SiggiSiggiBangBang

Böggull fylgir skammrifi

Jan
13

Fyrir stuttu las ég í bók(hvaða bók, man ég ekki) að fólk sem segir frá draumum sínum er óspennandi og leiðinlegt. Ég, í mínum huga, er jafn spennandi og skemmtilegur og bloggari sem bloggar um bloggara sem endursegir fréttir á ömurlegum fréttamiðli. Þannig að ég móðgaðist ekki mikið við þessa lesningu. Ég gat ekki ákvarðað að höfundur væri fáviti, þar sem mér þótti flest annað í bókinni bæði töff og skæs, en sjaldnast ná menningarverðmæti því að vera hvoru tveggja.

Ef ég bara myndi hvaða bók þetta var?

Hvað um það. Nú hef ég hugleitt eins og móðurríðari í viku og hálfa og ekki tek ég of djúpt í árina, þegar ég segi að líf mitt hefur náð nýjum hæðum. Ég bókstaflega sprett fram úr rúminu á morgnana raulandi lagstúf og valhoppa fullur af ákafa inn í daginn, tilbúinn að takast á við öll þau spennandi verkefni sem kosmósið úthlutar mér. Sem dæmi um spennandi verkefni, þá reyndi ég í dag að ráða fram úr prentaravandræðum öllum hlutaðeigandi til stórbrotinnar gremju og leiðinda. Þó ég hefði undirbúið mig andlega undir þennan dag og hugleitt í 6 klukkustundir samfleytt, hefði ég ekki getað komið í veg fyrir örlítinn brest í skapgerð minni, þar sem ég froðufelldi eins og óður hundur.

Hvað ætlaði ég upphaflega að skrifa um?

Já, draumar og hugleiðsla. Síðan ég tók til við að hugleiða, hefur mér liðið afar vel. Kærleiksský hefur umlukið sætabrauðshúsið í litla Skerjarfirði(sem er by the way: til sölu) og smáfuglar sem löngu voru flognir til heitu landanna, snéru aftur til að syngja söngva um sameiningu Evrópu í stóra trénu við hlið hússins. Efnahagsáhyggjur íbúa litla Skerjafjörðs leystust upp og hvarvetna mátti sjá fólk að kyssast, knúsast og fista. Allt þetta, aðeins vegna þess að einn íbúi býr til nógu mikið af kærleiksorku til að smita nágrennið.

En oft fylgir böggull skammrifi – seisei já. Síðan ég byrjaði að hugleiða hef ég átt hryllilegar draumfarir. Í einum draumnum rifnaði Avraham köttur í tvennt þegar hann reyndi að smeygja sér í gegnum gaddavírsgirðingu. Hann var sprellilifandi og mjálmaði angurvært þrátt fyrir að vera í tveimur hlutum. Hann bað mig um að ég sauma sig saman svo hann gæti haldið áfram að éta og sofa.

Í dag þegar ég fékk mér lúr, dreymdi mig að hræðilegur morðingi gengi laus. Hann murkaði lífið úr móður minni(sem var leikin af einhverri amerískri leikkonu sem ég man ekki nafnið á), og hóf svo að týna úr henni innyflin. Til að bjarga eigin skinni þóttist ég vera áhugasamur um mannát og hjálpaði honum að bera líkið, sem var ekki dautt þrátt fyrir að vera með stóra holu í miðjum brjóstkassanum. Jesús minn.

Svona hefur mig dreymt síðan ég byrjaði að hugleiða. En einkennilegt.