Ung í anda/Young at heart

Meira um öldrun og dauða; eitt af mínum helstu hugðarefnum. Í gær sá ég frískandi og skemmtilega heimildarmynd um gamlingja í U and S of the A. Myndin er um öldrunarkór, flestir meðlimir yfir 75 ára og einstaka á hundraðasta aldursári. Í stað þess að halda sig við hefðbundna ellismelli, flytur kórinn lög eftir Sonic Youth, David Bowie, Coldplay, Jimi Hendrix.
Gamla fólkið er misvel á sig komið, og þegar líður á myndina hverfa tveir kórmeðlimir á vit feðra sinna. Stemningin í kórnum er þó sú að ef einhver dettur dauður niður, þá er honum ruslað út af meðan kórinn heldur ótrauður áfram.

Í myndbandinu hér að neðan(eitt af mörgum í myndinni) er leitast við að svara tilvistarspurningum í laginu: “Road to no where”, eftir snillingina í Talking Heads.

[media id=213 width=512 height=390]

Young at heart á imdb.

Myndin af Dorian Gray

Foreldrar mínir höfðu fyrir reglu að skipa mér fram á gang, þegar þeim grunaði að eitthvað hræðilegt ætti eftir að gerast í bíómynd kvöldsins. Man ég tildæmis eftir að hafa fengið að húka við lokaðar dyr þegar George neyddist til að drepa Lenny í Músum og mönnum. Sömuleiðis varð ég af atriðinu þar sem Gloria þiggur kúlu í hausinn úr byssu kærasta síns í myndinni They shoot horses don’t they.
En eitthvað hafa mamma og pabbi verið ókunnug niðurlagi sögunnar um örlög hins sjálfsupptekna Dorian Gray. Samt er eins og mig minnir að systir mín hafi verið passa mig kvöldið sem þessi mynd var sýnd? Hvernig sem stendur á því að þessi mynd slapp í gegnum harðgert kvikmyndaeftirlit Löngubrekkunnar, gefur hér að líta myndbrotið sem kostaði barnæsku mína óteljandi andvökunætur. Þegar ég svo horfði á þetta atriði aftur fyrir nokkrum dögum, fór um mig hrollur; ég efa þó að nokkur krakki myndi kippa sér upp við þetta núna.

[MEDIA=157]

Hotel Chevalier

[MEDIA=156]

Dásamlegt atriði úr stuttmyndinni Hotel Chevalier, sem er undanfari myndarinnar The Darjeeling Limited. Jack L. Whitman hefur í lengri tíma falið sig frá umheiminum á hinu franska Hotel Chevalier. Kona, sem virðist vera ástin í lífi hans, kemur til að finna hann. Rétt áður en hann opnar hurðina til að hleypa henni inn, setur hann af stað lag sem honum finnst passa vel við aðstæður. Unaðslega þurr kímnigáfa. Wes Anderson er snillingur.

My name is Dick

Kúnstin er að leika þetta eftir bláedrú, og ef það flokkast ekki undir það að vera hamingjusamur, glaður og frjáls, þá er ég gersamlega á villigötum.

[MEDIA=141]

Myndin er Rules of attraction, sem hefur verið í uppáhaldi frá því ég sá hana fyrir 5 árum síðan; í henni gefur meðal annars að líta eitt af flottustu sjálfsmorðsatriðum bíósögunnar. Undirritaður hefur mikið dálæti á sjálfsmorðum og sjálfsmorðsatriðum.

Gatan þar sem þú elur manninn

Vegna fjölda áskoranna hef ég ákveðið að birta hér myndbrot úr: Mín fagra frú. Þetta er að sjálfsögðu lagið: On the street where you live. Í aðalhlutverki er geðþekkur uppáklæddur maður sem hefur orðið ástinni að bráð. Það gerir það óhjákvæmilega að verkum að hann missir vitglóruna. Í geðsýki sinni, labbar hann froðufellandi fram og aftur götuna þar sem konan sem hann elskar á heima. Hún er hinsvegar ekkert skotinn í honum. Hún er hrifin af gömlum karlfausk sem þykist allt vita.

Það kann að vera að það sé eilítið samkynhneigt af minni hálfu að hafa gaman af söngleikjatónlist, en mér er nokkuð sama. Mörgum finnst ég eigi að hafa gaman af einhverju karlmannlegu eins og mótorhjólum. Hvað get ég gert? Á ég að þykjast hafa áhuga á smurolíu og fótbolta, til að geta átt betri samskipti við kynbræður mína?

Jæja, ég má ekki vera að þessu, ég þarf að plokka augabrúnirnar fyrir kvöldið.

[MEDIA=145]

superfreak

Ekki skoða þetta video, ef þú hefur í hyggju að sjá Little Miss Sunshine.

[MEDIA=150]

Þetta atriði er svo mikið fyrirtak. Þunglyndissjúklingurinn sem hefur verið gagnrýndur töluvert í gegnum myndina, er þarna fyrstur til að standa upp og styðja stúlkuna litlu.

Þess ber að geta að DeVotchka sá um megnið af tónlistinni fyrir þessa mynd. Þó ekki þetta lag, en ef ég man rétt þá var þetta lag vinsælt á ömurlegum unglingsárum mínum. Þannig er það nú bara, já sei sei.