Föðurhlutverk

fossvogskirkjugardur

Ég og ellefu ára gömul dóttir mín fórum um helgina á sýningu hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur, sem okkur þótti frekar fátækleg. Hvað um það. Svo settumst við niður á Cafe Paris og hún pantaði sér Egils Gull og ég mjólkurkaffi. Henni varð þó ekki að ósk sinni, en fékk heitan súkkulaðidrykk með rjóma, og nokkuð myndarlega tertusneið. Ég bað um svokallaða pönnukökuveislu með kaffinu mínu, sem samanstóð af þremur upprúlluðum pönnukökum og smá rjómaklessu. “2463.- krónur takk,” sagði Cafe Paris, “vinsamlegast borgið á barnum á leið ykkar út.”

Eftir göngutúr um miðbæinn, með viðkomu í Eymundsson, keyrðum við upp í Öskjuhlíð og ég lagði til að við fengum okkur göngutúr um kirkjugarðinn. “Afhverju er skemmtilegt að fara í kirkjugarðinn?” spurði dóttir mín alveg undrandi á gamla manninum. Og ég sem hefði kannski átt að taka mér örlítið lengri tíma í að upphugsa svar við spurningu hennar, útskýrði fyrir henni að gamanið fælist í því að við værum sprellilifandi meðan fólkið í garðinum væri allt dautt.

Ég verð að segja mér til málsbóta að fram að þessari stundu var ég búinn að standa mig nokkuð vel í föðurhlutverkinu. Ég var tildæmis búinn að uppfræða hana um hver Hörður Torfa væri og hvernig hann hefði barist fyrir réttindum samkynhneigðra(það var mynd af honum á ljósmyndasýningunni). Einnig var ég búinn að miðla til hennar hagnýtum upplýsingum eins og að maður eigi aldrei að hrækja þar sem gangandi fólk kemur mögulega til með að leggja leið sína. Með því að passa sig á hvar maður hrækir, sýndi maður öðru fólki virðingu sína.

Það að skemmtilegt sé að vera í kirkjugarðinum, út af þessum andstæðum, var ég svo sem búinn að hugsa nokkrum sinnum á heilsuskokki í gegnum garðinn. Eitthvað á þessa leið: Hér hleyp ég, heilbrigður, með fulla hreyfigetu, meðan allt þetta fólk liggur í moldinni steindautt – einhvern tímann mun ég liggja dauður á kistubotni, þ.e.a.s ef ég mun eiga fyrir útförinni. En það var ekki þess vegna sem ég vildi fara með telpunni minni í göngutúr um garðinn. Mér hefur alltaf fundist garðurinn heillandi. Á bakvið hverja áletrun og hvert ártal er saga einhvers sem einhvern tímann lifði. Einhver sem fæddist frjáls inn í þennan heim, týndi frelsinu þegar hann eltist og eyddi lífinu í að leita að því. Eða hugsaði kannski aldrei á þessum nótum. Vann mögulega bara myrkranna á milli, efaðist aldrei um tilveru sína, var sáttur ef hann gat séð fyrir sér og sínum og spurði aldrei neinna spurninga. Ólíkt mér, sem geri ekki annað en að spyrja spurninga – alveg þar til ég ærist: Afhverju dó þessi ungur? Hvernig var lífið á Íslandi á þeim tíma sem þessi fæddist? Hvað var hann gamall í seinni heimstyrjöldinni? Hefur þessi verið harður húsbóndi? Ætli kona þessa manns hafi elskað hann? Osfrv.

Dóttur minni fannst hinsvegar sú hugmynd að gaman væri að vera lifandi meðan allir aðrir væru dauðir – mjög fyndin. Hún hafði aldrei hugsað svona um dauðann. Í hennar huga var dauðinn bara sorglegur, hún vissi ekki að hann gat líka verið fyndinn.