Eyjan

Ein áhrifaríkasta leiðin til að misþyrma sálu sinni er að lesa athugasemdir á hryllingseyjunni punktur is. Þann illa þefjandi pytt hrasa ég reglulega í og missi þá samstundis trú á samlöndum mínum og getu mannsins til að hefja sig upp úr forinni. Það þarf ekki nema eina til tvær athugasemdir til að ég verði verulega leiður.

Eru Íslendingar svona ægilega leiðinlegir? Er þetta kannski þjóðin?

Það skiptir litlu máli um hvað pistillinn er, alltaf skal einhver skrifa niðurdrepandi athugasemd. Einhvern tímann las ég blogg eftir Egil Helgason um Stephen Hawkins og líf á öðrum hnöttum. Eftir að hafa lesið nokkrar athugasemdir, sumar andskoti áhugaverðar, kom einn sem virðist í fullu starfi sem álitsgjafi hjá eyjunni og var ekki lengi að tengja líf á öðrum hnöttum við ráðandi ríkisstjórn og skjaldborg heimilanna.

Væri ekki gaman að halda partí með fólkinu sem er þarna duglegast? Hittast á Kringlukránni og ræða málin?

Sumir þeirra sem eru mest áberandi í umræðunni, virðast gera lítið annað ef marka má Google.

Nafni minn Sigurður, nema hann er númer eitt og ég ekki, á þarna 4120 niðurstöður á google, sé leitin skilyrt við eyjan.is. Það má reyndar gera ráð fyrir að þarna sé einnig verið að ávarpa hann í öðrum athugasemdum, en samt þó aðeins fjórðungur af þessu séu athugasemdir, má ætla að hann eyði megninu af sínum tíma á þessum vettvangi.

Þeir eru miklu fleiri sem telja mörg þúsund niðurstöður.

Á eyjunni éta líka allir upp eftir hvorum öðrum. Hér er eitt dæmi.

Ég ber engar sérstakar taugar til Samfylkingarinnar. En hversu oft er þessi útúrsnúningur fyndinn eða sniðugur. 2000 sinnum?

Ég ætla að vona fyrir hönd eyjunnar að þeir lagi umræðuvettvang sinn þannig að fólk þurfi að gera betur grein fyrir sér, eða að internetveitur þeirra sem eru hvað leiðinlegastir fari að loka á tengingarnar hjá þeim vegna vangoldinna gjalda.

Flugdauðleiðir

Ég má til með að segja frá andskoti hressandi draumi um eftirlætis hugðarefni mitt: sjálfan dauðann. Já, rétt svona til að athuga hvort ég sé enn skriffær.

Draumurinn var um spánýtt flugfélag, sem hafði þá sérstöðu að fljúga með menn út í opinn dauðann. Vitanlega festi ég fé í miða. Ég veit ekki nákvæmlega í hvaða tilgangi ég spennti beltin fyrir flugtak. Mér var alls ekki rótt, og ég var ekki búinn að gera það upp við mig hvort mig langaði í þetta flug. Vélin var þéttsetin fólki í léttu skapi súpandi á kampavíni. Flugvélinni var sjálfstýrt og mér skildist að einhversstaðar á leiðinni yrði breyting á loftþrýstingi sem yrði þess valdandi að allir um borð sofnuðu. Svo væri henni steypt í hafið, eða henni flogið á fjallstind.

Hvaðan kemur þetta?

Um daginn sá ég viðtal við Hollending, eða mig minnir að hann hafi verið frá Hollandi, sem fer fyrir hópi sem berst fyrir réttinum til að deyja með reisn. Hópurinn vill lögleiða svokallaða friðarpillu – pillu sem keyrir sustemið niður á sársaukalausan máta. Þá ekki bara fyrir fólk sem þjáist á banalegunni, heldur fólk sem vill enda líf sitt og fellur undir ákveðna skilgreiningu um aldur, geðheilbrigði og fleira í þeim dúr. Þetta viðtal og svo ársgömul frétt um flugvél einhversstaðar í Asíu, þar sem öll áhöfn ásamt farþegum leið út af vegna breytinga á loftþrýstingi. Þetta tvennt hrist saman við röskun á flugi vegna eldgossins í Eyjafjallajökli og útkoman er: Flugdauðleiðir.

Rétt áður en ég vaknaði varð umskipting í söguþræðinum. Það var ekki ég sem átti miða í flug dauðans, heldur heitmey mín. Ég var ægilega sorgmæddur og reyndi að hafa áhrif á ákvörðun hennar. Ég passaði mig þó sérstaklega vel á að virða rétt hennar til að deyja.

Tenglar:
World Federation of Right to Die Societies