Linda litla Blair

Ég hef reynt eftir fremsta megni undanfarna mánuði að ala sjálfan mig á kærleik og yndislegheitum. Ég hef komist að því á grýttum vegi lífs míns að það leikur gersamlega allt í höndunum á mér ef ég er léttur í lund og jákvæður. Það er óhjákvæmilega fylgifiskur þess að reyna að haga sér eins og maður að vera ekki sí oní æ að þrasa, tuða, fussa, skyrpa, hrækja og ekki nota skrúfjárn fyrir sleikjó. Stundum hinsvegar ræð ég engan veginn við mig og ég fer að bölsótast út í allt og alla. Mér líður þá ósköp svipað henni Lindu litlu Blair sem átti í afskaplegum erfiðleikum vegna þess að hún var haldin illum anda. Linda litla Blair, þessi með stóru brjóstin! Ég sat á kaffihúsi um daginn með viðurstyggilegri portkonunni henni fröken Sigríði. Þar við borðið hjá okkur sátu 2-3 “herramenn”. Ég var í hæstu hæðum og var að rifna úr jákvæðni og sérstakri væntumþykju gagnvart heiminum og öllu cosmósinu. Mér fannst vera vorhret í lofti og fuglaflensusöngur hvarvetna og ég hafði orð á þessu við mjög dræmar undirtektir. Einhver sem ég kann ekki að nafngreina hóf upp raust sína og það var engu líkara en hann hefði opnað pandóruboxið og sturtað því yfir hausinn á mér. Það má segja að ég hafi misst þarna niður sjálfið mitt sem ég var búinn að rækta af svo mikilli natni. Mér fannst þessi maður hafa sigrað mig í neikvæðni. Hann sagði að það væri ekkert andskotans vorhret í lofti og það ætti eftir að kólna og gera viðurstyggilegan vetur aftur. Það sem verra er, er að hann hafði rétt fyrir sér, því annan eins viðbjóð og þann kulda sem hefur herjað á hýbýli mín undanfarnar 2 vikur, hef ég ekki upplifað í allan andskotans vetur.

Comments are closed.