Það er verið að gera gys að mér

Ég skrifa ekki fleiri veflóka um laugaveginn, því ég er svo blessunarlega fluttur yfir á Óðinsgötuna prýðilegu. Ég bjó á laugaveginum í fjögur ár, og eru þetta töluverð viðbrigði fyrir mann jafn einhverfan og undirritaður er.

En nú spyr ég, er verið að gera gys að mér? Nú hvers vegna, kann einhver að spyrja sig.
Jú, vegna þess að það er verið að spila heila breiðskífu með Bjartmari Guðlaugssyni, hér á hæðinni fyrir ofan mig. Þegar ég heyrði laglínuna “með vottorð í leikfimi skoða ég bæinn minn”, hélt ég að þetta væri eitthvað flipp í nágrönnum mínum, en þar skjátlaðist mér all verulega, því þau eru að spila alla plötuna, rétt á meðan þau ryksuga og punta hjá sér. Enginn smá stemmari það.

Ég veit ekki um neitt skelfilegra en þetta tímabil í mannkynsögunni, þegar þetta lag náði vinsældum. Ég var unglingur með unglingakomplexa, núna er ég hinsvegar fullorðinn með fullorðinskomplexa.