Dr. Bob er dáinn

Það hryggir auman mig að Dr. Bob fraus í hel fyrir hartnær sólahring síðan. Hann hefur prýtt gluggakistu mína í orðrómuðu kaupsýsluhreiðri mínu og hórkonunnar frú Sigríðar.

Ég var fyrir nokkrum mánuðum síðan beðinn um að passa Dr. Bob fyrir unga stúlku sem vinnur á sömu hæð og ég og hóran. Unga stúlkan þurfti að sinna kaupsýslu í útlandinu stórkostlega, en gat ómögulega tekið Dr. Bob með sér.

Hann var þá ekki nema lítil spíra í potti. Lítill og varnarlaus í andstyggilegum heimi, fullum af vondu fólki með steinhjarta. Ég sem hef aldrei verið mikill pottaplöntumanngerð, tók hann að mér og sýndi honum ástúð og nærgætni, sem varð þess valdandi að hann óx og dafnaði í kærleiksríkum félagsskap við undirritaðan. Á örfáum mánuðum var Dr. Bob orðinn það stór að hann rúmaðist vart í gluggakistunni.

En í morgun kom ég að honum dauðum og verð ég að segja að ég varð sorgmæddur í hjarta mínu. Ég varð óneitanlega fyrir smá áfalli. En enga fékk ég áfallahjálp, því ég deili skrifstofu með fólki sem hefur aldrei elskað og kann það ekki.

Dr. Bob er afleggjari af plöntu sem samnefndur gubbaði yfir á síðasta drykkjutúrnum sínum í Akron Ohio fyrir rúmum 70 árum síðan. Síðan þá hefur afleggjari þessi gengið manna á milli og verið stoð og styrkur þeirra er þreyta kaupsýslu í samtökum iðnaðarins.