Fortíðarþrá

[MEDIA=162]

Hvert okkar á sér tvífara einhversstaðar í heiminum sem deilir með okkur hugsunum og draumum. Mynd leikstjórans Krzysztof Kieslowski: La Double vie de Véronique, eða Tvöfalt líf Veroniku, er um líf Veroniku eftir að tvífari hennar deyr á sviði. Tónlist Zbigniew Preisner er svo guðdómleg að hann hlýtur að hafa fengið hana að láni úr annarri vídd. Þetta er, að mínu mati, eitt af áhrifameiri atriðum kvikmyndasögunnar. Ég sá myndina fyrir 15 árum síðan, í einu draumahúsinu mínu, með stúlku sem ég elskaði svo mikið að ég hélt um tíma að ást mín gengi að mér dauðum. Ég hugsa stundum ennþá til hennar, eins og greinilegt er á þessum pistli, og ekki alls fyrir löngu sá ég hana, þar sem hún sat á kaffihúsi og drakk kaffi. Ég var að labba Austurvöllinn á leið minni á bókasafnið. Við brostum vandræðalega til hvors annars . Ég íhugaði hvort ég ætti að stoppa og kasta á hana kveðju, en ákvað með sjálfum mér að ég hefði ekki neitt meira að segja.

Sagan um Bíbí Ólafsdóttur

Sagan um Bíbí Ólafsdóttur er dásamleg bók, sem vakið hefur mig til umhugsunar um eigið lífshlaup. Fortíðarþráin bullar og sýður innan í mér. Ekki bara gerist bókin að hluta til í bæjarfélaginu sem ég ólst upp í, heldur fyrirhittir Bíbí konu sem ég hafði þónokkur kynni af þegar ég var unglingur – Margréti Blöndal.

Margrét hafði, að mér fannst, mjög einkennilegar hugmyndir um tilveruna og taldi, einhverra hluta vegna, að ég væri góður kandídat í hugmyndafræði, sem ég hélt á þeim tíma að væri hennar eigin uppspuni. Ég man vel eftir mér, þar sem ég sat glórulítill á mjög þröngri skrifstofu, andspænis Margréti og konu sem var full af ástríðu gagnvart því sem þarna var rætt. En ég skildi ekki neitt. Hún hefði alveg eins getað setið þarna og talað sanskrít.
Þegar ég hugsa tilbaka, þá vildi ég óska þess að ég hefði skilið hana betur, en ég hafði aldrei leitt hugann að neinu í líkingu við það sem hún bar á borð fyrir mig. Heimurinn í mínum huga var svart hvítur. Fólk var annaðhvort vont eða gott, og oftast vont.

Seinna kom upp atvik sem gerði það að verkum að ég varð Margréti afhuga. Ég var of ungur til að skilja hvað var að gerast, aðeins 16 ára gamall, en ég veit núna og hef vitað nokkuð lengi að Margrét var snillingur.

Næsta bók sem ég les til að auðga anda minn heitir: Áður en ég dey. Hún er einnig skrifuð af konu, um konu.

Aldrei myndi ég nenna að lesa bók um einhvern karlkyns þrákálf, sem þykist vita allt og geta allt. Þær eru til í tonnavís. Einhverjir gamlir karlsköklar, sem lögðu allan sinn metnað í að ráðskast með fólk og prumpa. Ef ég hefði áhuga á slíku, héldi ég til á moggablogginu. Undantekningin er að sjálfsögðu Þórbergur, en Sálmurinn um blómið, er einn sá almesti vísidómur sem ég hef lesið.

Draumahús

Af þremur húsum, þá hefur mig líklega oftast dreymt húsið á myndinni. Í þessu húsi sem stendur ennþá við Löngubrekku, ólst ég upp. Það er þó ekki svona glæsilegt í dag og garðurinn ber þess merki að engum hefur þótt vænt um hann í heila eilífð, en pabbi var mikill áhugamaður um garðrækt, og við systkinin því alin upp í blómahafi. Myndin er tekin nokkrum árum fyrir minn tíma. Sannkölluð white picket fence paradís.

Annað hús sem mig dreymdi oft, en dreymir sjaldan núorðið, var spölkorn frá þessu og stóð við Nýbýlaveg. Við krakkarnir kölluðum það rauða húsið. Í því bjó ákaflega yndisleg eldri kona, sem ég tók ástfóstri við sem krakki og hélt til hjá, þar til ég eltist og varð miskunnarlausum unglingnum að bráð. Um daginn heimsótti ég, í fyrsta skipti, leiðið hennar upp í Fossvogskirkjugarði. Hún var mikill aðdáandi Stjörnustríðsmyndanna og ég var búinn að lofa henni, að ef hún dæi áður en sú þriðja kæmi, þá skyldi ég gera mér ferð upp í kirkjugarð og segja henni í stuttu máli út á hvað hún gengi. Þess þurfti ég þó ekki, því hún gat notið hennar bæði í kvikmyndahúsi og svo seinna heima í stofu. Blessunin hún Ásta mín, mikið var hún góð kona.

Þriðja húsið sem mig dreymir reglulega, stóð við Hlíðarveg. Það stendur þar reyndar ennþá, og minnir að einhverju leyti á húsið sem ég bjó í, en ég efa að nokkuð sé eftir af gamla efniviðnum. Í draumunum um það hús, stend ég alltaf í einhverjum framkvæmdum; heilu og hálfu næturnar fara í að byggja húsið og bæta. Í Kabbalah er neikvætt að dreyma endurtekið hús sem maður hefur bundist tilfinningaböndum. Það merkir að maður sé ekki búinn að sleppa tökum á fortíðinni og sakni þess að hlutirnir hafi ekki þróast í aðra átt. Það er nú einhver sannleikur í því.

Staða: 13.110.- , matarvenjur og draumfarir

Í dag gerði ég stórinnkaup hjá feitu feðgunum, annar þeirra nú yfirlýstur glæpamaður. Ég spáði lítið í því hvað ég keypti með tilliti til verðs. Mikið af grænmeti og gnótt af ávöxtum. Ég er sólginn í Sól appelsínusafa og hirði ekki neitt um hvað hann kostar. Tómur eins lítra brúsi, stendur hér á borðinu til vitnis um það. Aldrei nokkurn tímann kaupi ég kjöt, né er ég áhugamaður um kjötát. Ef það væri ekki svona mikið ægilegt vesen, þá gerðist ég alger grænmetisæta, en einu skiptin sem ég borða kjöt er þegar ég er boðinn í mat. Ég kaupi einstaka sinnum fisk í fiskbúðinni á horni Óðins og Freyjugötu. Sú fiskbúð er sannarlega draumi líkast. Hún væri fullkomin í svart hvítu. Að skipta við hjónin þar, er eins og að ferðast aftur í tímann. Ég keypti þó oftar fisk af þeim þegar ég hélt Þórkötlu í gíslingu.

Fúllyndur afgreiðslumaður rukkaði mig um 7200.- krónur fyrir tvo kjaftfulla poka af gúmmilaði.

Dýrustu innkaupin gerði ég í Yggdrasil, en þar keypti ég stóra Tahini krukku, flösku af sítrónusafa, og rauðar linsubaunir, sem ég nota í indverskan rétt sem ég kalla: Gunnar Dahl. Fyrir þetta borgaði ég frú Yggdrasil heilar 1800.- krónur.

Að öðru.

Mikið afskaplega dreymdi mig fallega í nótt. Undanfarinn mánuð hafa draumfarir mínar verið einstaklega óskemmtilegar. Stundum þannig að mér hefur fundist ég vera að deyja. En í nótt vísiteraði Þórkatla mig í draumi, ásamt mjög alúðlegri manneskju. Þórkatla stökk í fang mér og manneskjan, sem ég þekki ágætlega, sagðist elska mig. Að vera elskaður, þó ekki sé nema í draumi, gerði það að verkum að ég vaknaði alsæll í morgun og valhoppaði glaður og reifur inn í daginn. Þess ber að geta að ekki var farið yfir nein velsæmismörk.

Aðhald í mat og drykk

Til upprifjunar fyrir þá sem eru áhugasamir um hvað málið snýst, þá hef ég ákveðið að eyða, þennan mánuðinn, einungis 25 þúsund krónum í nauðsynjavörur, svo sem mat, drykk, hreinlætisvörur, út að borða með íslendingum og einum mexíkana, kaffiþamb á kaffihúsum osfrv. Þess ber að geta að ég er einn í heimili, eftir að kötturinn sem ég hélt í gíslingu stakk mig af og skildi mig einan eftir grátandi.

Þegar hér er komið við sögu, er mér ljóst að með uppteknum hætti lifi ég ekki mánuðinn af. Heilir þrír dagar hafa liðið og mér hefir tekist að eyða 2890.-. Þó hef ég ekki enn gert matarinnkaup hjá feitu feðgunum, enda sé ég ekki betur en birgðir endist fram á föstudag.

Á sunnudaginn lyfti ég mér á kreik og gerði það sem hvaða gagnkynhneigður, söngleikjaelskandi, karlmaður myndi gera. Ég fór á kvikmyndahús til að sjá algjört möst allra tíma í sinnemaskóp og tæknilitum: Beðmál í borginni. Ég tel ekki menningarlegan kostnað með, heldur einungis nauðsynjavöru, sem var í þessari bíóferð, popp og kóka kóla með sékri. Þar fóru strax 600 krónur. Og þar sem ég er svo meðvitaður um eyðslu, þá kostaði 1000 krónur að sjá Carrie Bradshaw máta alla nýju fínu skóna.

Eftir bíóhúsið fór ég í 10/11 í Lágmúla, og festi fé í poka af barnagulrótum til að narta í, þegar offituárinn setur af stað Jihad í hausnum á mér, einnig keypti ég Sítrónu Mentól Eukalyptus hálsbrjóstsykur, en ég er háður þessari tegund af brjóstsékri. Jú, mér er fullkunnugt um yfirlýsingar um majones- og sékur bindindi, ég get bara ekki hætt í þessum brjóstsékri – ég dey. Þar eyddi ég líka peningum í menningu og keypti bókina Sagan af Bíbí Ólafsdóttur, sem er ægilega spennandi. Hún kostaði 2000.-, en dregst ekki af 25 þúsund krónunum. Þarna strax á fyrsta degi er ég búinn að eyða 1000.-. Á öðrum degi mánaðarins, sat ég á Hressingarskálanum og drakk einn tvöfaldan kaffi latte, sem kostaði mig 370.-. Í dag fór ég fram úr sjálfum mér og snæddi í hádeginu með vinum mínum úr akademíunni. Ég fékk mér afleita súpu og kóka kóla í flösku, og fyrir þetta borgaði ég 800.-. Síðar um kvöldið fór ég á kaffihús og drakk einn kaffi latte og eina malt. Það kostaði mig 720.-

Eftir standa 22.110.-.

Ég heiti því hér með, að þegar ég á minna en 5000.- eftir – kaupi ég inn núðlur af ódýrustu sort til að lifa restina af mánuðinum af.