SiggiSiggiBangBang

Ég er skríll

Jan
21

Án þess að ætla mér það sérstaklega öðlaðist ég í dag heiðursnafnbótina “skríll” og ekki annað hægt að segja en ég sé nokkuð hreykinn. Ég hafði ekki verið lengi við mótmælin við Alþingishúsið, þegar ég sá mér ekki annan leik á borði en að ganga til liðs við skrílinn. Ég hafði þar á undan ekki haft neinar fyrirfram hugmyndir um hvernig mótmælin kæmu til með að vera. Mótmælin sem ég hef hingað til sótt hafa verið hálf slöpp og eftir því sem ég best fæ séð vita gagnslaus.

Stuttu eftir hrun mætti ég einmitt á Austurvöll, tilbúinn til að mótmæla eins og berserkur, en þegar ég var rétt að komast í mótmælastuð byrjaði einhver maður að glamra á gítar. Hann söng: Ég á eeeeeeeenga peeeeeeeeninga! trallalllalla…rælælælæ.. Vissulega er gaman að heyra ljúfa gítartóna og fallegan söng, bara ekki þegar maður er stjarfur af adrenalíni að mótmæla ljóta fólkinu á Alþingi.

Í dag þegar ég vaknaði, sagði ég við sjálfan mig eitthvað á þessa leið: “Sigurður! Nú ferð þú og mótmælir við Alþingishúsið.” og upp úr hádegi keyrðum ég og vinnufélagi minn niður í bæ. Við vorum í ágætis skapi, með kærleik í hjarta. Stemningin við Alþingishúsið var frískandi og hreif okkur samstundis með. Við tókum til við að hrópa taktföst slagorð, og ég fann lund mína léttast í hvert skipti sem ég gargaði: Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn!

Undanfarnar vikur hefur mér leiðst lífið hér á Íslandi ægilega. Ég hef ekki mátt heyra á þetta ástand minnst án þess að finna fyrir depurð og vanmáttarkennd. Ég hef reynt að takmarka inntöku mína á fréttum til að sogast ekki inn í svarthol neikvæðni og vonleysis, en hversu mikið sem ég hef reynt hefur verið ómögulegt fyrir mig að leiða þetta ástand hjá mér.

Í hallargarðinum stóðum ég og félagi minn. Búið var að kasta nokkrum handjárnuðum mótmælendum í hrúgu við nýbygginguna. Þar lágu þeir og virtust þjakaðir eftir að hafa fengið framan í sig gusu af piparúða. Sumir þeirra höfðu ekki gert neitt annað en að vera þarna. Mér var gróflega misboðið. Er þetta Ísland? heyrði ég mann hrópa í geðshræringu. Ég veit ekki afhverju ég allt í einu stóð í fremstu víglínu. Líklega hefur mér fundist ég þurfa að leggja mitt af mörkum til að koma í veg fyrir frekari valdníðslu. Ég er mjög friðsamur maður. Ég hef aldrei á minni ævi gengið í skrokk á meðbræðrum mínum. Ég er enginn slagsmálakall. Ég kom þarna til að búa til hávaða og hrópa slagorð, en ekki til að slást við verkamenn í svörtum heilgöllum.

Uppáklæddir lögreglumenn, samkvæmt nýjustu tísku, höfðu fengið fyrirskipun frá einhverjum sem átti að hafa dómgreind til að meta aðstæður og bregðast við þeim. Fyrirskipunin var að tæma hallargarðinn. Tilhvers í ósköpunum? Hvað var unnið með að tæma garðinn? Lögreglumaður gargaði í gjallarhorn hótunum sem virkuðu eins og olía á eldinn. Starfsfélagar hans settu sig í stellingar og bjuggu sig undir atlögu við lýðinn. Þeir sem stóðu fremst, þar á meðal ég, réttu upp hendurnar, til að sýna þeim fram á að við hefðum ekki í hyggju að standa í barsmíðum. Það dugaði skammt, því þeir byrjuðu með offorsi að þrýsta á hópinn.

Þarna leið mér orðið mjög einkennilega. Nokkrir settust niður. Ég sá að það var lítið annað að gera og settist líka. Ég huldi andlitið, viss um að þeir ætluðu að fara að sprauta yfir okkur eitri. Þar sem við sátum og hreyfðum okkur ekki spönn frá rassi, fann ég fyrir mikilli samkennd. Þarna sat ég með fólki sem ég þekkti ekki neitt og beið þess að við yrðum beitt ofbeldi að hálfu lögreglunnar. Ég leit yfir hópinn sem sat þarna með mér. Þetta var fólk á öllum aldri úr öllum þrepum þjóðfélagsstigans. Frá 10 ára pjökkum til eldri borgara á níræðisaldri. Að við skyldum setjast niður dróg úr Operation: Tæma hallargarðinn, og þeir bökkuðu örlítið. Eftir að hafa setið blautur og kaldur í snjónum, að mér virtist eilífð, stóð ég upp. Ég sá náunga labba hjá sem ég þekki. Hann er atvinnuljósmyndari. Eitthvað gerðist og þrír lögreglumenn kasta sér á hann og handjárna. Síðar um kvöldið, þegar honum hafði verið sleppt, spurði ég hann hvað hefði gerst. Hann sagðist hafa tekið mynd af lögreglumanni sem stóð þarna skammt frá mér. Sá tapaði sér og réðist á hann. Þegar hann hafði haft hann undir, þá öskraði hann: “Ég veit hver þú ert og ef þú birtir myndina sem þú tókst af mér þá leita ég þig uppi og drep þig!” Á lögreglustöðinni eyddu þeir öllum myndunum á vélinni hans.

Enn og aftur mynduðu lögreglumenn keðju í þeim tilgangi að ganga á fjöldann og koma honum úr garðinum. Við sem vorum þarna fremst mynduðum þá tvöfalda keðju og stóðum sem fastast. Við snerum baki í lögregluna, til að fá ekki piparúða beint framan í okkur. Spölkorn frá þar sem við stóðum, tók lögreglumaður upp kylfu og barði ungan mann í keðjunni aftan frá í hausinn. Ekki kom til átaka á okkar væng, en allt logaði í óeirðum, þar sem pilturinn var barinn. Piparúðinn gekk í allar áttir og fleiri fengu að finna fyrir kylfunni.

Mér er verulega brugðið eftir atburði dagsins. Ég er svo reiður. Ég hef aldrei á minni ævi séð annað eins harðræði, nema þá í sjónvarpi. Lögregluembættið telur að með þessum hætti hafi þeir gert fólki grein fyrir að þeir séu fullfærir um að halda niðri mótmælendum. En því fer fjarri. Aðgerðir lögreglu hleypa einungis illu blóði í fólk. Mér eins og fleirum finnst þetta komið gott og ég skal persónulega taka þátt í að bera ykkur, sem eruð ábyrg, út úr þeim stofnunum sem þið hafið notað til að eyðileggja landið mitt.