Hættur

Þá er ég hættur að drekka kaffi. Ég á þá bara eftir að hætta að láta út úr mér orð og orðasambönd, sem þykja ekki fín á sannkristnum heimilum. Ég er bókstaflega hættur öllu öðru. Í lífi mínu undanfarin ár hef ég kappkostað við að láta af hverjum ósiðnum á fætur öðrum.

Einn af þeim ósiðum sem ég hef gefið upp á bátinn var vinna mín hjá hinu opinbera. Þann ósið tek ég vonandi aldrei upp aftur.
Fyrir þremur og hálfu ári síðan hætti ég að reykja. Mér flaug það einu sinni í hug að mál væri komið að byrja aftur. Þá var ég staddur í New York City í gríðarlegri ástarsorg. Ég hugsaði með sjálfum mér “Já, nú er rétti tíminn til að byrja aftur að reykja”. Svo þegar ég hugsaði þá hugsun lengra, þá gat ég ekki með nokkrum móti réttlætt það fyrir mér. Sérstaklega ætlaði ég ekki að gera þeim það til geðs, sem ég hafði tuðað í vegna reykinga. Reykingar frá mínum bæjardyrum séð, er eitt það alasnalegasta sem mannskepnan hefur ástundað.

Ég er því orðinn hálfgerður púritanisti. Ég gersamlega leyfi mér ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég læt svo gott sem allt á móti mér. Nema í gærkveldi, þá ætlaði bráðaátusjúkdómurinn sem mig hrjáir svo ógurlega að koma mér rækilega fyrir kattarnef. Ég gat bara ekki hætt að éta. Ég var étandi alveg langt fram á nótt. Ég hélt ég myndi éta mig yfir móðuna miklu. Það gerist örsjaldan, að ég sé svo þjakaður af sorg og tómarúmi að ég finn hjá mér þörf að éta á mig gat.
Þar fyrir utan er ég orðinn alveg sérstaklega leikinn í að láta á móti mér hluti.

Ég ætla síðan þegar allt hefur um koll keyrt hætta að anda líka. En það verður nú kannski einhver bið á því.