Nú verður gaman….

Það eru nokkrar mínútur í miðnætti á föstudagskveldi. Ég er nýbúinn að vaska sjálfan mig upp, plokka augabrýrnar, setja á mig vellyktandi, tannbursta og gera mig eins fallegan og ég get mögulega áorkað, án þess að nota bolabrögð.
Og hvað stendur til kann einhver að spyrja sig. Á að skella sér á veiðilendurnar. Liggur leið mín á Nasa, Prikið eða kannski Vegamót.
Nei, ekki er nú svo. Eftir að vera búinn að snurfusa mig og hafa mig rækilega til, hef ég í hyggju að leggjast í uppábúið rúm mitt með skál fulla af rúsínum og fræum og horfa á heimildarmynd um Íraksstríðið.
Á einhverjum tímapunkti í mínu lífi hefðu mér fundist lifnaðarhættir mínir afskaplega óspennandi, ef ekki gersamlega niðurdrepandi.
Ég hinsvegar verð að viðurkenna að ég er nokkuð sáttur.