Dekkri hlið sálu minnar

ytingar

Hér gefur að líta nokkuð glæsilega mynd af mér þar sem ég geri aðsúg að hæstvirtum forsætisráðherra í janúar. Við þessar óvanalegu aðstæður vaknaði upp í mér demón, sem ég veit að blundar innra með mér, en ég reyni að halda sofandi með fallega löguðum hugsunum sem Ghandi og móðir Teresa væru hreykin af. Þessi mynd er ekki lýsandi fyrir mína persónu, enda ég alinn upp fyrir sunnan skítalæk í kristilegum glitfíflaverðlaunagarði. Og nú þar sem ég hef gert grein fyrir hver ég er og úr hvaða jarðvegi ég er sprottinn, ætla ég að gangast við örlitlu kuski á hvítflibba mannlegrar tilvistar minnar.

Ég geri mér grein fyrir að ef þetta væri moggablogg, yrði ég úthrópaður ólátabelgur, skríll og drulluháleistur, enda moggabloggarar upp til hópa svo siðavandir að þeim er fyrirmunað að sjá að í sálu mannskepnunnar má alltaf finna einhvern ranghala, óskapnað, skúmaskot. Í moggablogglandi er maðurinn annaðhvort vondur eða góður. Hann er rang- eða réttsýnn. Þó er drullan og ógeðið hvergi meiri en á moggablogginu. Moggablogg er ekki bara moggablogg, heldur samnefnari fyrir heimsku mannskepnunnar.

Andrúmsloftið við Stjórnarráðið var tryllingslegt. Þegar svartstakkarnir byrjuðu að hrinda fólki úr veginum upplifði ég einkennilega, en jafnframt mjög hressandi tilfinningu sem blindaði um stund raunveruleikamat mitt. Tíminn hægði á sér, nógu lengi til að ég gæti tekið ákvörðun um hvort ég léti undan brennandi löngun minni til að keyra sælgætisdolluna sem ég held á í hjálminn á lögreglumanni sem ógnaði mér með kylfu. Dýrið í mér gargaði, og heimtaði að skynsemi viki fyrir réttlæti. “Réttlæti á svona stundum er einungis náð fram með ofbeldi” urraði dýrið. “En kæra dýr” sagði ég, eða sá hluti af mér sem er tileinkaður skynsemishugsun “ef ég læt þessa makkintossdollu vaða í hjálminn á þessum ágæta lögreglumanni, sem er þegar öllu er á botninn hvolft, einungis að sinna sínum skyldustörfum, verð ég að öllum líkindum ferjaður með diskóbílnum upp á sjúkrahús, eða lögreglustöð, þar sem ég fengi að vera fram eftir degi, og þá myndi ég missa af restinni af þessum sögulegu mótmælum, það væri nú hálfsorglegt kæra dýr, ekki satt?”

Og svona diskúteraði ég við dýrið í sjálfum mér meðan veröldin stóð kyrr og beið eftir úrskurði. Lögreglumennirnir fyrir framan mig minntu mig á fasistana á kápu bókarinnar Pigtrad sem ég las í dönsku í menntaskóla. Bollaleggingar mínar um hvort ég ætti að svara ofbeldi með ofbeldi stóðu ekki yfir lengur en tvær sekúndur. Skynsemi mín, eða bjartari hlið sálu minnar hafði betur í þessum andlega slag, en ég áttaði mig á að innra með mér er ekki bara tónaflóð, ruþmi og melódía, heldur líka dekkri hlið sem verður sýnileg við aðstæður sem þessar.