Morkinn af andleysi

Hryllilegt andleysi hefur tekið sér bólfestu í sálu minni. Eina sem mér dettur í hug að skrifa um er dauði og öldrun. Á morgun verður krossfestingu Jesú Krists Jósefssonar fagnað með pompi og prakti. Eða þannig. Einu sinni mátti ekki svo mikið sem prumpa á þessum degi hann var svo hátíðlegur. Ég held að Jesú Kristur hafi bara aldrei verið til, hvað þá að hann hafi verið festur á kross á þessum degi. Sagnfræðingar eru ekki einu sinni vissir um að Ingólfur Arnarsson hafi verið til, og hann á að vera 900 árum nýrri en Jesú.

Ég trúi þessu bara ekki. Í mínum huga eru trúarbrögð einn mesti viðbjóður sem manninum hefur dottið í hug. Allar þessar hugmyndir og ritjúalar, boð og bönn eru fabríkeruð af einhverjum karlaumingjum sem vildu kúga meðbræður sína, sérstaklega ef þeir voru konur. En ótti mannsins er öllu yfirsterkari. Farir þú ekki eftir “lögmálum Guðs” þá ertu dæmdur til að búa í brennandi útgáfu af Breiðholti, þar sem spiluð eru Windows kerfishljóð í gjallarhornum á götu úti allan sólarhringinn.

Ég er ekki þó hluti af hjörð trúleysingja. Ég man ekki til þess að hafa passað inn í neina hjörð af einu né neinu. Ég gæti ekki einu sinni farið út að hlaupa með hlaupahóp. Ef ég mæti hlaupahóp, þá finnst mér hann hallærislegur. Nei, ég gæti aldrei hlaupið í hóp. Ég vil njóta einverunnar. Einveran er aldrei eins tær og falleg og einmitt á hlaupum. Enginn sími með í för. Ekkert áreiti. Að hlaupa og halda uppi samræðum er hræðileg tilhugsun.

Jæja, úr andleysi yfir í Jesú og trúarbrögð, og þaðan yfir í hjarðlifnað og hlaup. Nokkuð gott fyrir mann morkinn af andleysi.

Skapgerð

400ft174Glitfíflum skreytt skapgerð mín var fullmótuð þegar ég var rétt liðlega 10 ára gamall, og ekki hægt að segja að hún hafi tekið stórkostlegum breytingum síðan. Flestar þær hugsanir sem ég hugsaði þá, hugsa ég enn þann daginn í dag; þær eru aðeins ruglingslegri, háværari og mun ómarkvissari. Prúður og indæll drengur, úr fjölskyldu þar sem báðir foreldrar voru læsir, varð ég yfir mig ástfanginn af sætustu stelpunni í bekknum. Hún var með sítt ljóst englahár, föl á hörund, og nokkuð kurteis miðað við heimilishagi. Ég var þá, mun kjarkaðri en núna á fertugsaldri.

Ég gerði mér sérstaka ferð með strætó til Reykjavíkur til að ná í kvikmyndir sem ég hélt að hún hefði gaman af. Síðan bauð ég henni og vinkonu hennar heim í Löngubrekkuna til kvikmyndaveislu með titlum eins og Taxi Driver, Dracula: A Love Story, Big Bad Mama, Smokey And The Bandit.

elmo3Heilu bíómyndirnar voru á þessum árum styttar niður í 20 mín, til að þær pössuðu á stærstu spólunnar. Stundum var mynd á tveimur til þremur spólum. Ef að mynd kom frá Paramount, þá var hún oftast á þremur spólum, en ef hún var frá Universal þá var hún á einni eða tveimur spólum. Allt sem þótti alger óþarfi í myndinni var klippt út, stundum svo illa að það var engin leið að átta sig á um hvað myndin fjallaði. Svo kom fyrir að spólur týndust. Ég átti tildæmis aðeins seinni hlutann af Dracula: A Love Story, og þar sem ég hafði aldrei séð fyrri spóluna, þurfti ég að nota Dracula kunnáttu mína til að skálda forsöguna ofan í þá sem sátu kvikmyndasýningar hjá mér. Ekkert af þessu skipti þó höfuðmáli. Það var lúxus að geta horft á bíómyndir með hljóði heima hjá sér, þó hljóðið væri í mónó.

Ég var himinlifandi að fallegasta stúlkan í bekknum kæmi í heimsókn til mín nánast daglega. Enginn annar í bekknum átti Elmo St. 180 kvikmyndasýningavél með hljóði. 8mm sýningavélar voru tíðar á þessum tíma, en að í þeim heyrðist annað hljóð en trtrtrtrtrtrtrtrt var sjaldgæft.

Einu sinni, sem og oft áður, hringdi ég í hana. “Hæ hæ hæ”, sagði ég fullur af sjálfstrausti. “Ég er hér með ægilega spennandi kvikmyndir”, og taldi þær upp, “vilt þú og Fribba ekki kíkja til mín í kvikmyndasýningu á eftir?” Stutt þögn. Smá andvarp. “Nei, uhhhh,” sagði hún vandræðalega, “öhhhh, ehhhh, ég kemst ekki ég þarf að…..”

Hvers vegna hún komst ekki, eyddist, eða var aldrei skráð í minni mitt. Ég kvaddi og lagði símann á. Líf mitt var í molum. Hún hefði alveg eins getað stungið úr mér augun með gaffli, vafið filmunni utan um hálsinn á mér og kyrkt mig, ekkert hefði valdið mér meiri sársauka en þessi hryllilega höfnun. Hún, með ljósa hárið, svo falleg, alveg eins og engill, var inn við beinið andstyggileg og illkvittin norn. Ég hringdi aldrei aftur í hana. Þennan dag fór nafn hennar á svartan lista sem ég geymi í kolli mínum. Þeir sem fara á þann lista mega eiga von á að ég hlakki yfir minnstu hliðarsporum þeirra um ókomna tíð, og ef svo (ó)lukkulega vill til að ég lifi lengur en fólkið á listanum þá mæti ég með typpið mitt og spræni yfir þeirra hinsta hvílustað.

Þessi listi er enn í fullri notkun.

Of mikill frumkvöðull

stod2

Á meðan margur landinn á ekki fyrir mat, eða heilbrigðisþjónustu. Á meðan sjálfsmorð, sem rekja má til ástandsins, verða tíðari. Á meðan atvinnulausum fjölgar. – Er stærsta áhyggjuefni vina Björgólfs Thors Björgólfssonar, hversu mikill frumkvöðull hann er.

Á málefnalegri nótum langar mig að segja eftirfarandi: Étið skít!

Fagurt lundarfar mitt og æðruleysi vegur ekki þyngra en reiði mín í garð íslenskra fávita.

Samhengi:
Þann 31. mars 2009, mærði Stöð 2 Björgólf Thor í dagskrárlið sem heitir: Ísland í dag – Í nærmynd. Undir léttri lyftutónlist var farið í gegnum sögu hans, undir svipmyndum og rassa kyssingum vina. Einn vinurinn sagði, eftir að hafa talið upp ótal kosti, eins og hversu mikill tígur Björgólfur er í viðskiptum, fjölskyldugildi, líkamsrækt, hreysti og fleira í þessum dúr, að helsti gallinn við Björgólf er að hann er of mikill frumkvöðull.