Handaleysi

Ég hef undanfarið ár, eftir að ég flutti til borgarinnar, fundið fyrir óþægilegri tilfinningu af þeirri tegund sem flestir myndu halda út af fyrir sig af hræðslu við að vera álitnir geðbilaðir. Ég er hinsvegar lítið þjakaður af þeim ótta. Sýn mín á lífið hefur aðeins orðið fjarstæðukenndari eftir því sem ég hef orðið eldri. Alveg öfugt við það sem ég hélt þegar ég var milli tvítugs og þrítugs. Ég hélt að eftir því sem ég yrði eldri yrði lífið hornréttara ef svo má að orði komast, en þess í stað er það eða sýn mín á það orðin afbakaðri.

Mér finnst ég reyndar skilja lífið betur tilfinningalega ef ég les súrealískar bókmenntir eða horfi á kvikmyndir sem teljast einkennilegar og fjarstæðukenndar. Þar í uppáhaldi er Charlie Kaufmann, David Cronenberg og að sjálfsögðu David Lynch. Ég einnig efast orðið um öll þessi akademísku hugtök og sjúkdómsheiti sem notuð eru til að útskýra fáranleika lífssins. Heimurinn fyrir mér er óraunverulegri, eða raunverulegri núna en hann var. Ég hef ekki enn komist að því hvort er. Hvað er eðlilegt og hvað er óeðlilegt? Eðlilegt samkvæmt hvaða skilgreiningum? Þetta er allt eitthvað sem einhverjir menn, hugsanlega sjálfir kolklikkaðir, ákváðu. Hvað um það. Víkur nú aftur að þeirri tilfinningu sem ég vil hér með skjalfesta. Við skulum svo sjá hvað gerist á næstu árum. Kannski gerist ekki neitt, en ef eitthvað gerist þá er áhugaverðara að hafa það skjalfest og þá með tilheyrandi timestamp.

Skrifað 16. desember 2012, klukkan 17:53: Ég hef á tilfinningunni að síðar á lífsleið minni eigi ég eftir að missa annaðhvort aðra höndina eða báðar!

Síðan ég flutti til borgarinnar hafa augu mín ítrekað logið að mér og fólk sem ég er í þann veginn að mæta virðist handalaust. Fólk sem er í raun með allar sínar hendur og putta og jafnvel fleiri en náttúran gerir ráð fyrir, kemur mér fyrir sjónir handalaust og þá kemur yfir mig þessi skrýtna óþægilega tilfinning. Þetta fólk er yfirleitt kannski í 5-10 metra fjarlægð frá mér og er að ganga gegnt mér. Svo þegar ég mæti því og sé að hendur og puttar eru á sínum stað slær á þessa tilfinningu og ég afgreiði upplifunina sem skekkju í skynjun minni.

Annars eru allir á mínu heimili bara komnir í fyrirtaks jóla- og hátíðarskap. Búinn að láta hendur standa fram úr ermum, bakaði sörur og núna næst eru það piparkökur.