Ernest Borgnine

Í dag varð mér hugsað til Ernest Borgnine, en hann er einn af afkastameiri leikurum kvikmyndasögunnar. Ég var að semja í hausnum á mér samtal á milli mín og hans ef leiðir okkar lægju saman. “Þú ert Ernest Borgnine!” segði ég sisona við hann, eins og ég væri fyrstur til að færa honum fréttirnar. Hann myndi að sjálfsögðu brosa sínu allra breiðasta og játa það. Þeir sem til þekkja vita að enginn getur brosað breiðar en Ernest Borgnine, hann er brosmildasti maður allra tíma. “Þú lékst í Dirty Dozen með Lee Marvin!” segði ég. Dirty Dozen er eina myndin sem ég man eftir Ernest Borgnine í, þrátt fyrir að maðurinn hafi leikið í u.þ.b 200 kvikmyndum. “Segðu mér, er ekki Borgnine norðlenskt nafn?” Og þrátt fyrir að spurningar mínar væru kjánalegar er ég viss um að herra Borgnine tæki mér vel. Hann virðist vera súper fínn náungi.

Íslenskt hugarfar


Fyrir nokkrum árum í 101 Reykjavík fór ég á tónleika með hljómsveitinni Blonde Redhead. Þetta var á þeim tíma sem Íslendingar gengu um götur heimsins hnakkakerrtir vissir um að íslenskur ríkisborgararéttur væri ávísun á gæfu og vegsemd á öllum sviðum lífsins.

Í blábyrjun tónleikanna bað annar tvíburinn áhorfendur um að stilla reykingum í hóf, söngkonan væri slæm í hálsinum og reykurinn gerði hana nánast raddlausa. Viðbrögðin létu ekki á sér standa, allir reykingarmenn á svæðinu seildust í pakkann sinn og kveiktu sér í. Hugsanlega til að sýna þessum útlendingum að Íslendingar láta sko ekki skipa sér fyrir. Þeir eru sjálfstæðir og gera bara nákvæmlega það sem þeim sýnist, jafnvel þó það kosti þá mögulega skemmtunina sem þeir borguðu sig inn á.

Töff!

Teboð

Fyrir 13 árum síðan ætlaði ég að verða gyðingur og skráði mig því í hebreskuskóla í Ísrael. Skólinn var á samyrkjubúi og þurfti ég ásamt þeim er hann sóttu að vinna baki brotnu fyrir mati og uppihaldi meðan við námum hið helga mál. Þar kynntist ég ungri stúlku frá Bretlandi sem var í herbergi við hliðina á mér. Öllum er kunnugt hversu hrifnir Englendingar eru af tesopanum og var þessi kona engin undantekning. Hún talaði linnulaust um hvað enska teið væri bragðgott og hversu mikið hún saknaði þess. Að ísraelska teið væri bara bölvað sull og nánast ódrekkandi. Hvort er við vorum við vinnu á ökrunum, í matsalnum, reykherberginu, eða í frímínútum – alltaf vék umræðan að þessu bölvaða tei-i: “You just have to taste it some day Siggy, it’s splendid this tea that I speak of.”

Eftir viku eða tvær var hún það aðframkominn af tefráhvörfum að hún bað einhvern nákominn sér að senda sér te í gegnum póstkröfu. Þegar sendingin barst fylltist ég eftirvæntingu yfir að fá loksins að smakka þetta undursamlega te sem ég hafði heyrt svo mikið um. Í matsalnum hitaði hún vatn og hellti í bollann. Ég stóð hjá tilbúinn með bollann minn eins og Oliver Twist að bíða eftir súpuskammti. Úr vasa sínum dró hún upp tepoka sem hún setti í bollann sinn. Eftir að hafa hrært vel og lengi veiddi hún hann með skeið og rétti mér hann. Ég starði undrandi á hana en tók svo við honum þegar ég áttaði mig á að hún ætlaði ekki að láta mig hafa ferskan poka. Ég sullaði tepokanum fram og aftur í bollanum mínum og pressaði hann kröftuglega með skeiðinni. Er ég loks saup á varð ég fyrir hörmulegum vonbrigðum. Teið var gersamlega bragðlaust!

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort ég hefði ekki þarna átt að taka aðra stefnu í lífinu.

Kynlífslýsingar á facebook og hórurnar í Gandia

Undanfarna viku hefur geysað skelfilegur faraldur á facebook. Vinir og vandamenn hafa keppst við að senda út tilkynningar um hvar þeim þykir spennandi að eðla sig. Gunna frænka, sem er komin vel á sjötugsaldur og er spikfeit finnst tildæmis mjög æsandi að láta taka sig á eldhúsborðinu heima hjá sér. Ég hafði aldrei hugsað um Gunnu sem kynveru, en nú bý ég yfir þessum upplýsingum. Nú þegar ég hitti hana í Bónus, eða fjölskylduboðum get ég ekki varist að sjá hana fyrir mér gleiða á eldhúsborðinu meðan Grétar (eða ég geri ráð fyrir að það sé Grétar, hann er jú giftur henni) treður í hana þvagfærunum og skakar sér fram og tilbaka þar til yfir gengur. Afhverju Gunna taldi að ég væri betur settur vitandi þetta, skil ég ekki. En það er ekki bara Gunna sem vill láta mig vita hvar og hvernig er best að gera það. Annar hver status á tímabili innihélt þessar ókristilegu upplýsingar. Fleirum þótti besta skemmtun að eðla sig á eldhúsborðinu. Það er huggulegt að taka á fólki hús búandi yfir þessari vitneskju. Sitja prúður með kaffibolla á vettvangi glæpsins með hausinn fullan af emjandi gestgjafanum óhreinkandi borðið með rassasvita, ullabjakki og subbulaði.

Ógeðslegt! – segi ég.

Spítalatungumál

Þegar ég vann á spítala töluðu þeir faglærðu vísindalegt tungumál, sem mér ómenntuðum starfsmanni þótti afar heillandi. Tungumálið, sem er internasjónal, ímynda ég mér að hjúkrunarfræðingar, læknar og sjúkraliðar læri upp í Akademíu, með stóru A-i. Ég hef alla tíð heillast af akademísku fræðimáli. Framandi orð eins og penis og vagína, borið fram peeeeenis þar sem hinn ylhýri sérhljóði nýtur sín í munni þess sem talar og vagína hljómar í líkingu við Jósefína. Rektus, óæðri endi mannskepnunnar, er með áherslu á eRrrrrrrr. Starfandi við spítalann voru sérfræðingur í Ginnakólógíu fyrir konur með órækt í neðri byggðum tilvistarinnar. Reyndar man ég aðeins eftir fræðiheitum sem hafa með búskap hið neðra að gera. Rétt eins og það fyrsta sem lærist í nýju tungumáli er subbulaðið.

Hér eru dæmi um heilar setningar sem innihalda þessi orð:

– Ég þreif honum Gunnari um penis í morgun!
– Bjarghildur er með roða á vagínu!
– Ég er hræddur um að hún Þórdís þurfi að fara til Ginnukólógista.
– Fékk Guðmundur stíl í Rektum í morgun?

Hvað varð um að þrífa Gunnari um typpið og senda Þórdísi til kvensjúkdómalæknis?

Ég ætlaði að skrifa miklu meira um penis og vagínu, en það er úr mér allt vacuum.

Pissa á leiði

Í tilefni af 40 ára afmælinu mínu datt mér í hug að snjallt væri að skrifa yfirlætisfullan afmælispistil um eigin þroska og yfirburði. Þess í stað, setti ég saman hóp fólks á facebook sem ég ber sérstakan kala til. Miðað við líferni eru allar líkur á að ég komi til með að lifa flesta meðbræður mína og til að hafa ofan af fyrir mér í ellinni ætla ég að ganga á milli grafreita þeirra sem ég á sökótt við, taka út á mér penis og júrinera. Þegar hér er komið við sögu á penis aðeins eina fúnksjón. Má segja að þessi framtíðaráform mín geri það að verkum að ég hugsi sérstaklega vel um heilsuna. Ég drekk krabbameinsdrepandi djúsa, borða einungis gras og baunir, hleyp eins og einhver sé að elta mig og hugsa fallegar blómum skreyttar hugsanir. Eftir langa leit, er þetta hugsanlega eini tilgangurinn sem ég hef fundið með tilveru minni – Guð einn veit að enginn er Guðinn.

Kannski hefði ég átt að skrifa blúbb um hvað ég er gáfaður og mikill hugsari, þó ég sé hvorugt. Oh well………

Eyjan

Ein áhrifaríkasta leiðin til að misþyrma sálu sinni er að lesa athugasemdir á hryllingseyjunni punktur is. Þann illa þefjandi pytt hrasa ég reglulega í og missi þá samstundis trú á samlöndum mínum og getu mannsins til að hefja sig upp úr forinni. Það þarf ekki nema eina til tvær athugasemdir til að ég verði verulega leiður.

Eru Íslendingar svona ægilega leiðinlegir? Er þetta kannski þjóðin?

Það skiptir litlu máli um hvað pistillinn er, alltaf skal einhver skrifa niðurdrepandi athugasemd. Einhvern tímann las ég blogg eftir Egil Helgason um Stephen Hawkins og líf á öðrum hnöttum. Eftir að hafa lesið nokkrar athugasemdir, sumar andskoti áhugaverðar, kom einn sem virðist í fullu starfi sem álitsgjafi hjá eyjunni og var ekki lengi að tengja líf á öðrum hnöttum við ráðandi ríkisstjórn og skjaldborg heimilanna.

Væri ekki gaman að halda partí með fólkinu sem er þarna duglegast? Hittast á Kringlukránni og ræða málin?

Sumir þeirra sem eru mest áberandi í umræðunni, virðast gera lítið annað ef marka má Google.

Nafni minn Sigurður, nema hann er númer eitt og ég ekki, á þarna 4120 niðurstöður á google, sé leitin skilyrt við eyjan.is. Það má reyndar gera ráð fyrir að þarna sé einnig verið að ávarpa hann í öðrum athugasemdum, en samt þó aðeins fjórðungur af þessu séu athugasemdir, má ætla að hann eyði megninu af sínum tíma á þessum vettvangi.

Þeir eru miklu fleiri sem telja mörg þúsund niðurstöður.

Á eyjunni éta líka allir upp eftir hvorum öðrum. Hér er eitt dæmi.

Ég ber engar sérstakar taugar til Samfylkingarinnar. En hversu oft er þessi útúrsnúningur fyndinn eða sniðugur. 2000 sinnum?

Ég ætla að vona fyrir hönd eyjunnar að þeir lagi umræðuvettvang sinn þannig að fólk þurfi að gera betur grein fyrir sér, eða að internetveitur þeirra sem eru hvað leiðinlegastir fari að loka á tengingarnar hjá þeim vegna vangoldinna gjalda.

Flugdauðleiðir

Ég má til með að segja frá andskoti hressandi draumi um eftirlætis hugðarefni mitt: sjálfan dauðann. Já, rétt svona til að athuga hvort ég sé enn skriffær.

Draumurinn var um spánýtt flugfélag, sem hafði þá sérstöðu að fljúga með menn út í opinn dauðann. Vitanlega festi ég fé í miða. Ég veit ekki nákvæmlega í hvaða tilgangi ég spennti beltin fyrir flugtak. Mér var alls ekki rótt, og ég var ekki búinn að gera það upp við mig hvort mig langaði í þetta flug. Vélin var þéttsetin fólki í léttu skapi súpandi á kampavíni. Flugvélinni var sjálfstýrt og mér skildist að einhversstaðar á leiðinni yrði breyting á loftþrýstingi sem yrði þess valdandi að allir um borð sofnuðu. Svo væri henni steypt í hafið, eða henni flogið á fjallstind.

Hvaðan kemur þetta?

Um daginn sá ég viðtal við Hollending, eða mig minnir að hann hafi verið frá Hollandi, sem fer fyrir hópi sem berst fyrir réttinum til að deyja með reisn. Hópurinn vill lögleiða svokallaða friðarpillu – pillu sem keyrir sustemið niður á sársaukalausan máta. Þá ekki bara fyrir fólk sem þjáist á banalegunni, heldur fólk sem vill enda líf sitt og fellur undir ákveðna skilgreiningu um aldur, geðheilbrigði og fleira í þeim dúr. Þetta viðtal og svo ársgömul frétt um flugvél einhversstaðar í Asíu, þar sem öll áhöfn ásamt farþegum leið út af vegna breytinga á loftþrýstingi. Þetta tvennt hrist saman við röskun á flugi vegna eldgossins í Eyjafjallajökli og útkoman er: Flugdauðleiðir.

Rétt áður en ég vaknaði varð umskipting í söguþræðinum. Það var ekki ég sem átti miða í flug dauðans, heldur heitmey mín. Ég var ægilega sorgmæddur og reyndi að hafa áhrif á ákvörðun hennar. Ég passaði mig þó sérstaklega vel á að virða rétt hennar til að deyja.

Tenglar:
World Federation of Right to Die Societies

Ferðalagið á grafarbakkann.

Engin hugsun er jafn notaleg og sú hugsun að einn sólríkan dag muni hjartað í brjósti mér hætta að slá og ég fái að deyja. Ég veit ekki hvers vegna, en ég held að flestir ímyndi sér að sólin skíni og fuglarnir tísti á þessum degi. Það er ósköp skiljanlegt. Ef sálin á að geta ferðast klakklaust alla leið upp til himna, er betra að veðrið sé gott. Ég ætla allavega að reyna hvað ég get til að deyja á góðviðrisdegi.

Mörgum, sem ég hef mætt á lífsgöngu minni, finnst einkennilegt að jafn ungur maður og ég hugsi jafn mikið og ég geri um dauðann – hlakki jafnvel til. En auðvitað hlakka ég til! Ég hlakka til að eldast og ég hlakka til að deyja. Ég fæ mögulega svar við einni stærstu spurningu lífsins. Spurningu sem maðurinn hefur spurt sig, allt frá dögun mannkyns og enginn kann að svara. Já, dauðinn er sannarlega tilhlökkunarefni. Ég get ekki beðið. – Ég get samt alveg beðið. Ég veit að það liggur fyrir að ég verði manna elstur. Alveg í minni óþökk. Ég á eftir að lifa alla. Ellinni ætla ég að eyða í að pissa á leiði þeirra sem ég kann illa við.

Oftast leiðist mér lífið alveg ægilega og hef heldur ekki verið neitt sérstaklega feiminn við að viðurkenna það. Það verður mér því kærkomið að losna úr þessari prísund sem mér finnst ég hafa verið ranglega dæmdur í. Ég bað ekki um þetta, svo mikið er víst. Hver, sem ég svo er. En ég veit ég er ekki einn um þessa hugsun. Ég sé það þegar ég horfi í kringum mig. Þjakað einmana fólk. Dapurlegt, ekki satt?

En ég má passa mig að flíka ekki um of, þessum hugðarefnum mínum. Það þykir nefnilega ekki heilsusamlegt að horfa á lífið með þessum hætti. Það eru til allskonar sjúkdómsheiti fyrir fólk sem í heiðarleika viðurkennir að lífið sé í raun helber þrautganga og þjáning. Þrátt fyrir að flestir — nema þeir sem eru snillingar í að uppdikta einhvern tilgang með þessu brambolti — þjáist.

En þó svo ég hugsi eins mikið og ég geri um dauðann, þá ber ég mikla virðingu fyrir lífinu. Það sama verður ekki sagt um þá sem þykjast vera þess megnugir að gagnrýna mig fyrir skort á jákvæðni og fallegum gúllí gú lífsviðhorfum. Þeir hinir sömu, bera oft enga virðingu fyrir líkama sínum og gera honum erfitt fyrir með reykingum, drykkju, hreyfingarleysi og óheilbrigðu matarræði. Ég hleyp, drekk ekki, reyki ekki, borða hollan mat, hugsa fallegar hugsanir, allt í þeim tilgangi einum að auka lífsgæði mín og fyrirbyggja að ég þurfi hjálp á klósettið þegar árin færast yfir. Ég þarf líka að vera í toppformi þegar ég þræði kirkjugarðanna á tíræðisaldri. Einhver þarf að pissa á öll þessi leiði.

Matar æðið

Hér í Kaupmannahöfn NV hafa heimilismenn tileinkað sér fúndementalískt kólesterólskert matarræði sem fer silkihönskum um munn, maga og ristil. Hægðirnar sem fara hér í klósettið eru svo mikilfenglegar og fallegar – og trúið mér hér er mikið kúkað – að herra Kelloggs hefði veitt okkur sérstök verðlaun væri ristillinn á honum ennþá starfandi. Eftir svínslegt matarræði yfir jólahátíðina, horfðum við á nokkrar heimildarmyndir um kólesteról, viðurstyggilega meðferð á dýrum, og matvælaiðnaðinn og ákváðum að dýr ættu ekkert erindi í gegnum meltingarveginn á okkur. Við gætum allt eins étið gæludýrin okkar, eða bara hvort annað. Við skiljum tildæmis ekki hvers vegna manninum þykir í lagi að éta hrossakjöt, en ekki hundakjöt? Heilsíðuauglýsingar Bónus á blóðugum niðursneiddum skrokkum, gæti þess vegna verið mannakjöt. Afhverju borðum við ekki bara hvort annað? Afhverju má ekki bara skella Afa inn í ofn eftir að hann er kominn yfir móðuna miklu? Honum er örugglega alveg sama!

Hvað um það. Eftir að við tókum upp þetta prýðilega matarræði, sem samanstendur af dýrindisgúmmilaði, sem bragðast svo vel og er svo spennandi að við varla tölum um nokkuð annað en hvað skal kokka næst og hvernig, þá hefur okkur liðið líka svona skínandi vel. Eftir máltið, er ekki úr okkur allur þróttur og við liggjum ekki afvelta með bumbuna út í loftið, jarmandi eins og mæðuveikar rollur. Nei, við erum Bylgju og Hemma Gunn hress. Spilum spil. Syngjum fagnaðarsöngva um lífið. Hugsum fallegar hugsanir, í þágu kærleiks og friðar.

Má segja að megin uppistaðan í fæði okkar sé hrátt grænmeti, og við því líklega u.þ.b 60% hráfæður. Ég og heitmey mín höfum meira að segja sótt hráfæðisstað hér í Köben, í allavega tvígang. Maturinn þar er rándýr, en andskoti góður. Kranavatn, eins ógeðslegt og það er hér í Danmörku kostar þar 10 dkr, sem gera um 230 krónur af verðlausum íslenskum. Ég læt hér fylgja með hráfæðisáróður frá þessum stað sem er mjög bjánalegur. Ætli maðurinn sem fann upp þessi rök, sitji á kaffihúsum allan liðlangan daginn, slái um sig og líði í jíhadinu sínu eins og hann sé gáfaður? Ég hugsa að ég borði aldrei þarna aftur! – það eru bara hálfvitar sem kaupa sér danskt skólp á 10 krónur.