Blogg óþol

Fyrir tíma vefskrifa, var hægt að skemmta sér við að rífa í tætlur ritmál sem manni þótti leiðinlegt. Fljótafgreitt og umfram allt bráðhollt fyrir sálina. Ef pistillinn var með eindæmum leiðinlegur, þótti snjallt að hafa pappírinn, sem í flestum tilfellum var Morgunblaðið, meðferðis á salernið. Þannig gat maður á ljóðrænan máta gefið skít í skoðanir sem voru á skjön við manns eigin. Ekki man ég þó til þess að þetta hafi verið tíðkað á mínu heimili, þó svo að ég hafi heyrt því fleygt að Morgunblaðið væri hinn besti skeinipappír.

En þetta er erfitt að gera í nútímanum, án þess að eiga til þess tækjakost. Ég les mikið á netinu, hvort sem það eru blogg, fréttir, eða pistlar. Í þessari tíð er það farið að gerast æ oftar að ég les yfir mig af niðurdrepandi leiðindardrasli. Þá garga ég innan í mér og ég finn fyrir löngun til að skemma eitthvað.

Til að fá útrás fyrir ólund mína hef ég fest fé í prentara. Ekki get ég farið að grýta tölvunni minni í vegg, í hvert skipti sem ég fæ upp í kok af pirrandi lesmáli. Það yrði andskoti kostnaðarsamt. Þannig að ef ég les núna eitthvað sem fer hræðilega í taugarnar á mér, þá prenta ég textann út, hnoða honum saman, hendi í gólfið og hoppa á honum. Þessi nálgun, kemur mér umsvifalaust í jóla- og hátíðarskap.

Eftirmáli:
Nú er ég hef lesið þessa færslu yfir til að athuga málfræði og orðalag, finnst mér hún svo leiðinleg að ég hef prentað hana út til að beita hana fyrrnefndri aðferð.

2 thoughts on “Blogg óþol”

  1. Ég þekki mann sem dúndrar alltaf gemsanum sínum í vegginn þegar honum mislíkar eitthvað. Engum sögum fer af því að hann geri í því að finna og lesa illa ígrundaðar skoðanir fólks settar fram öðrum hálfvitum til ánægju og yndisauka en gemsinn hefur gengið nokkrum sinnum í endurnýjun lífdaga.

    Af þessu hefur hann lært þá einföldu lexíu að kaupa sér alltaf ódýrasta símann hverju sinni.

Comments are closed.