A man with face like harðfisk

Af engu sérstöku tilefni langar mig til að skrifa lítinn fallegan pistil um þurrkuntulegt viðmót okkar Íslendinga. Í þessum pistli reyni ég eftir fremsta megni að hljóma eins og maður sem er skör ofar en allir aðrir, og þess vegna vel til þess fallinn að koma auga á það sem betur mætti fara í okkar meingallaða samfélagi. Ég leitast við að stinga á þau graftarkýli samfélagsins, sem ég tel fullvíst að ég eigi ekki aðild að, og vegna þess að ég stend alltaf fyrir utan það sem ég gagnrýni, er mér fært að vera sérstaklega óvæginn í umfjöllun minni. Pistillinn, sem og flestir pistlar sem ég skrifa, verður drekkhlaðinn séríslenskri minnimáttarkennd. Inngangur hans útlistar hvað allir aðrir eru ennþá miklir fífl og fávitar, meðan ég sjálfur hef þroskast ríkulega.

Gjörið svo vel:

Grunnhugsun Íslendinga í samskiptum við meðbræður sína, er að þeir þurfi annaðhvort að ráðast á þá, eða verjast þeim. Hvort þetta sé arfleifð frá þeim tíma er þjóðin lap dauða og djöful, með tilheyrandi skammt af andskota og helvíti úr skel, vill ég ekki segja til um. Ég hef þó tekið eftir að þetta viðmót virðist sérstaklega áberandi hjá karldýrinu; má þó vel vera að fas kynbræðra minna, fangi sérstaklega athygli mína. Þó hef ég líka oft orðið vitni að íslenskum konum svo illa þjökuðum af minnimáttarkennd að þær finna öryggi í ögrandi og sérstaklega óaðlaðandi framkomu. Hver sem kynjahlutföllin eru, má sjá að þetta viðmót er áberandi hjá flestum sem ganga hér um götur borgarinnar.

Vinkona mín, af erlendum uppruna, átti til nafn yfir Íslendinga, sem þjáðust sérstaklega af þessu: a man with face like harðfisk. Með harðfiskviðmótinu vill Íslendingurinn koma þeim skilaboðum áleiðis að best sé fyrir alla að halda sig í hæfilegri fjarlægð, því ef einhver gerist of nærgöngull – þá hefur hann verra af. Undirrituðum þykir ægilega gaman að fylgjast með þeim sem tileinkað hafa sér þetta úthugsaða viðmót, því þeir leggja svo mikið á sig til að reyna að koma fyrir eins og þeir séu svalir harðjaxlar.

Ég verð þó að viðurkenna, að ég er jafn sýktur af harðfisksyndróminu og hver annar. Ég sjálfur, eins mikil blómarós og ég er, geng ekki alltaf um götur borgarinnar, frjáls og glaður, syngjandi Mary Poppins lög. Þó er ekkert sem ég vildi frekar gera. Ég hinsvegar – svo ég aðgreini mig aðeins frá harðfiskpöpulnum – legg mig alveg reiðinnar býsn fram um að berjast gegn þeim dyntum sem ég greini í fari mínu, burtséð frá því hvernig samfélagið sem ég lifi og þrífst misvel í, hefur um það að segja. Ef ég kem einhverjum fyrir sjónir, sem samkynhneigt semi-karlmenni, meðan ég flautandi lítinn lagstúf – kála skapgerðabrestum mínum, þá gott og vel.

Eitt er víst að þetta líf er alltof stutt og tilgangslaust til að haga sér eins daunillur harðfiskur.

En hver veit, kannski langar okkur öllum til að syngja og dansa niður Laugaveg, full af kærleik og hamingju.

Þegar sjúkdómurinn verður persónan

Orri Harðarson skrifar pistilinn: Ertu maður, eða ertu sjúkdómur? Hann skrifar skýrt og skilmerkilega um málefni sem ég kaffærði í orðaskrúða og slæmri málfræði í færslu frá 19. október, 2006: fallacius pluralibus. Ég veit reyndar ekki hvað þessi titill átti að fyrirstilla, en mér sýnist þetta hafa verið máttlaus tilraun mín til að búa til bull latínu, sem átti að hljóma eins og eitthvað ættað úr læknisfræði. Fallacius pluralibus, er eftir því sem ég best fæ séð: munnmök í fleirtölu. En munnmök er víst ekki til í eintölu. “Á ég að veita þér munnmak, kæra ungfrú?” , sagði ungi herrann og brosti góðlátlega. Nei, ekki aldeilis, – munnmak er ekki flott orð!

Orri Harðarson er frá og með deginum í dag, kominn í gúgúl rass lesarann minn.

Kexklikkaður í félagsvist

Ég hugsa ekki bara mikið um dauðann og eilífðarmálin, því ég hugsa einnig töluvert um ellina og hvernig ég kem til með að verða þegar ég er orðinn gamall kall. Mig hálft í hvoru langar til að verða snargeðveikur kall sem brúkar kjaft við samtíðarmenn sína. Ég vill því biðja fólk á mínu reki að koma fram við mig af sérstakri virðingu og nærgætni, því annars verðið þið fyrir barðinu á mér á félagsheimilum, í þjónustuíbúðum og öðrum stöðum þar sem aldrað fólk kemur saman.

Ég mun tildæmis verða daglegur gestur í félagsvist aldraðra og þrátt fyrir að vera alveg kexklikkaður verð ég framúrskarandi spilamaður sem allir vilja spila við. Ef einhver, sem mér er í nöp við, nálgast borðið sem ég spila við, garga ég, frussa og froðufelli. Ef ég svo myndi afhverju mér væri illa við viðkomandi, þá léti ég fylgja með einhvern vel til fundinn óhroða.

Ég verð að sjálfsögðu með staf, sem ég reiði til lofts, máli mínu til stuðnings. Sá er yrði fyrir barðinu á mér, kæmi til með að hrökklast undan og verða eins og lúpa. Þá myndi ég garga á eftir honum: Komdu svo aldrei aftur í félagsvistina, djöfuls ómennið þitt! Hann drattast þá heim til sín, færi aldrei aftur út fyrir hússins dyr og dræpist einn og yfirgefinn tuldrandi fyrir brjósti sér, hvað hann hefði nú átt að vanda sig betur í samskiptum við SiggaSiggaBangBang í árdaga.

Hvaða tegund af dementíu ég ætla svo að vera með, hef ég ekki enn ákveðið, en af nógu er að taka.

Þessar hugmyndir mínar um ellina, gætu þó hugsanlega eitthvað breyst á komandi árum. Margt af því sem ég hef ákveðið í lífinu, hefur ekki staðist eða molnað niður í tímanna rás. Ég man að fyrir u.þ.b tíu árum síðan, hélt ég að ég vissi bara æði andskoti margt. Í mínum huga, voru skoðanir mínar, hugsanir, viðhorf, með þeim betri sem finna mátti í einum Íslendingi. Ég var að mínu viti, víðsýnt bóhem, sem hafði óbeit á fólki sem lifði heilbrigðu lífi. Lá oft við, þegar ég mætti hlaupara á förnum vegi, að ég bókstaflega hrækti á hann. Núna, tíu árum síðar, veit ég ekki neitt í minn haus. Ég veit ekki hver ég er, hvað ég stend fyrir, hvert ég er að fara, hver tilgangur með þessu jarðlífi er, hvað er í kvöldmat, osfrv. Ég er þó sjálfur orðinn mikill hlaupari. Ég hleyp held ég 40-50km í viku, ef mér heilsast vel.

Kveikjan af þessum pistli mínum um ellina, varð til þegar ég hljóp Skerjarfjörðinn í morgun. Mætti ég þar hóp af eldra fólki, sem var á göngu. Hugsanlega í einhverjum gönguklúbb. Mörg þeirra voru í skærlituðum útisvistarfatnaði. Þau voru ósköp glaðhlakkaleg að sjá. En ég hugsaði með sjálfum mér: Þegar ég verð gamall þá klæði ég mig ekki í svona útivistarfatnað og ég geng ekki með hópi af grautfúlu samtíðarfólki mínu. Ég í mesta lagi, geng með einhverri vinkonu minni suður Laufásveginn, íklæddur frakka, með virðulegan hatt. Svo hugsaði ég þetta aðeins lengra, og þá datt mér í hug að það væri vel við hæfi að verða snargeðveikt gamalmenni.

Ég held þó samt að ég vilji helst verða bara ljúfmenni og ég óska mér þess að verða umkringdur börnum og ungu fólki. Fullorðna fólkið er nefnilega svo fokking leiðinlegt.

Líkræður

Fátt er jafn frískandi á föstudagskvöldi og hafa til tei, smurbrauð og hlusta á líkræður. Sumir drekka sig fulla. Aðrir maula kartöfluflögur og glápa á raunveruleikasjónvarp. Ég hinsvegar, drep tímann með að hlusta á líkræður. Svona er nú lífið oft á Óðinsgötunni.

Draumar – Fyrir lengra komna

[MEDIA=111]

 

Ég hef setið síðustu tvær vikur við eftirvinnslu á þessu glæsilega tónlistarmyndbandi, sem er við lagið Draumar af frumraun Sævars/Poetrix: Fyrir lengra komna.

Á einhverjum punkti eftirvinnslunnar tóku á mér hús, tónlistarmaðurinn, myndatökumaðurinn og framleiðandinn. Ég bauð upp á sékursnúða, espressó, tei og gamanmál. Klukkan hefur verið rétt rúmlega níu að kveldi til, þegar við sátum fyrir framan tölvutæknina sem skartar rómantískt heimili mitt. Allt í einu upphefjast ægileg læti á efri hæðinni. Góðborgarnir sem að tónlistarmyndbandinu stóðu, hver öðrum hrekklausari, horfðu spyrjandi augum á hvorn annan.

Ég andvarpaði, yfirbugaður af harmi. Hvað í ósköpunum er þetta, spurði framleiðandinn, sem er kristilega þenkjandi biblíumyndasafnari. Ég kom ekki upp einu orði, fátækur af bæði þolinmæði og náungakærleik. Er ekki verið að fífla okkur, spyr tónlistarmaðurinn.

Eins og reglulegir lesendur þessarar síðu fara nærri um, tilheyrðu óhljóðin spikfeitum nágranna mínum sem hafði ekkert þarfara að gera, þegar ég var með mikilvæga gesti úr bransanum, en að upphefja sóðaskak ásamt vinkonu sinni í veðruðu IKEA rúminu sínu.

Ekki fannst þó gestum mínum skakið tilkomumikið. Afhverju heyrist ekkert í henni, spurði myndatökumaðurinn. Þetta er engin frammistaða, sagði tónlistarmaðurinn. Liðlega þrjár mínútur liðu þangað til óhljóðin gengu niður. Þegar við höfðum náð mesta hrollinum úr okkur, héldum við áfram að spá í tónlistarmyndbandinu.

Ég hef ekki lengi verið að fikta í videogerð, svo ég er mjög hamingjusamur með að hafa fengið tækifæri til að vinna með fagfólki á því sviði. Ég held að nokkuð vel hafi tekist til. Hráefnið er allt skotið á hálfónýta 8mm vél, sem hélt hvorki stöðugum ramma, né sama hraða. Það var því talsverð vinna að láta mynd passa saman við hljóð. Það eitt og sér held ég að hafi tekið mestan tíma. Athugið að sorgarendur í ramma, eru þar af ásettu ráði.

Ég hef til þessa ekki verið neitt sérstaklega hrifinn af rappi, en ég kunni að meta þetta lag strax við fyrstu áhlustun, sem jók töluvert á ánægjuna. Sævar er mikill snillingur og alveg sérstakt prúðmenni, og söngkonan, sem syngur með honum, er frá mínum bæjardyrum séð, alger gersemi.

Ég þarf að flytja!

Eftirfarandi gerir mig sjóðbullhoppandivitlausan

Sem hér segir:

Fyrirtæki eins og 66° Norður, sem var lítið sætt og vel virt, en gat ekki látið sér nægja að stunda heilbrigð og heimilisleg viðskipti, heldur varð upptekið af að fitna og græða meira, jafnvel þó það bryti í bága við allt siðgæði. Nei, skítt með fólk, fallegt gildismat, og þá hugsun að koma að gagni í þessu lífi. Græða meira, meiri peningar, meiri völd, meira gaman.
Til helvítis með 66° Norður.

Ísrael – Palestína.
Það sem er að gerast í Ísrael er engu betra en það sem gerðist í Þýskalandi nasismans. En hverjum er ekki sama um fólkið í Palestínu, meðan nóg er framleitt af raunveruleikasjónvarpi, þarf engum að leiðast. En þetta þarf ekki að vera svona, því með spánýrri tölvutækni er hægt að láta andstöðu sína í ljós. Smelltu hér til að leggja þitt netfang á vogarskálarnar.

Vínsmökkunarferð lífsins

Stundum finnst mér lífið vera eins og vínsmökkunarferðin sem átti að vera innifalin í sólarlandarpakkanum sem ég keypti, en var svikinn um. Eins og sönnum íslenskum túrhest sæmir gef ég mig umsvifalaust á tal við fararstjórann og segi með þjósti, þannig að allir heyra: “Ég stóð í þeirri meiningu að farið yrði í vínsmökkunarferð! En nei og svei, svindl og svik! Ég er ekki bara illa svikinn, heldur er ég miður mín. Eina fríið sem ég gat leyft mér að fara í fleiri, fleiri, fleiri, mörg, mörg, fleiri, fleiri ár og ég geri þau hryllilegu mistök að skipta við svik og svindl ferðaskrifstofu. Viltu ekki bara slá mig af, herra fararstjóri?” Svo fletti ég skyrtunni og bíð þess að fararstjórinn stingi mig í hjartað með svindl og svik hnífnum sínum.

Ég hef komist á raun um, að það hentar mér engan veginn að tileinka mér of praktískar hugsanir. Lífið verður fyrir vikið þunglamalegt og drepleiðinlegt. Það fer allt að snúast um vínsmökkunarferðina sem mér finnst að verið sé að svíkja mig um. Það er kjánalegt að taka þessa tilveru of alvarlega. Enda fer mér mun betur að rækta minn rómantíska þankagang. Vera sveimhugi. Búa til sögur í höfðinu. Láta mig dreyma. Horfa á stjörnurnar. Athuga hvort ekkert bóli á geimskipinu sem skildi mig eftir með öllu þessu asnalega fólki.

Ég heyri að nágrannar mínir eru aftur byrjaðir á rúmskaki. Ég þarf að taka þessi óhljóð upp og nota í eitthvað listaverk. Það heyrist samt eiginlega ekkert í þeim sjálfum, heldur bara í ódýra IKEA rúminu, sem mér heyrist vera að liðast í sundur undan þunga hamborgaraétandi ungmennanna. Ahhh, þarna lauk þessum ófögnuði. Ríkulega nærður pilturinn hefur gengið hreint og beint til verks í þetta skiptið og klárað þetta óþrifaverk á mettíma – henni án efa til mikils léttis.

Talandi um praktískt mál: Ég þarf að flytja!

Með vor í hjartanu

Vertu til, er vorið kallar á þig,
vertu til að leggja hönd á plóg.
Komdu út því að sólskinið vill sjá þig
sveifla haka og rækta nýjan skóg.

Þennan vorsöng hef ég flautað og sungið síðan ég vaknaði í morgun. Lífið kemur fram við mig af sérstakri virðingu þessa daganna. Ég heyri Bylgjulestina nálgast.

Hvatvísi og óskrifaðar reglur í asnalegri tilveru

Gott þykir í lok vinnuvikunnar að sturta í sig brennivíni og bregða sér niður í miðbæ til að sinna félagslegum þörfum. Ölvað fólk, sem undir öðrum kringumstæðum hefði engan áhuga á að kynnast, ruglar saman reitum sínum og fer jafnvel í sleik. Þegar þetta sama fólk hittist svo seinna á götu úti allsgáð, hefur það ekki svo mikið fyrir því að heilsa hvoru öðru, rétt eins og það séu þegjandi samkomulag um að það sem gerist undir áhrifum áfengis tilheyri öðrum heimi, sem hefur ekkert með raunveruleikann að gera.

Ég sjálfur hef ekki orðið fullur í næstum átta ár. Mér er skítsama hvaða nafni mínu edrúlífi er gefið. Ég kenni mig ekki við nein félagasamtök, né er ég síröflandi um áfengi eða ástæðuna fyrir því að ég kýs að smakka það ekki. Flestir sem umgangast mig vita heldur ekkert af því að ég drekk ekki. Og þar sem ég legg heldur ekki í vana minn í að flokka fólk niður eftir hvort það drekkur mikið eða lítið, þá velti ég stundum fyrir mér hvað gerir það að verkum að fólk safnast saman um helgar niður í bæ, blindfullt, gargandi og grenjandi eins og skepnur í dýragarði.

Fólk, hefur mikla þörf fyrir að mynda tengsl við annað fólk – það er vitað. Ekki bara til að sinna sínum sleikþörfum, heldur líka til að finna fyrir einhverjum kærleik, eða viðurkenningu. Sumir eru jafnvel í leit að afdrepi í þessari asnalegu tilveru sem ekkert okkar getur útskýrt á fullnægjandi máta. En við búum í félagslega heftum heimi, og stjórnumst af ótta við álit annarra. Og eina leiðin sem við kunnum til að finna fyrir frelsi af einhverju tagi, er að hella í okkur gnótt af brennivíni.

Væri ekki yndislegt ef við mannfólkið gætum leyft okkur að rjúka í fangið á einhverjum ókunnugum, sem við höfum miklar mætur á. Setjum sem svo, að ég væri staddur bláedrú á Laugaveginum og ég kæmi auga á Óttar Proppé – fallegasta mann Íslands – eða jafnvel bara Megas, og ég í óheftri gleði og ánægju yfir að sjá þessa prýðismenn, réðist ég á þá og faðmaði í hjartahreinum kærleik. Það er ég nokkuð viss um að þó bæði Óttar Proppé og Megas séu miklir lífskúnstnerar, þá myndu þeir draga þá ályktun að ég væri snaröfugur geðsjúklingur, sem hefði í hyggju að vinna þeim mein. Ef ég léki þennan sama leik, blindfullur niður í bæ um helgi, væri ég álitinn ægilega sniðugur, – í versta falli leiðinlegur.

Nú, eða ef ég væri staddur á kaffihúsi, sötrandi kaffilaði og ég kæmi auga á einhvern sem væri líklegur til að vita eitthvað meira en ég um eilífðarmálin – hóa í hann og spyrja hann sisona hvort dauðinn sé endirinn, eða hvort við þurfum jafnvel að fæðast og lifa sama lífinu aftur nákvæmlega eins. Sá hinn sami myndi hrökklast í burtu, viss um að ég væri snargeðveikur, talandi um einhver helvítis eilífðarmál, þegar ég ætti að vera upptekinn af því hvaða tegund af bíl ég keyri. Nákvæmlega sömu kringumstæður, nema hefði ég verið sötrandi bjór í stað kaffilaðis, hefði viðkomandi mögulega álitið mig ótrúlega flippaðan. En hvað sem eilífðarmálum líður, þá væri ég til í að búa í heimi þar sem ekki gilda einhverjar óskrifaðar reglur um hvenær maður má sýna tilfinningar og hvenær ekki.