Skapgerð

400ft174Glitfíflum skreytt skapgerð mín var fullmótuð þegar ég var rétt liðlega 10 ára gamall, og ekki hægt að segja að hún hafi tekið stórkostlegum breytingum síðan. Flestar þær hugsanir sem ég hugsaði þá, hugsa ég enn þann daginn í dag; þær eru aðeins ruglingslegri, háværari og mun ómarkvissari. Prúður og indæll drengur, úr fjölskyldu þar sem báðir foreldrar voru læsir, varð ég yfir mig ástfanginn af sætustu stelpunni í bekknum. Hún var með sítt ljóst englahár, föl á hörund, og nokkuð kurteis miðað við heimilishagi. Ég var þá, mun kjarkaðri en núna á fertugsaldri.

Ég gerði mér sérstaka ferð með strætó til Reykjavíkur til að ná í kvikmyndir sem ég hélt að hún hefði gaman af. Síðan bauð ég henni og vinkonu hennar heim í Löngubrekkuna til kvikmyndaveislu með titlum eins og Taxi Driver, Dracula: A Love Story, Big Bad Mama, Smokey And The Bandit.

elmo3Heilu bíómyndirnar voru á þessum árum styttar niður í 20 mín, til að þær pössuðu á stærstu spólunnar. Stundum var mynd á tveimur til þremur spólum. Ef að mynd kom frá Paramount, þá var hún oftast á þremur spólum, en ef hún var frá Universal þá var hún á einni eða tveimur spólum. Allt sem þótti alger óþarfi í myndinni var klippt út, stundum svo illa að það var engin leið að átta sig á um hvað myndin fjallaði. Svo kom fyrir að spólur týndust. Ég átti tildæmis aðeins seinni hlutann af Dracula: A Love Story, og þar sem ég hafði aldrei séð fyrri spóluna, þurfti ég að nota Dracula kunnáttu mína til að skálda forsöguna ofan í þá sem sátu kvikmyndasýningar hjá mér. Ekkert af þessu skipti þó höfuðmáli. Það var lúxus að geta horft á bíómyndir með hljóði heima hjá sér, þó hljóðið væri í mónó.

Ég var himinlifandi að fallegasta stúlkan í bekknum kæmi í heimsókn til mín nánast daglega. Enginn annar í bekknum átti Elmo St. 180 kvikmyndasýningavél með hljóði. 8mm sýningavélar voru tíðar á þessum tíma, en að í þeim heyrðist annað hljóð en trtrtrtrtrtrtrtrt var sjaldgæft.

Einu sinni, sem og oft áður, hringdi ég í hana. “Hæ hæ hæ”, sagði ég fullur af sjálfstrausti. “Ég er hér með ægilega spennandi kvikmyndir”, og taldi þær upp, “vilt þú og Fribba ekki kíkja til mín í kvikmyndasýningu á eftir?” Stutt þögn. Smá andvarp. “Nei, uhhhh,” sagði hún vandræðalega, “öhhhh, ehhhh, ég kemst ekki ég þarf að…..”

Hvers vegna hún komst ekki, eyddist, eða var aldrei skráð í minni mitt. Ég kvaddi og lagði símann á. Líf mitt var í molum. Hún hefði alveg eins getað stungið úr mér augun með gaffli, vafið filmunni utan um hálsinn á mér og kyrkt mig, ekkert hefði valdið mér meiri sársauka en þessi hryllilega höfnun. Hún, með ljósa hárið, svo falleg, alveg eins og engill, var inn við beinið andstyggileg og illkvittin norn. Ég hringdi aldrei aftur í hana. Þennan dag fór nafn hennar á svartan lista sem ég geymi í kolli mínum. Þeir sem fara á þann lista mega eiga von á að ég hlakki yfir minnstu hliðarsporum þeirra um ókomna tíð, og ef svo (ó)lukkulega vill til að ég lifi lengur en fólkið á listanum þá mæti ég með typpið mitt og spræni yfir þeirra hinsta hvílustað.

Þessi listi er enn í fullri notkun.

Chiquitita

Þegar ég var krakki, þá heyrðist mér Abba syngja Siggi kýta. Kýta er annars steinbítsmagi, ekki að ég hafi vitað það þá. En hvað er í ósköpunum er Chiquitita?

Ég hélt aldrei upp á Abba. Ef ég var spurður, þá fannst mér fannst sú ljóshærða sætari. Ég var hinsvegar mikill aðdáandi Bee Gees bræðra, þeir voru svalir töffarar.

Draumahús

Af þremur húsum, þá hefur mig líklega oftast dreymt húsið á myndinni. Í þessu húsi sem stendur ennþá við Löngubrekku, ólst ég upp. Það er þó ekki svona glæsilegt í dag og garðurinn ber þess merki að engum hefur þótt vænt um hann í heila eilífð, en pabbi var mikill áhugamaður um garðrækt, og við systkinin því alin upp í blómahafi. Myndin er tekin nokkrum árum fyrir minn tíma. Sannkölluð white picket fence paradís.

Annað hús sem mig dreymdi oft, en dreymir sjaldan núorðið, var spölkorn frá þessu og stóð við Nýbýlaveg. Við krakkarnir kölluðum það rauða húsið. Í því bjó ákaflega yndisleg eldri kona, sem ég tók ástfóstri við sem krakki og hélt til hjá, þar til ég eltist og varð miskunnarlausum unglingnum að bráð. Um daginn heimsótti ég, í fyrsta skipti, leiðið hennar upp í Fossvogskirkjugarði. Hún var mikill aðdáandi Stjörnustríðsmyndanna og ég var búinn að lofa henni, að ef hún dæi áður en sú þriðja kæmi, þá skyldi ég gera mér ferð upp í kirkjugarð og segja henni í stuttu máli út á hvað hún gengi. Þess þurfti ég þó ekki, því hún gat notið hennar bæði í kvikmyndahúsi og svo seinna heima í stofu. Blessunin hún Ásta mín, mikið var hún góð kona.

Þriðja húsið sem mig dreymir reglulega, stóð við Hlíðarveg. Það stendur þar reyndar ennþá, og minnir að einhverju leyti á húsið sem ég bjó í, en ég efa að nokkuð sé eftir af gamla efniviðnum. Í draumunum um það hús, stend ég alltaf í einhverjum framkvæmdum; heilu og hálfu næturnar fara í að byggja húsið og bæta. Í Kabbalah er neikvætt að dreyma endurtekið hús sem maður hefur bundist tilfinningaböndum. Það merkir að maður sé ekki búinn að sleppa tökum á fortíðinni og sakni þess að hlutirnir hafi ekki þróast í aðra átt. Það er nú einhver sannleikur í því.

Myndin af Dorian Gray

Foreldrar mínir höfðu fyrir reglu að skipa mér fram á gang, þegar þeim grunaði að eitthvað hræðilegt ætti eftir að gerast í bíómynd kvöldsins. Man ég tildæmis eftir að hafa fengið að húka við lokaðar dyr þegar George neyddist til að drepa Lenny í Músum og mönnum. Sömuleiðis varð ég af atriðinu þar sem Gloria þiggur kúlu í hausinn úr byssu kærasta síns í myndinni They shoot horses don’t they.
En eitthvað hafa mamma og pabbi verið ókunnug niðurlagi sögunnar um örlög hins sjálfsupptekna Dorian Gray. Samt er eins og mig minnir að systir mín hafi verið passa mig kvöldið sem þessi mynd var sýnd? Hvernig sem stendur á því að þessi mynd slapp í gegnum harðgert kvikmyndaeftirlit Löngubrekkunnar, gefur hér að líta myndbrotið sem kostaði barnæsku mína óteljandi andvökunætur. Þegar ég svo horfði á þetta atriði aftur fyrir nokkrum dögum, fór um mig hrollur; ég efa þó að nokkur krakki myndi kippa sér upp við þetta núna.

[MEDIA=157]

Ann Maxalikk

sjonvarpsglap.jpg

Þarna sit ég í sjónvarpsherberginu. Ég er ekki ýkja spenntur yfir dagskránni, en eins og sjá má á innfelldu myndinni er verið að flytja veðurfréttir. Ég skildi aldrei eitt né neitt í veðurfréttum. Fyrir mér hljómuðu veðurskýringar eins og kveðskapur vitstola manns: “Suð, suð, vestan, súld, rigning, norðanvindur, él, vestan, austan, stormur, Ann Maxalikk.” Hver var þessi Ann Maxalikk, og hvers vegna var alltaf verið að minnast á hana í veðurfréttum? Og þessar teikningar. Jú, ég vissi að þetta voru útlínur Íslands, besta lands í heimi, en hvaða hringir og strik voru þetta. Hverjum datt þetta eiginlega í hug?

Ég fékk heldur ekki skilið hvers vegna allir þurftu að láta af þeim munaði að tala á meðan á veðurfréttum stóð. Afhverju veðurfréttir skiptu hann pabba minn svona miklu máli, áttaði ég mig engan veginn á. Hefði pabbi verið sjómaður, hefði ég mögulega skilið þennan áhuga, enda töluvert um sjóslys á þessum tíma, en hann pabbi var ekki neinn sjómaður, hann var kennari af fínustu sort.

Það var svo seinna að ég skildi að veðrið ákvarðaði það, hvernig skapi maður gæti leyft sér að vera í. Ef að spáin fyrir morgundaginn, var slæm, þá var alveg ástæðulaust að leggja sig eitthvað sérstaklega fram um að vera léttur í lund. Það var hundur í öllum, og skapaði það óneitanlega létta afslappaða stemningu þar sem fólk sameinaðist í hjörtum sínum um að vera geðstirt og fúlt. Einstaka sinnum gerðist það þó að spáin var góð, en þá urðu allir eins og fífl og vissu ekki hvernig þeir áttu að haga sér, en sem betur fer heyrði það til algerra undantekninga.

They shoot horses don’t they.

yawn.jpg

Þá hefur það verið gjört opinbert, að ég er orðinn gamall kverúlant sem hefur dálæti á köttum. Enn og aftur dettur mér í hug titill á bíómynd sem ég sá þegar ég var krakki, hún hét They Shoot Horses Don’t They. Mikil átakasaga um par sem tekur þátt í maraþondanskeppni á kreppuárunum. Þátttakan, er þeirra eina von um að komast af, því í vinning eru vegleg peningaverðlaun. Þegar þau svo vinna ekki keppnina, biður konan – sem er leikin af Jane Fonda – manninn um að skjóta sig í hausinn. Hann í örvæntingu sinni verður við beiðni sinnar heittelskuðu. Titill myndarinnar er svo tilvísun í eftirfarandi díalók:

Policeman: Why’d you do it, kid?
Robert: Because she asked me to.
Policeman: Obliging bastard. Is that the only reason you got, kid?
Robert: They shoot horses, don’t they?

Ef ég man rétt, þá var mér vísað út úr sjónvarpsherberginu, þegar Robert lét vaða. Það var til siðs á mínu heimili, þegar ljót atriði voru í bíómyndum, að skipa mér fram á gang á meðan. Þetta gekk þó ekki upp í öllum tilfellum, því foreldrar mínir sáu tildæmis ekki fyrir atriðið í The Picture Of Dorian Grey, þegar Dorian Grey afhjúpar málverkið af sjálfum sér upp á háalofti. Það atriði er ör á barnæsku minni og mig hryllir ennþá þegar ég hugsa um það.

Arnheiður

Um daginn sagði ég dóttur minni sögu af mér þegar ég var nemandi í viðurstyggilegum Kópavogsskólanum. Ég hef verið u.þ.b tíu ára gamall, alveg fyrirtaks nemandi sem skaraði mjög svo fram úr bekkjarfélögum mínum. Krakkarnir sem voru með mér í bekk voru nefnilega langflestir jaðarfábjánar. Þannig að vera gáfum gæddur, gerði það óumflýjanlega að verkum að ég skar mig talsvert úr; má jafnvel segja að ég hafi uppskorið óskipta aðdáun samnemenda minna. Sú aðdáun tók á sig hinar ýmsustu birtingarmyndir, flestar höfðu eitthvað með ofbeldi að gera.

Sagan sem ég sagði litlu dóttur minni var á þá leið að ég var staddur í stafsetningarprófi hjá henni Arnheiði umsjónarkennara. Ég var langbestur í stafsetningu í öllum bekknum, einhver sótti þó fast á hæla mér, en mér brestur minni hver það var. Gott ef það var ekki stúlka sem hét Berghildur, kölluð Begga. Alveg prýðileg stúlka, sem einnig virtist koma frá heimili þar sem báðir foreldrar voru læsir. Undantekningalaust fékk ég 10 í einkunn á stafsetningarprófi, nema í þetta eina skipti, þá fékk ég 9.5 og hafði ég þá gert eina móður-ríðandi skyssu. Sú skyssa varð mér og kennaranum dýrkeypt, þar sem ég reif upp úr skólatösku minni haglaby…. Nei, nei, nei, nei. Haltu hestum þínum innan girðingar: Ég var ekki farinn að dreyma vota drauma um blóðsúthellingar með haglabyssu að vopni; ekki á þessum aldri.

Ég hinsvegar hrifsaði stafsetningarprófið mitt úr greipum hennar Arnheiðar og reif það í tætlur. Arnheiður sem var hin virðulegasta kona, vissi ekkert hvernig hún átti að bregðast við þessu uppátæki mínu, svo hún gapti bara. Ég fór heim til föðurhúsa með nístandi samviskubit. Það kom mér á óvart hversu illa ég réð við skapið í mér. Ég skildi engan veginn hvernig ég – sem var ósköp indæll lítill drengur – gat verið fær um að sýna vanþóknun mína á jafn afdrifaríkan hátt og raun bar vitni.

Um nóttina gat ég varla sofið, svo mikið kveið mér að þurfa að takast á við næsta skóladag. Þegar ég svo settist við borðið mitt í skólastofunni – ægilega niðurlútur – hélt Arnheiður ræðu yfir bekknum. Ég man ekkert hvað hún sagði í þessari ræðu, en ég veit innst í hjarta mínu að þessi ræða gerði mig að þeim manni sem ég er í dag: Útúrtaugaður, dramatískur í tilfinningalegu ójafnvægi sem kemur fyrir eins og samkynhneigður maður með átröskun.

Húsið á sléttunni

Þá er mál til komið að verða sér út um öll season af Húsinu á sléttunni. Þetta sjónvarpsefni ólst ég upp með og ekki hægt að neita því að ég hafi orðið að betri manni fyrir vikið. Húsið á sléttunni telur 8 season sem erum u.þ.b. 160 klukkustundir af hreinræktaðri gamaldags gúddí gúddí góðmennsku. Hver man ekki eftir byrjunarlaginu sem hljómar einhvern meginn á þessa leið, dadadaraaa dadaraaa dadararar didddirí dirídír. Ég finn það strax þegar ég raula þetta að ég færist allur í aukanna. Og í húsinu á sléttunni fara ekki kúrekarnir öllum að óvörum að setja skökulinn á sér í óæðri endann á hvorum öðrum eins og tíðkast í bíómyndum í forkastanlegum nútímanum. Guð hvað ég vildi að ég væri kominn aftur heim í Löngubrekkuna, sestur fyrir framan sjónvarpið klukkan fjögur á sunnudagseftirmiðdegi með væna súkkulaðiköku sem mamma bakaði, þá var sko prýðilegt að vera til. Núna, pfffff. Guð sé oss næstur. Ég vona að niðurhal á alnetinu verði til þess að Hollywood iðnaðurinn leggist gersamlega af. Mér satt best að segja gæti ekki staðið meira á sama. Það er svo mikið framleitt af ógeðslegu drasli að það er bara gott mál ef þessi iðnaður riðar til falls. Ég segi enn og aftur: “Death to Videodrome, long live the new flesh”.

Dahlia

Hér er svo fallegt blóm sem heitir dalía. Þess ber að geta að undirritaður ólst upp í dalíuhafi dauðans fyrir sunnan og norðan skítalæk. Pabbi sem var mikill áhugamaður um allskyns blómarækt sá til þess að við krakkarnir værum umkringd blómum og trjám í fallegasta garðinum í allri Löngubrekkunni.
Enn þann daginn í dag dreymir mig að ég sé kominn á Löngubrekkuna í fallega dalíugarðinn hans pabba.