SiggiSiggiBangBang

Einlit sál í lífsins leikriti

Nov
18

Ég hef álitið mig eitt af fáum hjartahreinum og fallega þenkjandi börnum guðs, þó svo að færslan hér á undan beri þess merki að ég eigi mér örlítið dekkri og súrari hlið. Ég hef þó komist að því að það kostar mig stundum töluverð átök að vera grandvar, í leik og starfi.

Fæstir viðurkenna í lífsins leikriti að eiga í sarpi sínum fleira en gott þykir. Ef þeir gera það, þá er það eitthvað sem á heima í fortíðinni og dó með henni. Mér sjálfum var innrætt að vera heiðarlegur í viðskiptum mínum við annað fólk. Kristin gildi voru við lýði í mínu uppeldi. Svo guðlega var faðir minn innréttaður að minnstu munaði að ég endaði uppi sem prestssonur fyrir austan fjall. Sagan segir að það hafi munað aðeins einu atkvæði og sá er greiddi það atkvæði fór mannavillt.

Ég varð því fyrir töluverðu áfalli, þegar ég varð þess var, að í mér blundar dekkri hlið. Ég sem hélt að sál mín væri einlit, eða hvít eins og snjór. Ég var staddur við kassann í Rúmfatalagernum, með þrjár hundrað kerta jólaljósaseríur, og tvær náttbuxur sem reyndust of stórar. Afgreiðslustúlkan, sem var of brosmild fyrir minn smekk, hafði einhverra hluta vegna, ekki náð að lesa vöruröndina á jólaseríunni með vörurandalestæki hins konunglega Rúmfatalagers, og rukkaði mig því einungis fyrir náttbuxurnar ómögulegu.

Innra með mér upphófst hatrömm barátta góðs og ills. “Það er kreppa!” fullyrti hinn illi Sigurður, við hinn góða siðláta Sigurð. Góði Sigurður, sem aldrei hefur anað að neinu, dokaði við og hugsaði málið. “Afhverju er í lagi að vera óheiðarlegur í kreppu?” spurði hann með bergmálandi kirkjuröddu. “Kreppa er eins og stríð og það er allt leyfilegt í stríði!” sagði vondi Sigurður með dimmri röddu. “Kreppa, eða ekki kreppa, þetta er rangt!” sagði góði Sigurður og leit upp til himna. “Þú ert að græða á þessu sex þúsund krónur! Taktu nótis af því sem ég segi!” sagði vondi Sigurður. Allt í einu mundi góði Sigurður eftir, þætti sem hann sá í sjónvarpinu, þar sem gerðar voru athuganir á hversu heiðarlegt fólk væri. Myndavél var komið fyrir og afgreiðslukona var látin gera mistök sem voru kúnnanum í hag. Aðeins örfáir gerðu athugasemdir. Ein eldri kona, sneri þó við, eftir að hafa áttað sig, og leiðrétti mistökin. “Ég vil vera eins og þessi kona!” sagði ég við vonda Sigurð og hrinti honum, þannig að hann datt í gólfið og fékk blóðnasir.

Þegar ég settist út í bíl, leið mér aðeins betur með sjálfan mig. Það stóð þó ekki yfir lengi, því……..