Einnar línu blogg

Ég hef í hyggju að breyta aðeins bloggháttum mínum. Í stað þess að skrifa langa tilvistarkreppupistla, skreytta orðaglamri og tilgerð, ætla ég að skrifa einnar línu blogg sem ég yrði úr hugsunum af efsta lagi heilatuðru minnar. Ummæli mín um hitt og þetta sem betur mætti fara í mannlífinu, varpa ég fram fullviss um að allir séu sérstaklega áhugasamir um það sem ég hef fram að færa.

Hér eru dæmi um tímamótahugsanir sem gætu orðið að fyrirtaks einnar línu bloggum:

“Ég er svangur!”
“Ohhhhh, ég vildi að ég væri sofandi!”
“Kannski ætti ég bara að flytja til útlanda!”
“Hann er fáviti!”
“Ef ég væri með tvö typpi…..”
“Svo kom í ljós að hún er vond manneskja.”
“Mikið er kalt – ég ætti kannski að kveikja á gasinu?”
“Best að fara inn á facebook, það eru heilar tvær mínútur síðan ég gerði refresh.”
“Hver er ég til að dæma um hver er fáviti – ég er fáviti!”
“Ég er að fitna!”

Ópólítískur betrunarpistill

Ég er með fagurt hjartalag og með eindæmum hreinlundaður. Samviskusemi mín á sér engin landamæri. Ég er góður við menn og dýr. Allt eru þetta mannkostir sem hægt er að stæra sig af í kokteilboðum, og á öðrum mannamótum þar sem maður neyðist til að tala viðstöðulaust um sjálfan sig, öllum nærstöddum til óblandinnar ánægju. Þrátt fyrir að hafa í farteskinu dyggðir af þessari stærðargráðu er ég líklega sakbitnasti maðurinn á öllu Íslandi. Einhverra hluta vegna virðist vera innbyggt í þessa útgáfu af manneskju sem ég er, eitt það hræðilegasta samviskubit sem um getur. Mér líður alltaf í sálinni minni eins og ég hafi gert eitthvað á hlut meðbræðra minna, og þar af leiðandi læðist ég stundum meðfram veggjum. En nú verður breyting á, því ég hef fundið upp aðferð til að vinna gegn þessari sjúklegu samviskusemi sem kvelur anda minn. Eins og komið hefur fram ítekað á þessum vef, er ég mikill áhugamaður um að betra sjálfan mig. Í þeim tilgangi set ég mér oft fyrir eggjandi verkefni.

Í vikunni lagði ég bifreið minni af Opel gerð í stæði sem merkt var einkastæði. Ég freistaðist til að gera þetta, viss um að ég yrði ekki lengur en 5 mínútur að hlaupa inn í Yggdrasil búðina til að kaupa stórkarlalegar birgðir af mínu eftirlætis Tahini. Ég stóð við tímaáætlun, en þegar ég kom út sá ég að einhver var að reyna að leggja bíl í stæðið sem ég hafði tekið ófrjálsri hendi. Ég varð ægilega miður mín og Jesúsaði mig í bak og fyrir. Ég bað konuna sem hér átti í hlut afsökunar. Hún tók afsökunarbeiðni minni fálátlega, og tíundaði fyrir mér hvernig eigandi stæðisins hefði fyrir 55 sekúndum neyðst til að keyra framhjá með þungar vinnuvélar sem hann hefði ætlað að bera inn í hús, en gat ekki vegna þess að ég er vondi kallinn og vondi kallinn á alltaf skilið að deyja. Ég sagðist vera miður mín, og fór næstum að gráta. Ég settist upp í bíl, en í stað þess að rífa sjálfan mig í tætlur yfir þessari uppákomu, eins og gert er ráð fyrir í reglugerðum – ákvað ég með sjálfum mér að ég hefði ekki gert neitt rangt og að þessi kona væri vondur nöldrari, sem nærist á samviskubiti meðbræðra sinna. Mér til mikillar undrunar, virkaði þetta svona skínandi vel. Ég hnussaði örlítið, en leið svo eins og ég væri réttsýnn góðborgari.

Betrunarverkefni mitt á komandi vikum er því sem hér segir: Ég ætla vísvitandi, upp á dag hvern, að gera eitthvað á hlut einhvers. Já, það stemmir – ég ætla að brjóta á einhverjum, hvort sem viðkomandi er mér kunnugur eður ei. Ég ætla síðan að halda reisn minni, og ganga um götur Reykjarvíkurborgar reigingslegur eins og ég sé með tandurhreina samvisku. Von mín er sú að ég nái með þessu að drepa í eitt skipti fyrir öll þetta sjúklega samviskubit, og að á endanum verði mér skítsama þó einhverjum finnist þeim fótum troðnir af mínum völdum. Allt sem miður fer, hættir að vera sjálfkrafa mér að kenna og fer að verða einhverjum öðrum að kenna, og það er ásættanlegra. Semsagt: Þú ert fífl! Ég er fínn!

Ég meðvirkur? Þú getur bara sjálfur verið meðvirkur! Hnusssss….

Ruglingslegt fjas um Þórberg

Meðan ég læt mig dreyma dagdrauma um að sötra molakaffi með Þórbergi Þórðarsyni, spyr ég sjálfan mig hvort mögulega sé einhver núlifandi af sama kaliberi, sem ég gæti hugsað mér að kasta kveðju á. Ég man ekki eftir neinum, sem ég hef lesið, sem skrifað hefur af jafn miklum heiðarleika og Þórbergur. Enginn af mínum samtíðarmönnum hefur gert jafn mikið gys að sínum eigin kjánalega þankagangi og hann. Flestir þeirra sem skrifa, skrifa um bresti í skapgerð annarra, og hafi þeir eitthvað við sjálfan sig að athuga, þá eru það misfellur sem þeir eru fyrir löngu búnir að jafna út. Þeir sem skrifa, og þá á ég ekki einungis við bókmenntir, heldur líka þá sem skrifa pistla á netið, hnýta í hugmyndir annarra og draga upp hallærislega mynd af öðru fólki. Þeim er svo umhugað um virðingu meðbræðra sinna að allar tilraunir til heiðarleika verða tilgerðarlegar.

En eins mikinn hlýhug og ég ber til Þórbergs, er spurning hvort hann hafi verið í raun og veru, eins og hann lýsir sér. Sumir álíta að hann hafi verið allt annað en sannur. Pabbi minn sagði mér sögu af því, þegar skólafélagi hans, mikill kommúnisti, fór þess á leit við Þórberg að hann héldi erindi á fundi hjá Ungliðahreyfingu Kommúnista. Þetta hefur verið í kringum 1950. Ég veit reyndar ekki hvort félagsskapurinn hafi heitið Ungliðahreyfing Kommúnista, en þetta var meðan pabbi var í menntaskóla og hann í kringum tvítugsaldurinn, þannig að Ungliðahreyfing er ekki svo slæm ágiskun. Þórbergur leit með fyrirlitningu á þennan unga mann, sem gerði þau hræðilegu mistök að þúa Þórberg, og sagði: Erum við dús? Menn sem voru góðir með sig, heimtuðu að þeir væru þéraðir. Samt las ég, eða heyrði, að Þórbergur hefði aldrei kunnað við menn sem snobbuðu fyrir honum, og mikið talaði hann niður til þeirra sem voru góðir með sig.

Fyrst þegar ég heyrði þessa sögu, var ég undir sterkum áhrifum frá Sálminum og reyndi vitanlega að bera í bætifláka fyrir Þórberg, þess viss að skólabróðir föður míns hefði skapraunað honum eitthvað áður, en ekki látið það fylgja sögunni. Faðir minn sagði að svo væri ekki. Skólabróðirinn hefði borið upp erindið, fengið þessi viðbrögð og snúið aftur vonsvikinn til félaga sinna í Ungliðahreyfingunni og sagt þeim að þessi maður væri enginn kommúnisti, hann væri bara merkikerti.

Ef það væri einhver í nútímanum sem ég væri sérstaklega hrifinn af, hvort sem um er að ræða bókmenntir, eða aðra listsköpun, þá vildi ég ekki kynnast honum persónulega. Ég vil eiga mína höfunda út af fyrir mig og ekki eyðileggja þá ánægju sem ég hef af verkum þeirra, með að láta persónu þeirra spilla fyrir. Þess vegna er svo gaman að ímynda sér molakaffi með löngu dauðu fólki og þó maður hafi einhverja hugmynd um það að þeir hafi ekki verið það sem þeir sögðust vera, hefur maður engin tæki til að sannreyna það.

LIFE

Ég reyni oft að gera mér í hugarlund hvernig lífið var hér á Íslandi á árum áður. Stundum ímynda ég mér að ég gangi um götur borgarinnar á öðrum áratug þeirrar nítjándu og komi auga á Þórberg Þórðarson, þar sem hann rolast svangur og þreyttur upp Bankastræti. Blesssssssssaður Þórbergur! Hvað segirðu maður? Bara hress? segði ég við hann kumpánlega, eins og hann væri gamall vinur. Hann yrði afskaplega undrandi, en eftir að ég skjallaði hann og lofaði fyrir ljóðið Nótt sem birtist á forsíðu Ísafoldar 29. maí 1912, þá skryppum við á Hótel Borg, og fengjum okkur molasopa, eða sítrónusaft.

Myndirnar hér að neðan eru úr ljósmyndasafni Life tímaritsins á Google, og sýna bæjarlíf Reykjavíkur 1944.

Lækjargata 1944, séð að norðan
Lækjargata 1944, séð að norðan
Lækjargata 1944, séð frá tjörn
Lækjargata 1944, séð frá tjörn

Af tímaflakki:

Í nótt dreymdi mig að ég færi aftur til fortíðar til að vinna fyrir Kópavogsbæ. Ég var sendur frá árinu 2009, 20 ár aftur í tímann til að safna saman pallettum, sem lágu í kantinum á einhverjum malarveg. Mér þótti ekkert einkennilegt í draumnum að ég skyldi sendur aftur til að sinna jafn ómerkilegu verkefni. Þvert á móti, leið mér eins og ég væri með þessu að koma í veg fyrir stórfellt efnahagshrun á næstu öld. Eftir að hafa týnt upp nokkrar pallettur, kom mér til hugar að gaman væri að heilsa upp á gamlan vin. Ég fann hann í timburhúsi þar sem hann var að smíða. Hann var glaður að sjá mig. Eftir að hafa talað vel og lengi við hann, báru tilfinningar mínar mig ofurliði. Ég sagði honum að ég væri úr framtíðinni og hann yrði að passa vel upp á sig, því annars lifði hann ekki lengur en til ársins 2004. Ég nefndi fleiri mikilvæg atriði úr hans lífi sem hann hugsanlega gæti haft einhver áhrif á. Hann brást illa við, og spurði mig því andskotanum ég væri að segja honum frá þessu. Hann hefði kosið að ég léti það ógert. Ég vaknaði við að hebreskur skógarköttur sleikti höfuðið mitt, með hrjúfri tungunni. Einkar notalegt.

Einlit sál í lífsins leikriti

Ég hef álitið mig eitt af fáum hjartahreinum og fallega þenkjandi börnum guðs, þó svo að færslan hér á undan beri þess merki að ég eigi mér örlítið dekkri og súrari hlið. Ég hef þó komist að því að það kostar mig stundum töluverð átök að vera grandvar, í leik og starfi.

Fæstir viðurkenna í lífsins leikriti að eiga í sarpi sínum fleira en gott þykir. Ef þeir gera það, þá er það eitthvað sem á heima í fortíðinni og dó með henni. Mér sjálfum var innrætt að vera heiðarlegur í viðskiptum mínum við annað fólk. Kristin gildi voru við lýði í mínu uppeldi. Svo guðlega var faðir minn innréttaður að minnstu munaði að ég endaði uppi sem prestssonur fyrir austan fjall. Sagan segir að það hafi munað aðeins einu atkvæði og sá er greiddi það atkvæði fór mannavillt.

Ég varð því fyrir töluverðu áfalli, þegar ég varð þess var, að í mér blundar dekkri hlið. Ég sem hélt að sál mín væri einlit, eða hvít eins og snjór. Ég var staddur við kassann í Rúmfatalagernum, með þrjár hundrað kerta jólaljósaseríur, og tvær náttbuxur sem reyndust of stórar. Afgreiðslustúlkan, sem var of brosmild fyrir minn smekk, hafði einhverra hluta vegna, ekki náð að lesa vöruröndina á jólaseríunni með vörurandalestæki hins konunglega Rúmfatalagers, og rukkaði mig því einungis fyrir náttbuxurnar ómögulegu.

Innra með mér upphófst hatrömm barátta góðs og ills. “Það er kreppa!” fullyrti hinn illi Sigurður, við hinn góða siðláta Sigurð. Góði Sigurður, sem aldrei hefur anað að neinu, dokaði við og hugsaði málið. “Afhverju er í lagi að vera óheiðarlegur í kreppu?” spurði hann með bergmálandi kirkjuröddu. “Kreppa er eins og stríð og það er allt leyfilegt í stríði!” sagði vondi Sigurður með dimmri röddu. “Kreppa, eða ekki kreppa, þetta er rangt!” sagði góði Sigurður og leit upp til himna. “Þú ert að græða á þessu sex þúsund krónur! Taktu nótis af því sem ég segi!” sagði vondi Sigurður. Allt í einu mundi góði Sigurður eftir, þætti sem hann sá í sjónvarpinu, þar sem gerðar voru athuganir á hversu heiðarlegt fólk væri. Myndavél var komið fyrir og afgreiðslukona var látin gera mistök sem voru kúnnanum í hag. Aðeins örfáir gerðu athugasemdir. Ein eldri kona, sneri þó við, eftir að hafa áttað sig, og leiðrétti mistökin. “Ég vil vera eins og þessi kona!” sagði ég við vonda Sigurð og hrinti honum, þannig að hann datt í gólfið og fékk blóðnasir.

Þegar ég settist út í bíl, leið mér aðeins betur með sjálfan mig. Það stóð þó ekki yfir lengi, því……..

Reynslusaga smokkalausu týpunnar

Hjartnæmar reynslusögur viðskiptavina holdljóss er upplífgandi lesefni. Karlmenn sem til þessa hafa ert kynfæri sín með skömm í sálinni, verða um það vísari að ekkert er eðlilegra en að leggja stund á runk, með nýstárlegum tólum og tækjum.
Prestur, ekkjumaður og smokkalausa manngerðin, segja opinskátt frá því hvernig hinn byltingarkenndi fleskljósrunkari, nýtist þeim bæði í leik og starfi.

Hér eftir fer díalókur smokkalausu týpunnar, sem ég hef lesið inn með hressu röddinni minni.

[MEDIA=188]

Jú, það er rétt til getið: Pósturinn Páll, leikur stórt hlutverk í fyrst römmum myndbandsins.

Mótmæli

54 þúsund manns, hafa brugðist við lokun Skjás eins, með að senda menntamálaráðherra mótmælaskeyti. Einungis 4000 manns, hafa skráð sig á vefinn kjosa.is, þar sem farið er fram á kosningar í kjölfarið á einu mesta efnahagshruni í sögu þjóðarinnar.

Þjóðfélagsmál

Ég hef verið sneyptur fyrir að skrifa ekki um þjóðfélagsmál nú á ögurtímum. Það kemur mér ekki óvart að til þess sé beinlínis ætlast að ég komi fram með hugmyndir, sem greiða úr vandamálum gúmmílýðveldisins. Staðreyndin er hinsvegar sú að ég er bara ekki jafn gáfaður og flestir þeirra sem hafa eitthvað um málið að segja.

Nei, þarna er ekki um séríslenska minnimáttarkennd að ræða, þó vissulega eigi ég nóg til af henni.

Ég hef lesið urmul af texta sem skrifaður hefur verið um hrunið, og hef dáðst af hvað allir eru allt í einu orðnir miklir snillingar. Það lítur út fyrir að katastrófían virki sem vítamínsprauta á menn, sem áður lifðu einungis fyrir virkni hýpóþalamusins. Nú rísa þeir fílefldir, upp úr rústunum, þrútnir af réttlátri reiði og heimta blóðsúthellingar.

Ég persónulega á í mestu erfiðleikum með að skilja hvað er að gerast. Ég veit ekki hvað er satt í því sem ég les, eða heyri. Þar fyrir utan, finnst mér við hálfpartinn eiga þetta skilið fyrir helvítis hrokann og viðbjóðinn sem mörg okkar hafa á undanförnum árum tileinkað sér. Það er leiðinlegt að við hin, sem héldum í falleg rósum skreytt gildi, getum ekki farið út fyrir landsteinanna án þess að það sé híað á okkur.

Ég vona að mótmælin í dag, fari friðsamlega fram. Guð einn veit, að nóg er hér til af Sturlum, sem eiga sér þá ósk heitasta að fá lumbra bara á einhverjum, svo þeim líði örlítið betur í Jíhadinu sínu.

Reynslusaga prófasts með doktorsgráðu

Fyrir hrun, þegar menn runkuðu sig áhyggjulausir, var kynnt til sögunnar í fyrsta skipti á Íslandi þartilgerð sæðisútpungunarmúffa. Frægir íslenskir runkarar tjáðu sig hástilltir um runkmál og heimtuðu að fá að ræða um skökulinn á sér, án þess að vera úthrópaðir öfuguggar.

Á þessum tíma var ekki mikið talað um efnahag og gjaldþrot og gafst því áhugafólki um sjálfsfróun karla nægur tími til að kynna sér þetta nýja og skemmtilega leikfang. Á heimasíðu holdljóss, voru að finna hughreystandi reynslusögur manna úr hinum og þessum stigum þjóðfélagsins, þar á meðal saga prests með doktorsgráðu. Prestur þessi, sem er án efa graðasti prestur sem ég hef heyrt um, á 7 börn með konu sinni sem hann er hamingjusamlega giftur. Hann er fullur af sektarkennd yfir einhverju sem hann tíundar ekki frekar, en finnst hann hafa himinn höndum tekið þegar hann uppgötvar gleðina og hamingjuna sem fylgir því að runka sig með þessum bráðskemmtilega runkara.

Mér varð létt, eftir að hafa lesið reynslusögu prófastsins, því sjálfróun hefur alltaf verið í mínum huga skammarlegt athæfi. Ég er bara þannig upp alinn. En vitandi það að helgur maður með prófskirteini runkaði sér með múffu, þurfti ég ekki lengur að skammast mín þó ég gerði slíkt hið sama. Svo innspíraður var ég, að ég bjó til litla auglýsingu við reynslusögu prófastsins. Ég nota helgu röddina mína í upplestur á sögunni, til að gera hana meira sannfærandi.

 

[MEDIA=187]

Vígatíð

Mig dreymdi að vígatíð væri skollin á í Reykjavík. Menn röngluðu um göturnar sótillir, viti sínu fjær, með sveðjur að vopni. Stemningin var ekki ósvipuð og í myndinni Hótel Rwanda, nema að markmiðið var ekki að slá af einhvern ákveðinn ættbálk, heldur bara einhvern, hvaða nafni sem hann nefndist. Mennirnir rupluðu og rændu, nauðguðu og drápu. Ég fylltist ótta og skelfingu í draumnum, þegar ég uppgötvaði að ég hafði gleymt að læsa dúkkuhúsinu mínu áður en ég fór upp að sofa. Fyrir utan heyrði ég þá nálgast argandi og gargandi, sveiflandi sveðjunum sínum.

Í svona draumum hef ég þróað með mér tækni til að vekja sjálfan mig. Ég klemmi augun saman voðalega fast, og næ með því móti að klippa á drauminn. Ég reyni aðeins að ná áttum í svefnrofunum áður en ég læt mig gossa enn á ný inn í draumaheiminn. Stundum heppnast þetta ekki og ég held áfram að dreyma sama viðbjóðinn, en oftast tekur við eitthvað annað ævintýri.

Ég veit hvaðan þessi martröð kemur. Þrátt fyrir að hafa kúplað mig út úr þessu vitfirrta þjóðfélagi í 3 daga síðustu helgi, þegar ég fór í rútuferð norður, þá finn ég núna þegar ég er kominn heim að ég á í mestu erfiðleikum með að sogast ekki inn í þetta óþverra andrúmsloft sem umlykur borgina eins og eiturský. Það er eitthvað í uppsiglingu hérna, sem ég óttast.

Menningarferð


Þegar fólk af minni tegund hættir að smakka áfengi, er fátt orðið eftir lífinu sem veitir því ánægju. Sú fölskvalausa gleði sem fylgir áfengisdrykkju, er erfitt að finna í allsgáðum lifnaðarháttum. Hlátur, léttuð og kátina, tilheyra ölvaðri fortíð og allar tilraunir hins allsgáða til að dæla gúddí gúddi efnasamskiptum út í blóðrásina með náttúrulegum og ómenguðum hætti eru dæmdar til að mistakast.

Líf hins allsgáða verður aldrei aftur gott. Hann getur valið að loka sig af frá samfélaginu, eða bíta á jaxlinn og reyna af veikum mætti að gleðjast í félagi við fólk sem leyfir sér þann munað að lyfta glasi, lifa og leika sér. Sú gleði sem hann gerir sér upp, verður þó aldrei nema hjóm eitt í samanburði við þá hamingju og það frelsi sem fylgir neyslu á skynslævandi drykkjum. Raunveruleikinn er óþverri. Það er því nauðsynlegt að komast í burtu frá honum, endrum og eins.

Menn eins og ég, verða því að finna sér skemmtun í einhverju öðru. Þegar ég fer á mannamót, hlægir mig fátt meira en þegar einhver fær sér aðeins of mikið í stóru tánna og gerir skandal. Við þannig aðstæður gleðst ég í innra Jíhadinu mínu og sannfærist um að ég hafi gert rétt með að velja mér allsgáð líferni.

Í nýafstaðinni menningarferð minni norður til andskotans, tók enginn að sér að gera sig að fífli, nema undirritaður. Síðasta kvöldið, var slegið til stórveislu í Mývatnssveit. Borðin svignuðu undan kræsingum og gúmmilaði og át ég mig næstum í ómegin. Eftir nokkur smellin skemmtiatriði, voru kallaðir til akademískir sérfræðingar af tónlistarsviðinu til að sjá um dé joð mál. Það kom mér á óvart að svona hæfir menn, gætu staðið fyrir jafn hryllilegu lagavali. Eftir að hafa drukkið 5 vatnsglös, og eina kókakóla flösku, var ég orðinn nógu kjarkaður til að stíga á dansgólfið. Videomyndavélin mín varð eftir á borðinu í umsjá þeirra sem sátu með mér. Hreyfimyndina hér að neðan tóku þeir opinmynntir af mér þar sem ég steig einkar skæslegan dans undir einu undantekningunni á ABBA og Bítlunum: Stolt sigli fleyið mitt.

[MEDIA=183]