Elvis breakfast with half a glass of valium

Eins og oft á virkum dögum geng ég leið sem liggur laugaveginn í þeim tilgangi að leggja ástund á vinnu mína hjá hinu opinbera. Einn fallegan frostmorgun á leið minni, var ég með stöðutáknið mitt æpödduna skrönglandi í eyrum mér. Ég var að hlusta á Eckhart Tolle lýsa því á frískandi máta hvað við mannfólkið erum hjákátleg í uppátækjasamri tilveru okkar. Svo er sem ég heyri óperusöng sem ég get ekki almennilega greint hvaðan kemur. Ekki er Eckhart vanur að vera með eitthvað söngl á þessum ráðstefnum sínum og ekki kom söngurinn frá neinum bíl sem átti þar leið framhjá. Ég slökkti á pöddunni til að komast til botns í þessu sérstæða máli. Mér verður ljóst að þessi fallegi óperusöngur sunginn á anti-semetísku kom frá manni sem nálgaðist mig óðfluga. Ég fékk ekki betur séð en að þessi maður væri háskólaborgari eða jafnvel aristókrat. Þegar við mættumst brosti ég blíðlega til hans og hann brosti til mín. Það kom á hann eilítið hik, svona eins og hann væri að velta því fyrir sér hvort hann ætti að halda áfram að syngja eður ei. Ég að lokum kinkaði kolli til hans og við fórum hver í sína áttina. Þetta var fallegt augnablik sem stendur upp úr í vikunni sem er að líða. Sérstaklega viðeigandi, þar sem Eckhart minn Tolle er dyggur stuðningsmaður léttlyndis og áhyggjuleysis. Söngvarinn hafði eitthvað sem ég hef ekki ennþá að fullu tileinkað mér, en draumur minn er að geta gengið um götur Reykjavíkurborgar á grámygluðum frostmorgni þar sem sjálfsmorð lekur af hverjum þeim er þar á leið um syngjandi eitt stykki óperu.

Comments are closed.