upp í öreindir.

Með tilkomu svona uppfinningar, er engin ástæða til að hafa áhyggjur af því í lifanda lífi, hvort manni verður holað niður í kristilegum garði, líkið notað í listaverk, að maður verði fórnarlamb Dr. NecroPhil, hvaða tegund af kistu verði keypt, hvort margir mæti í útförina, osfrv, og þar fyrir utan yrði ég vellauðugur á þessari uppfinningu og gæti keypt mér Range Rover, sem er eins og allir Íslendingar vita farartæki hamingjunnar.

Hafa skal í huga að þessi bloggpistill var skrifaður á öðrum degi í gubbulaði.