No one ever ever knows anyone

Síðan ég byrjaði að skrifa veflóka, hef ég stundum velt því fyrir mér hvort eitthvað af því sem ég skrifa um, komi til með að hafa á einhvern hátt eyðileggjandi áhrif á líf mitt í ókominni framtíð. Ég hef svo sem ekki mikið brotið heilann um þetta, en það verður þó að viðurkennast að ég hef í nokkrum tilfellum hugsað þetta af einhverri alvöru.

Ég tel þó að ekki sé hægt að draga mig í dilka fyrir orð mín hér á þessum vef. Ég hef þó notað óviðeigandi orð eins og drullukunta, sem er fallegt og jafnframt rammíslenskt orð. Til gamans má geta að sé leitarorðinu “drullukunta” slegið inn í leitarvélina hressu og uppátækjasömu google, er síðan mín meðal fyrstu niðurstaðna. Ég get ekki sagt að ég sé mjög hróðugur yfir þessari skemmtilegu “tilviljun”. En einhverstaðar verð ég að slá í gegn.

Einnig skrifa ég veflóka nánast undir fullu nafni með myndum svo hægt sé að bera kennsl á ófögnuðinn. Á þeim tíma sem ég hugðist giftast amerískum lögfræðingi og flytjast búferlum til Brjálæðaríkjanna, hafði ég einhverjar áhyggjur af því að útlendingaeftirlitið í Brjálæðaríkjunum næði að lesa það út úr síðunni minn að ég er mjög svo andvígur stjórn landsins, og þess vegna neitað mér um landvistarleyfi. Enn og aftur um daginn fór ég hugsa eitthvað í þessa veruna. Núna er mér hinsvegar sama. Þó svo að ég noti dónaleg orð í skrifum mínum, þýðir það hvorki eitt né neitt.

“No one ever ever knows anyone.” – Rules Of Attraction