SiggiSiggiBangBang

Spjöld sögunnar

Apr
25

Í sögulegum tilgangi færi ég hér með til bókar hverjum ég greiddi atkvæði mitt.

Ég og heitmey mín búum sitthvorum megin við Hringbrautina. Ég í Reykjavík suður og hún í Reykjavík norður. Í veðurblíðunni gengum við sem leið liggur frá Vesturgötu yfir í Hagaskóla. Á leiðinni hugsaði ég um Þórberg Þórðarson og gallabuxurnar sem ég var í. Eitthvað í buxunum stakk mig í hægra lærið. Ég dró eðlilega þá ályktun að ástkona mín hefði komið fyrir títuprjón í buxunum til að gera mér lífið óbærilegt. Ég ásakaði hana um tilræði við mig, vitandi að henni finnst buxurnar — sem eru nokkuð þægilegar, þó þær hangi varla upp um mig — síður en svo skæs. Hún sagði svo ekki vera og færði rök fyrir máli sínu sem ég gat ekki með nokkru móti hrakið. Þegar í Hagaskóla var komið, stóð valið milli V og O. Í kjörklefanum smellti ég kossi á vísifingur hægri handar og gerði upp hug minn með mjög vísindalegri nálgun:

“Ugla” – setti fingurinn á O framboð Borgarahreyfingarinnar,
“sat” – færði fingurinn yfir á V framboð Vinstri Grænna,
“á” – færði fingurinn yfir á O,
“kvisti,” – færði fingurinn yfir á V,

“átti” – færði fingurinn yfir á O,
“börn” – færði fingurinn yfir á V,
“og” – færði fingurinn yfir á O,
“missti” færði puttann aftur á V,

“eitt,” – færði fingurinn yfir á O,
“tvö,” – færði fingurinn yfir á V,
“þrjú” – færði fingurinn yfir á O,

“og” – færði fingurinn yfir á V,
“það” – færði fingurinn yfir á O,
“varst” – færði fingurinn yfir á V,
“þú” – færði fingurinn yfir á O,

“sem” – færði fingurinn yfir á V,
“varst” – færði fingurinn yfir á O,
“úr.” – færði fingurinn yfir á V.

Ég merkti við O og við gengum niður í Ráðhús þar sem hún sjálf greiddi atkvæði. Þegar leið á daginn, varð ég sáttari og sáttari við gjörð mína. Kosningadagur hefur aldrei, síðan ég man eftir mér, verið eins dramatískur og í dag.