SiggiSiggiBangBang

Framhjáhald

Mar
26

Framhjáhald er vinsæl dægradvöl hér á landi, og með tilkomu internetsins, er hægt að kokkála meðbræður sína án mikillar fyrirhafnar. Hér á landi, er hægt að stunda stórkarlalegt framhjáhald með hjálp einkamálavefsins einkamal.is. Gárungar og öfundsjúklingar, sem ekki hafa dottið í bullsjóðandi lukkupott ástarinnar á þessum vettfangi, – kalla þetta þokkafulla vefsetur svínastían.is, – og er bitur og kynsveltur undirritaður þar engin undantekning.

Maðurinn, eða konan sem leitast við að nugga kynfærin sín saman við önnur kynfæri sem svipað er ástadd fyrir, setur saman litla kjarnyrta auglýsingu, sem oftar en ekki hljómar svona: Er gift/ur, langar í tilbreytingu, er hreinleg/ur, 100% trúnaður.

Oft fylgja með hagnýtar upplýsingar eins og líkamsþyngd, hvort viðkomandi sé iðinn í ræktinni, og svo að auglýsandinn sé lítið gefinn fyrir rugl. Sjaldgæft er að skarta auglýsingar af þessum toga – persónutöfrum, enda tilgangurinn ekki sá að hittast til að ræða vonir, væntingar, eða eilífðarmálin, – en framhjáhaldarar leiða sjaldan hugann að dauðanum, eftirlífinu, eða hvort þeir þurfi að svara fyrir léttúðina.
Eitthvað þykir mér þó skjóta skökku við að heita 100% trúnaði, þegar fífla á maka sinn. Hvernig getur manneskja sem hefur í hyggju svik af þessu tagi,- heitið 100% trúnaði. – Er hér ekki á ferðinni hið títtumrædda catch 22?

Að framhjáhaldinu loknu, er svo hægt að fara á barnaland.is, til að gorta sig hróðugur af dáðinni. Þykir þá einkar skemmtilegt að skilja eftir sig slóð sem vísar á mögulegan afrakstur framhjáhaldsins, en um 10% barna eru rangfeðruð hérlendis.

Ég?

Ég trúi á ástina, þó hún lifi og dafni aðeins í mínum eigin hugarheimi.