Tilhugalíf fugla

Ég sá litla fallega umfjöllun í fréttatíma ríkissjónvarpsins um tilhugalíf fugla. Miklir snillingar eru þetta hjá RUV. Karlkyns krían færir kvenkyns kríunni orm í gogginn og fær án allra málalenginga að bregða sér á bak. Þessi háttur er hafður á í mannheimum líka. Uppáklætt stælt karldýr í krumpuskyrtu, snjóþvegnum gallabuxum íklæddur svörtum jakka með temmilegt magn af vellyktandi kaupir í glas fyrir kvendýr. Gubbar karldýrið síðan yfir kvendýrið og hún án þess að hugsa sig tvisvar gerir sig aðgengilega honum. Ekki svo fjarri því sem gerist í dýraríkinu. Það vill oft gleymast að við mennirnir erum ekkert nema dýr. Það fer þó ekki fram hjá mér því hið svokallaða tilhugalíf manna blasir við mér hverja einustu helgi. Í þægilegheitum míns eigin heimilis get ég fengið að fylgjast með hvernig bera sig á að, ef maður vill koma manndýri af gagnstæðu kyni til. Það er fátt eitt meira aðlaðandi og jafnvel kynæsandi en fulltíða karlmaður sem gargar, öskrar og hrópar jafnvel stríðsöskur. Þeir ná án tafar athygli kvenpeningsins sem fellur kylliflatur fyrir viðkomandi. Að mölva bjórflösku eða rúðu er líka mjög kynæsandi, það ber merki um þarna er á ferð mjög sterkur og áhugaverður persónuleik sem þarf kannski aðeins að temja. Konur eru mjög hrifnar af karlmönnum sem þarf að fínslípa og líður ekki á löngu áður en maður sér á eftir karl og kvendýrinu á leið heim í leigubíl. Léttlyndir karlmenn sem tjá oftar en ekki gleði sína með söng, syngja konur á sitt band. Ólei, ólei, ólei heyri ég þá syngja. Konur að mér virðist vita ekki sitt rjúkandi ráð og færast umsvifalaust allar í aukanna. Áður en þær sjálfar gera sér grein fyrir eru allir sem að málinu koma komnir í höfn. Deginum eftir, vakna dýrin frísk og endurnærð eftir ævintýri helgarinnar. Þau týna á sig spjarirnar sem þau fækkuðu yfir nóttina, brosa í spegilinn og valhoppa út í morgunsólina sem skín svo glatt á okkur íslendinga.