SiggiSiggiBangBang

Ópólítískur betrunarpistill

Nov
26

Ég er með fagurt hjartalag og með eindæmum hreinlundaður. Samviskusemi mín á sér engin landamæri. Ég er góður við menn og dýr. Allt eru þetta mannkostir sem hægt er að stæra sig af í kokteilboðum, og á öðrum mannamótum þar sem maður neyðist til að tala viðstöðulaust um sjálfan sig, öllum nærstöddum til óblandinnar ánægju. Þrátt fyrir að hafa í farteskinu dyggðir af þessari stærðargráðu er ég líklega sakbitnasti maðurinn á öllu Íslandi. Einhverra hluta vegna virðist vera innbyggt í þessa útgáfu af manneskju sem ég er, eitt það hræðilegasta samviskubit sem um getur. Mér líður alltaf í sálinni minni eins og ég hafi gert eitthvað á hlut meðbræðra minna, og þar af leiðandi læðist ég stundum meðfram veggjum. En nú verður breyting á, því ég hef fundið upp aðferð til að vinna gegn þessari sjúklegu samviskusemi sem kvelur anda minn. Eins og komið hefur fram ítekað á þessum vef, er ég mikill áhugamaður um að betra sjálfan mig. Í þeim tilgangi set ég mér oft fyrir eggjandi verkefni.

Í vikunni lagði ég bifreið minni af Opel gerð í stæði sem merkt var einkastæði. Ég freistaðist til að gera þetta, viss um að ég yrði ekki lengur en 5 mínútur að hlaupa inn í Yggdrasil búðina til að kaupa stórkarlalegar birgðir af mínu eftirlætis Tahini. Ég stóð við tímaáætlun, en þegar ég kom út sá ég að einhver var að reyna að leggja bíl í stæðið sem ég hafði tekið ófrjálsri hendi. Ég varð ægilega miður mín og Jesúsaði mig í bak og fyrir. Ég bað konuna sem hér átti í hlut afsökunar. Hún tók afsökunarbeiðni minni fálátlega, og tíundaði fyrir mér hvernig eigandi stæðisins hefði fyrir 55 sekúndum neyðst til að keyra framhjá með þungar vinnuvélar sem hann hefði ætlað að bera inn í hús, en gat ekki vegna þess að ég er vondi kallinn og vondi kallinn á alltaf skilið að deyja. Ég sagðist vera miður mín, og fór næstum að gráta. Ég settist upp í bíl, en í stað þess að rífa sjálfan mig í tætlur yfir þessari uppákomu, eins og gert er ráð fyrir í reglugerðum – ákvað ég með sjálfum mér að ég hefði ekki gert neitt rangt og að þessi kona væri vondur nöldrari, sem nærist á samviskubiti meðbræðra sinna. Mér til mikillar undrunar, virkaði þetta svona skínandi vel. Ég hnussaði örlítið, en leið svo eins og ég væri réttsýnn góðborgari.

Betrunarverkefni mitt á komandi vikum er því sem hér segir: Ég ætla vísvitandi, upp á dag hvern, að gera eitthvað á hlut einhvers. Já, það stemmir – ég ætla að brjóta á einhverjum, hvort sem viðkomandi er mér kunnugur eður ei. Ég ætla síðan að halda reisn minni, og ganga um götur Reykjarvíkurborgar reigingslegur eins og ég sé með tandurhreina samvisku. Von mín er sú að ég nái með þessu að drepa í eitt skipti fyrir öll þetta sjúklega samviskubit, og að á endanum verði mér skítsama þó einhverjum finnist þeim fótum troðnir af mínum völdum. Allt sem miður fer, hættir að vera sjálfkrafa mér að kenna og fer að verða einhverjum öðrum að kenna, og það er ásættanlegra. Semsagt: Þú ert fífl! Ég er fínn!

Ég meðvirkur? Þú getur bara sjálfur verið meðvirkur! Hnusssss….