Hrollvekjandi

Færslan hér að neðan, um vel nærðar konur og ástmenn þeirra, er svo hryllileg að ég get ekki haft hana fyrir augunum stundinni lengur. Ég birti því hér mynd sem ég tók, þegar ég skrapp í göngutúr upp í Heiðmörk í gær.

Konueldi

Til að brynja mig gegn offitufaraldrinum sem geysar hérlendis, festi ég fé í róðrarvél, sem kostar rétt undir verði 32″ Plasma, en ég stæri mig einmitt ómælt af því að hafa ekki átt sjónvarpstæki í rúm tvö ár. Ég tel róðrarvélina meiri búbót en risasjónvarp.

Í morgun þegar ég undirbjó róður á eldhúsgólfinu, ákvað ég að snjallt væri fyrir mig að nýta tímann meðan ég réri og auðga anda minn með að horfa á heimildarmyndir. Þrátt fyrir sjónvarpsleysið, get ég með hjálp nútímatækni horft á nánast hvað sem mig lystir á skjánum í tölvunni minni. Ég fer bara inn á þartilgert svæði, panta mér úr lista yfir efni sem er í boði þá stundina, smelli með músinni minni og stuttu síðar, rétt eins og um töfrabrögð sé að ræða get ég horft á vönduðustu hreyfimyndir.

Ég kann ekki á því neina skýringu, en fyrir valinu varð heimildarmyndin: Fat girls and feeders. Mikið hefur verið talað um þessa mynd í mínum vinahóp, en ég hef ekki fengist til að horfa á hana því að tilhugsunin um mann nær fertugu, sitjandi einn á heimili sínu horfandi á mynd sem þessa, er vægast sagt hrollvekjandi. Hvað svo varð til þess að einmitt í dag að ég valdi þessa mynd úr safni mun fágaðri mynda, get ég sennilega aldrei útskýrt. Kannski einhversstaðar í undirmeðvitund minni hef ég haldið að það virkaði hvetjandi fyrir mig, meðan ég brenndi kaloríum, að hafa fyrir augunum fólk sem er bókstaflega að springa úr spiki.

Myndin fjallar um karlmenn sem hrífast af konum, sem ekki eru ósvipaðar í laginu og Esjan. Því hjálparlausari sem konan verður, þeim mun meira finna þeir fyrir sínum eigin tilgangi, sem er að bera í konuna meiri mat.

Og ég sem hélt að ég væri í tilvistarkreppu.

Myndin hér að ofan, er af hjónum sem svona er ástatt fyrir. Þarna sitja þau hróðug, fletta myndaalbúmi og ræða hversu mörg kíló hann hefur hjálpað eiginkonunni að bæta á sig.
Myndirnar eru samviskusamlega merktar frá 200 upp í 600. Ein myndin í albúminu, sýnir konuna nakta, þar sem hún fyllir upp í ganginn að klósettinu.
En ég rak augun í nokkuð merkilegt í þessu viðtali. Plakatið á veggnum bakvið manninn, er úr bíómyndinni The Empire Strikes Back, en í þeirri Stjörnustríðsmynd mætir til leiks spikfjallið Jobbi Höttur. Svo ég fór að velta fyrir mér hvort þessi maður hafi ekki í raun kynferðislegan áhuga á Jobba Hött, og þess vegna reynir hann að breyta konunni sinni í hann? Það er allavega ekki annað að sjá á myndinni, en að honum hafi tekist ætlunarverk sitt, því ef einhver lifandi manneskja líkist þessari ódælu sögupersónu þá er það þessi kona.

Kannski ég reyni bara ekkert að skilja þetta. Ég allavega hætti að horfa á þessa mynd, ég fæ ekki séð myndir af þessu tagi geri mig að betri manni.

45

[MEDIA=154]

Þetta er ekkert tímamótaverk, það get ég fullyrt. Ég er að læra á nýtt klippiforrit, sem heitir Final Cut Pro, og er þetta afrakstur einnar kvöldstundar. Örstutt, um ást mína á vor og sól.

Myndirnar tók ég í gær á löngum göngutúr. Húsnúmerið í myndbandinu er á Hringbrautinni, þar sem Þórbergur Þórðarson átti heima, en ég og félagi minn heimsóttum einmitt leiði Þórbergs í gær. Þarna er einnig bakhlið hússins og auðvelt er að ímynda sér Þórberg standandi á svölunum á fjórðu hæð hellandi vatni yfir börnin sem hlupu um í túninu fyrir neðan full af ákafa og æsingi. Myndbandinu líkur svo á Hressó, þar sem Luydmyla the great, eiginkona Pjeturs Geirs, sötrar mjólkurhristing með jarðaberjum.

Tilvistarspurningar

Tilvistarspurningar naga anda minn. Ég skil ekki hvaðan þær koma, eða hvers vegna þær hringla í hausnum á mér. Ég er viss um að ég er mun meira kvalinn af tilvistarspurningum, en næsti maður. Næsti maður virðist sáttur svo lengi sem hann fær tóm til að éta, horfa á sjónvarp og ganga örna sinna. Enginn maður hugsar jafn mikið um fallvaltleika tilverunnar og ég. Nepjulegt tilgangsleysi mannskepnunnar, sem berst í bökkum, til þess eins að öðlast viðurkenningu meðbræðra sinna, sem svo sjálfir berjast í bökkum til að öðlast ámóta viðurkenningu. Lífsspeki mín er stundum skítköld og á köflum andfélagsleg.

Ég er viss um að einhver sálarinnar sérfræðingur ætti ekki í miklum erfiðleikum með að klístra merkimiða á afstöðu mína til lífsins. Í lífinu kemst enginn af án þess að finna heppilegan merkimiða til að klína á brothætta ímynd sína. Og hvað er ímyndin annað en lygaþvæla sem maður kappkostar við að aðrir trúi. Ef aðrir gleypa við þvælunni, þá kannski á endanum trúir maður sjálfur vitleysunni.

Allt er þetta góðra gjalda vert og nærandi fyrir sálarlífið. Gallinn er að sá, að þegar ég er svona þenkjandi, þá á ég ákaflega bágt með að vera með í þykjustunnileiknum sem okkur fullorðna fólkinu er uppálagt að taka þátt í. Og þetta kom greinilega í ljós, þar sem ég neyddist með þetta hugarfar að sækja afmælisveislu innan ættarinnar, sem er mun fallegri en mig minnti. Þar var ég gersamlega á flæðiskeri staddur.

Hefði ég mátt vera ég sjálfur í veislunni þá hefði útkoman orðið eitthvað á þessa leið:

Ættingi: Komdu sæll Sigurður minn. Ég hef ekki séð þig í 20 ár. Hvað ertu að gera?
Siggi Siggi Bang Bang: Mannskepnan hefur frá dögun mannkyns, reynt að skilgreina sjálfan sig í gegnum stöðu sína í samfélaginu. Þetta má glögglega sjá á legsteinum manna, sem oftar en ekki eru skreyttir með starfstitli, sem sönnun á því að sá hinn grafni hafi ekki lifað til einskis. Það skýtur skökku við að reyna að skilgreina sjálfan sig út frá atvinnu. Það er hátindur tilgangsleysisins. Hvernig maðurinn vinnur fyrir sér og aflar sér tekna hefur ekkert með það að gera hver hans innsti kjarni er. Og þegar öllu er á botninn hvolft, er öllum alveg skítsama hvort þú varst múrari eða skipstjóri í hinu lifanda lífi. Á endanum eru starfstitlar eða stéttarstöður ekkert nema stafir á legstein.
Ættingi: Ehhhhh, ehhhhhh, ahhhhhh.
Siggi Siggi Bang Bang: Afhverju er ekki letrað á legsteina hvernig manneskja viðkomandi var? Sem dæmi: Hér liggur Sigurður Einarsson, hann var hjartahreinn og velviljaður maður, sem reyndi og reyndi, en mistókst. Eða: Sigurður Einarsson bakaði fyrirtaks speltbrauð og flautaði eins og rauðbrystingur.

Ég veit ekki hvernig þessum ættinga mínum hefði orðið við, hefði ég svarað honum með þessum hætti. En í raunveruleikanum flissaði ég eins og skólastelpa, roðnaði og óskaði þess að ég væri einhversstaðar annars staðar.

E.S. Ég reyndar verð að viðurkenna að mér finnst svolítið gaman að vita hvað fólk gerði meðan það lifði. Það er þó eftirtektarvert að legsteinar kvenna, bera yfirleitt enga titla. Jú, á einstaka legstein eru konur titlaðar sem húsmæður.