Grillað með George Hamilton

Þegar ég var smástrákur þá velti ég oft vöngum yfir því hvernig það væri að vera fullorðinn. Eins og ég sá heiminn þá höfðu fullorðnir allt á hreinu. Þeir brugðust alltaf rétt við og vissu nákvæmlega hvernig ætti að haga sér í hverskyns aðstæðum. Mér þótti heimur hinna fullorðnu afar hrífandi og gat ekki hugsað mér neitt tilkomumeira. Ég sá það í hendi mér að ég kæmi til með að vita í öllum tilfellum hvað væri við hæfi og að ég yrði jafn úrræðagóður og elskulegur faðir minn. Í gær á 35 ára afmæli mínu hringdi ég í föður minn og sagði honum frá þessum hugrenningum mínum. Ég sagði honum að ég fengi ekki séð að þankagangur minn núna væri svo frábrugðinn því þegar ég var polli. Að ég finndi ekkert sérstaklega fyrir því að vera fullorðinn. Að ég væri svo til alveg jafn grunlaus um tilgang þessa lífs og ég var þegar ég var stráklingur. Faðir minn, hinn mikli meistari sagði að honum liði nákvæmlega eins, einungis skrokkurinn tæki breytingum en hann hugsaði að mestu eins og hann hugsaði þegar hann var smástrákur að alast upp í kjósinni. Mér finnst þetta andskoti merkilegt.

Ég var staddur í grillveislu með nokkrum ítölskum George Hamilton fígúrum. Menn sem báru sig alveg sérstaklega vel, brúnir vel til hafðir með sjálfstraustið í andskoti fínu lagi. Þrátt fyrir að ég skildi ekki hvað þeir voru að segja, komu þeir mér fyrir sjónir sem menn sem vita allt. Þeir töluðu endalaust og bönduðu höndum sínum máli sínu til stuðnings. Börnin þeirra horfðu aðdáunaraugum á hverja hreyfingu foreldra sinna. Mér leið hinsvegar ennþá eins og ég væri barn í hópi fullorðna. Svei mér hvað þetta er einkennilegt þetta líf.

5 thoughts on “Grillað með George Hamilton”

  1. Ertu að reyna að segja að þú sért í rauninni fokking fáviti?

  2. Já, það var í raun og veru það sem ég var að reyna að koma orðum að, portglyðran þín.

  3. Jiiii, Portglyðra. En skemmtilegt fúkyrði! Til hamingju með aldurinn elsku Siggi. Ég lenti í þessu núna sjötta sl. Mér finnst ég samt hafa þroskast eitthvað. Verð nú að viðurkenna það. Þó að ég sé ekki með allt undir kontról eins og sumir aðrir sem eru fullorðnir. T.d. Björgúlfur Thor.

Comments are closed.