10 ráð til að hætta að hata

Helstu sérfræðingar í andlegum málum geta verið sammála um að hatur kemur verst niður á þeim sem hatar. Ekki er gott að hata, ekki nema að viðkomandi sé fokking fábjáni, þá er það í lagi. Undanfarnar vikur hef ég hatað heil reiðinnar býsn. Ég hef þrætt internetið og hatað og hatað. Ein besta remedían við hatri, þegar hatrið kraumar í mér eins og í djúpsteikingarpotti, er að fara tildæmis á vefsíðuna dv.is, velja mér þar frétt af handahófi og skrifa athugasemd sem gerir öllum grein fyrir hversu mikill snillingur ég er og hversu miklir fávitar allir aðrir eru. Ég kalla þetta tímamótaathugasemdir, og ég vinn að því að skrifa þær rétt eins og doktorsnemi vinnur að doktorsritgerð. Með því að gera þetta líður mér aðeins betur í sálinni minni. Það kveiknar lítið ljós innra með mér og það hlær og hlakkar í mér. Þetta reynist líka vera ein besta leiðin til að létta á þrýstingnum í höfuðkúpunni, þrýstingnum sem verður til þegar maður er búinn að hata yfir sig.

Í ört vaxandi róstursömu samfélagi er erfitt að hata ekki. Ég vakna tildæmis léttur í lundu á hverjum morgni blístrandi lítinn lagstúf. Eftir að renna í gegnum stöðuuppfærslur á facebook er mér ljóst að heimurinn er fullur af allskonar drasli sem er beinlínis nauðsynlegt að hata og hneykslast yfir. Þetta hatar sig ekki sjálft! Í dag var tildæmis yndislegur dagur fyrir hatara. Einhver aumur öryggisvörður var filmaður þar sem hann var að kasta manni á dyr. Andskotans krípið. Hann snappar í beinni útsendingu. Aldrei færi ég að snappa svona. Skiptir einu þó ég væri í hans aðstæðum, ég færi ekki að missa kúlið svona gersamlega.

Nú og svo í gær eða fyrradag hataði ég Stöð 2 svo mikið. Djöfulsins aumingjarnir. Hvað er að þessum spyrjendum. Algerir hálfvitar. Ég væri ekki svona mikill hálfviti.

Í síðustu viku hataðist ég út í Grétu júróvisjón söngvara. Hvað er eiginlega að henni. Afhverju barðist hún ekki fyrir mannréttindum Bakubúa. Ég hefði sko lesið yfirlýsingu á fréttamannafundi og sagt öllum til dauðans djöfulsins syndarinnar. Já, það hefði ég sko gert.

Það líður ekki sá dagur sem ekki er hægt að finna einhvern eða eitthvað til að hata.

Það er hinsvegar alveg andstætt minni trú að hata. Ég trúi á ástina og kærleikann. Því hata ég að hata.