Ghost Dog

Ég má til með að hefja upp raust mína og mæla með þessari mynd. Jim Jarmusch hefur löngum verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Einhverra hluta vegna hafði mér þó láðst að sjá þessa mynd. Ég man að einhvern tímann átti ég mér þann draum að reykja sígarettu með Jim Jarmusch og þá helst í Brooklyn. Þetta held ég að hafi verið eftir að ég sá Blue in the face. Á þeim tíma reykti ég talsvert af sígarettum og stundaði aðra hefðbundna sjálfstortímingu. Núna í dag hef ég verið reyklaus í 2 og 1/2 ár. Ég verð að viðurkenna að ég sakna þess ógurlega að reykja. Mig langar æði oft í sígarettu, en þó ekki þannig að ég þoli ekki við. Snemma í mínu reykleysi hefði ég getað svarið að ég ætti aldrei eftir að reykja aftur. Núna hinsvegar hugsa ég stundum með sjálfum mér að ég komi til með að byrja að reykja aftur undir ákveðinni tegund af kringumstæðum. Þegar ég var staddur í New York, hugsaði ég með mér að vegna aðstæðna þá væri kjörið að byrja að reykja aftur, en svo snerist sú hugsun upp í það að væri alveg skelfilega asnalegt ef ég notaði einhverjar sorgaaðstæður sem tylliástæðu til að hefja aftur reykingar. Þetta er í raun mín skoðun, en mig langar samt oft að reykja.

2 thoughts on “Ghost Dog”

  1. Mig langar stundum til að reykja. Aðallega af því mér finnst það stundum töff og stemmning yfir því. En svo fer ég í reyk og þá er ég að kafna og fæ tár í augun og það kemur viðbjóðs lykt af fötunum mínum þannig að ég er ekkert að fara að reykja aftur. Nema í huganum.

Comments are closed.