Hamsa


Það er lítið gaman að heita Sasson Ben Yehuda og vera fúlasti maðurinn í öllu hverfinu. Sasson þýðir nefnilega á hebresku kæti, gleði, fögnuður, en kátína var það síðasta sem Sasson kom til hugar þar sem hann sat eins og klessa fastur í hjólastól, ekki einu sinni fær um að kasta af sér vatni án þess að verða sér og arfleifð sinni til háborinnar skammar.
Ekki aðeins var Sasson lamaður upp að mitti, heldur átti hann einnig í mestu erfiðleikum með mæli. Allt sem hann reyndi að segja – og hann hafði margt til málanna að leggja – ummyndaðist á tungu hans og varð að hræðilegu umli sem ekki nokkur maður skildi. Fólk sem áður hafði hlustað af óskilgreindri virðingu í hvert sinn sem Sasson opnaði á sér munninn, hristi hausinn yfir hinum nýja talanda.
Sasson vissi vel hvaða kenningar voru uppi um örlög hans. Ástæðan fyrir að hann gat ekki lengur talað, var sú að Guð hafði þaggað niður í honum. Munnurinn á Sasson, sagði fólkið, – er illur. Því hafði Guð tekið þá ákvörðun á stjórnarfundi að Sasson yrði refsað með hressilegu heilablóðfalli. Það heilablóðfall varð honum næstum að aldurtila.

Sasson virti mig fyrir sér með vanþóknunarsvip. Hver er þessi maður? var honum spurn. Hann er ekki héðan. Hvað kemur hann? Frá fjarlægu landi? Íslandi? Hvar í andskotanum er þetta Ísland? sagði hann án þess að mynda orð. Ísland? Þetta hljóta að vera svik, virtist Sasson segja með þónokkri fyrirlitningu.
Í NORÐUR ATLANTSHAFI! gargaði Rami sonur hans á mölbrotinni kúrdísku. Rami hélt að pabbi sinn skildi hann betur ef hann talaði tungumál Kúrdistan. Hann kunni samt eiginlega ekkert í kúrdísku – aðeins orð og orð.
Það fór óheyrilega í taugarnar á Sasson þegar sonur hans reyndi af mikilli vankunnáttu að tala tungumálið sem Sasson ólst upp við. Hann missti algerlega stjórn á sér og varð snarbrjálaður, en verandi ófær um að lesa Rami pistilinn – eins og hann gerði ítrekað þegar hann stóð lappirnar -, barði hann sjálfan sig af töluverðum þunga í hausinn til að tjá óánægju sína.
Ma’gibett Aba? hrópaði Rami, viss um að ef framburður hans væri nógu góður, ef hann talaði nógu hátt og endurtæki svo allt sem hann segði, þá kæmi pabbi hans til með að skilja hann.
Gibett la’mita? hélt Rami áfram, og skildi ekki afhverju pabbi, sem einu sinni hafði verið svo mikill karl, sat og bankaði sig í hausinn eins og geðsjúklingur í amerískri bíómynd. Rami, sem var umhugað að láta bæði Guð og viðstadda halda að hann væri með sál, draup höfði og felldi nokkur slepjuleg tár.
Ég vissi að tárin felldi hann ekki einungis fyrir hinn sírefsandi Guð, heldur voru þau einnig mér ætluð – svona til að bjóða mig velkominn í fjölskylduna.

Hamsa er einn af verndargripum gyðinga. Hamsa eða Hamesh, þýðir fimm og táknar fimm bækur Torah. Hamsa er einnig tákn fyrir bæði súnní- og sjíta múslima. Gripurinn er hönd, stundum skreytt með fiskum, stundum með auga. Hún er notuð í hálsmen, veggjaskraut, og hvar sem þörf er á vernd gegn hinu hræðilega illa auga. Hið illa auga er samkvæmt sögusögnum – öfund í garð þeirra sem eru blessaðir með mikilli lukku. En Hamsa er ekki einungis verndargripur, því einnig er hægt að nota Hamsa til að leggja álög og svipta fólk lukku sinni.
Sá sem bregður á það óráð að nota Hamsa í þeim tilgangi – afskrifar sjálfan sig sem eftirlæti Guðs, og mál hans sett í forgang á stjórnarfundum.

Sasson hataði mig eins og hann hataði allt og alla. Hann hataði Rifku svo mikið að hann lagði á hana Hamsa álög. Rifka hafði verið gift inn í fjölskylduna í mörg ár. Helen, eiginkona Rami, sagði mér að fegurri konu hefði ekki verið að finna í Maoz Tzion. Hún var svo falleg að það lýsti af henni.
En Sasson var illa við hana frá því að hann hitti hana fyrst. Eitt sinn þegar Rifka sneri við honum baki, reiddi hann út höndina með opinn lófa í átt að henni, án þess að snerta hana.
Þeir sem urðu vitni að því, voru sammála um að þarna hefði Sasson kallað yfir Rifku ógæfu með að nota hönd sína sem Hamsa, enda hófst þrautaganga Rifku upp frá þeirri stundu. Skelfilegur húðsjúkdómur lagðist á hana með svo mikilli kvöl og pínu að hún hugðist taka sitt eigið líf. Hún gekk á milli lækna, rabbína, hómópata til að fá lækningu. Á endanum var orsökin rakin til Sasson og Hömsunnar. Þegar ég hitti Rifku, var enga gleði að finna í sálu hennar og það lýsti ekki lengur af henni.

Þegiðu karlandskoti! hreytti ég út úr mér á íslensku. Tóntegundin í röddinni, hefur án efa skilað meiningunni. Stundum þarf fólk ekki tala sama tungumál til að eiga skiljanleg samskipti, að því hafði ég komist á þeim fjórum mánuðum sem ég hafði dvalið með Ben Yehuda fjölskyldunni.
Ég beygði mig niður til að þrífa upp jógurt og salat sem ég hafði haft talsvert fyrir að skera niður fyrr um morguninn. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem þreif upp æti af gólfinu, og á þegar hér var komið við sögu var ég orðinn langþreyttur á því.
HAMSA!, gargaði Helen. Ég sneri mér við skelkaður og vissi ekki alveg hvernig ég átti að bregðast við. Helen sýndi mér með lófanum, hvernig Sasson gerði í bakið á mér. Er það virkilega, spurði ég Bení sem sat þarna í sófa. Bení jánkaði.

Ég verð að komast héðan, hugsaði ég með sjálfum mér og kveikti í sígarettu.

Mezúza


Mezúza er ílangt lítið stykki sem fest er á dyrakarm á heimilum gyðinga. Stykkið er holt og inn í því er að finna litla bókrollu, sem á er skrifuð hebresk bæn. Bænin má ekki vera skrifuð af hvaða lassaróna sem er. Til þeirra verka er fenginn þartilgerður prýðisgyðingur, með áralanga reynslu í að skrifa bænir á bókrollur.
Sumir gyðingar, eftir því hversu trúaðir þeir eru, láta sér nægja að festa mezúzuna á útidyrakarminn, en aðrir telja að öll herbergi hússins, að undanskildu baðherberginu, eigi að vera með mezúzu. Áður en gengið er inn í rými, sem verndað er með mezúzu, er hefðin sú að kyssa á fingur sér og snerta mezúzuna. Með því mótinu skilur viðkomandi alla illa vætti, sem mögulega fylgja honum, eftir fyrir utan dyrnar. Þessu trúa gyðingar í mismiklu mæli, enda haldast ekki alltaf í hendur trú og hefðir.

Ég bjó einu sinni inn á heimili með kurdískri gyðingafjölskyldu í útjaðri Jerúsalem. Hún var strangtrúuð þegar illa viðraði. Að öllu jöfnu virtu meðlimir fjölskyldunnar einungis þær reglur gyðingdómsins sem kostuðu þá ekki of miklar fórnir. Þann tíma sem ég dvaldi með þeim, hvort sem það tengdist beint eða óbeint veru minni þar, – dundi ógæfan á fjölskyldunni.

Ég kyssti sjaldan mezúzuna, og keðjureykti á Sabbat, sem varð hugsanlega til þess að Guð var þessari fjölskyldu ákaflega reiður, enda Guð gyðinga þekktur fyrir fátækt í geðheilbrigði, með litla stjórn á skapi sínu. Meðlimir fjölskyldunnar, fóru að athuga sinn gang og komust að því, eftir miklar vangaveltur, að mezúzúrnar væru líklega illa skrifaðar. Rollurnar voru því sendar til yfirprýðisgyðings í Jerúsalem. Hann úrskurðaði að misbrestur væri í ritmálinu og sendi til baka ferskar og brakandi rollur vottaðar af virtustu prýðisgyðingastofnun í bókrolluritmáli. Dagar liðu og áður en ég gat sagt þeim öllum að þau væru auðtrúa hálfvitar, leystust mál fjölskyldunnar á farsælan máta.

Stundum vildi ég óska þess að lífið væri svona einfalt.

Hinn arabíski shuk


Fátt er eins sárgrætilegt og þegar gullin tækifæri ganga manni úr greipum. Ég persónulega hef orðið af glæsilegum viðskiptatækifærum, vegna heimskulegra hugsjóna.

Fyrir um tíu árum síðan var ég staddur á arabíska markaðnum í Jerúsalem með fyrrum ástmey minni. Arabíski markaðurinn er fullur af allskonar helvítis skrani og skrauti, sem heillar glysgjarna túrhesta. Þar er hægt að gera góð kaup, ef maður er harður í horn að taka, og kann listina að prútta. Ég man ekki nákvæmlega hvað við vorum að skoða hjá einum kaupmanninum, hvort það voru teppi, eða 20 lítra vatnspípur – en við erum ekki búin að standa þarna lengi, þegar kaupmaðurinn gerir mér tilboð sem ástsjúkur fábjáni getur ekki annað en hafnað. “Þrír gæðaúlfaldar fyrir vinkonu þína” segir tannleysan og brosir ofurblítt. Ég trúi ekki mínum eigin eyrum og bið hann um að endurtaka tilboð sitt. Hann gerir það og ég og ástmey mín getum ekki annað en hlegið, þó svo kaupmanninum sé fúlasta alvara.

Árin liðu og þessi unga stúlka, sem ég hélt að ég myndi elska og vera með þangað til ég hrykki upp af – fór veg allrar veraldar og ég sat einn eftir með tárin í augunum. Þórkatla köttur, er stórfínn, ekki misskilja mig, en ef ég ætti þrjá eða fleiri úlfalda, þá væri gaman að vera til.

Svona er þetta oft í lífinu.

Vertu vinur minn á facebook eða ég drep mig!

Í hádeginu í dag hitti ég fyrir mann, sem ég bað um að verða svokallaður vinur minn í netsamfélaginu facebook. Ég sagði honum að hefði hann ekki samþykkt að verða vinur minn á facebook, hefði ég og ekki átt annarra kosta völ en að drepa mig. Ég hefð tekið þeirri höfnun sem óyggjandi sönnun þess að ég er ömurlegur, og við það uni ég ekki. Ég hef ekkert við það að athuga þó annað fólk sé ömurlegt, en ég get ekki undir nokkrum kringumstæðum orðið uppvís af því sjálfur.

Svo varð úr að ég fór að íhuga það með sjálfum mér hvort til sé fólk sem tekur því illa ef einhver vill ekki vera vinur viðkomandi í netsamfélagi af þessu tagi. Ég tel líklegt að sumir láti það stjórna lífi sínu og líðan, hver hafi samþykkt að gerast bloggvinur þeirra. Allavega þegar ég skoða viðurstyggilega veflóka morgunblaðsins, sé ég ekki betur en að mörgum þyki afskaplega elegant að raða upp í dálk bloggvinum sem eru: “nafntogaðir.” Ég leyfi mér að setja orðið nafntogaðir inn í eldhressar gæsalappir, rétt til að ýja að því: að sitt sýnist hverjum um frægð manna í fjölmiðlum hérlendis. Ég hef setið til borðs með fólki sem talar um að þessi og hinn sé vinur þeirra á myspace. Ég hinsvegar spyr: hvað þýðir það nákvæmlega? Þýðir það að ef einhver sem manni sjálfum þykir hipp og kúl vill vera yfirlýstur vinur manns í netsamfélagi, að maður sjálfur sé þar með orðinn hipp og kúl? Eða hvað tilgangi þjónar þetta?

me_and_a_turtle_small.jpgHvað er ég að gera á facebook? Ég er ekki á facebook að leita af ástinni, það eitt er klárt. Ástæðan fyrir að ég skráði mig þarna fyrir nokkrum mánuðum síðan er sú að árið 1995 var ég staddur út í Ísrael á samyrkjubúi, með fjöldanum öllum af fólki víðs vegar að úr heiminum. Þetta var áhrifamikill tími í mínu lífi og hef ég oft og mörgum sinnum velt því fyrir mér hvað hafi orðið af þeim sem mér þótti einna vænst um. Rétt upp úr páskum setti maður sig í samband við mig, sem ég hafði kynnst á þessum tíma. Hann var orðinn auðugur lögfræðingur, eins og oft er með gyðinga. Hann sagði mér að á facebook, væru meira og minna allir þeir sem ég hafði kynnst á samyrkjubúinu skráðir notendur. Hann stakk upp á að ég skráði mig, svo ég gæti tíundað hvað á daga mína hefði drifið.

Ég tel mig vera búinn að gera grein fyrir hvers vegna ég er þarna staddur. Ég hef þó gaman af því endrum og eins að skoða hverja er þarna að finna. Stundum þegar vel liggur á mér, bið ég meira segja fólk sem ég hef kynnst á lífsleiðinni um að gerast vinir mínir, svo ég geti montað mig af því eins og um frímerkjasafn sé að ræða.

hnífastatíf

Þegar ég dvaldi út í Ísrael varð ég fyrir árás vitstola manns. Maður þessi sem að sjálfsögðu var Dani, stakk mig í bakið með eldhúshníf, þannig að það vantaði einungis fjóra millimetra upp á að hnífsoddurinn gerði gat á gollurhúsið sem umlykur kærleiksríkt hjarta mitt. Hefði bauninn sumsé sett örlítið meiri kraft í hnífstunguna, þá væri ég að öllum líkindum ekki að skrifa þennan veflók.
Ég lá í nokkra daga á spítala í útjaðri Tel Aviv. Þegar ég útskrifaðist, fór ég í fangelsið – þar sem tilræðismaður minn sat bak við lás og slá – til að gefa lokaskýrslu. Á leiðinni þangað ákvað ég að kaupa handa honum karton af sígarettum, svo hann hefði nú eitthvað við að vera þangað til örlög hans yrðu ákveðin.

Fangelsið var álíka aðlaðandi og fangelsið í myndinni Midnight Express eftir Alan Parker. Þegar þangað var komið, var ég leiddur á fund ísraelskrar lögreglukonu sem hafði eitt sinn verið ofursti í hernum. Hún sagði mér hluti sem ég ætla ekki að tíunda hér, – en líða mér ekki úr minni svo lengi sem ég lifi. Að skýrslutöku lokinni, fór ég niður í fangageymslu til að hitta tilræðismann minn. Hann mætti mér í fylgd fangavarða, hlekkjaður á fótum og höndum. Mér þótti miður að sjá hvernig fyrir honum var komið. Hann sagði mér að hafa ekki af þessu neinar áhyggjur; að þetta væri bara járn og að það væri engin ástæða til að gefa járnadrasli eitthvað vægi. Ég gekk að honum, faðmaði og óskaði honum velfarnaðar. Ég sá hann aldrei aftur.

Afhverju er ég að segja þessa sögu hér á vefsetri mínu?

Léttir dómar yfir kynferðisglæpamönnum fara alveg sérstaklega í skapið á mér. Í gær féllu tveir dómar, annar taldi 2 ár yfir alræmdum nauðgara og hinn 5 1/2 ár yfir 19 ára gömlum manni fyrir tilraun til manndráps. Ég þori að fullyrða að ekkert af fórnarlömbum hins alræmda nauðgara er á leiðinni í fangelsið til hans, til að gefa honum karton af sígarettum og óska honum velfarnaðar. Hinsvegar eru mun meiri líkur á að pilturinn sem dæmdur var fyrir tilraun til manndráps, fái samúð þeirra sem að málinu standa.

Segir það ekki talsvert um hversu grafalvarlegir kynferðisglæpir eru?

Beautiful people

siggi_gen_raviv_3.jpg
Anorexía er málið.

Fólk sem var mér mjög kært og ég kynntist fyrir u.þ.b 12 árum síðan, hefur sett sig í samband við mig. Ég get þakkað þessu vefsetri fyrir, að þau fundu mig.

Í óteljandi skipti hefur mér verið hugsað til þeirra, en ekki komist eftir því hver afdrif þeirra urðu. Þau má finna víðsvegar á heimsbyggðinni, í Kanada, Ameríku, Ísrael. Þessa daganna erum við að bera saman bækur okkar á ríjúníon vef sem heitir facebook.com. Á myndinni er undirritaður þegar hann var mjór og fallegur, Raviv og Genevieve. Þess ber að geta að ég er að éta epli á myndinni. Raviv og Genevieve eru núna gift og eiga tvö börn.

Hugsa sér, hvað þetta líf er mikið ævintýri.

israel ’95-’97

Ég kom við í The Manhattan Mall og hitti þar fyrir Ísraela sem var að selja Death Sea Minerals. Hann laugaði hendur mínar upp úr saltsápu. Við spjölluðum saman í dágóða stund og ég fór að rifja upp veru mína í Ísrael og hvaða áhrif landið hafði á mig. Á því tímabili sem ég var þar varð ég svo hrifinn af landi, þjóð og trúarmálum að ég varð staðráðinn í því að taka trúnna. Ég veit ekki almennilega hvers vegna, það var eitthvað sem hreif mig við þetta samfélag. Kannski var það vegna þess að þetta var svo ólíkt öllu því sem ég hafði sjálfur alist upp við. Kannski voru það jemenísku stúlkurnar uppáklæddar í herbúninga, með uzi við síðuna sem kveiktu í mér það mikinn losta að ég var tilbúinn til að búa í ultra orthodox gettói um ársbil eða svo og stúdera Tora og Talmúd.

Ísrael hefur markað allt mitt líf síðan. Ástæðan fyrir því að ég er hérna staddur í NY 8 árum síðar tengist veru minni í Ísrael beint.