Deepak Chopra

Ég hafði gott eitt í hyggju er ég lagði af stað til læknisins, en það var eins og við manninn mælt að um leið og ég hóf samtal okkar sá ég mér ekki annað fært en að tilkynna honum það að ég hefði enga trú á stéttinni. Ég get ekki mælt með þessari nálgun og ég hefði satt best að segja mátt vera með aðeins meiri meðvitund en að fara gjamma einskisverðar skoðanir mínar á þessari raunastundu. Hann brást illa við og í sekúndubrot hélt ég að hann ætlaði að hjóla í mig. Eftir að ræða ítarlega heilsufar mitt fram og tilbaka um víðan völl, komumst við að þeirri niðurstöðu að betra væri að gera nákvæmlega ekkert í þessu. Ég spurði hann hvort ekki væri hægt að hafa áhrif á ónæmiskerfið með einum eða öðrum hætti. Hann talaði um óhefðbundnar aðferðir sem vísindin kynnu enga skýringu á og þar sem hann væri maður vísindanna gæti hann ekki gefið mér þessháttar ráð. Reyndar þegar ég fer að hugsa þetta aðeins betur, þá átti ég ekki við hvort hægt væri að hugleiða í sig sterkari brynju gagnvart vírussýkingum og annarri viðurstyggð, heldur var ég meira að hugsa um hvort hvítlaukssnafsinn minn eða fræbblasúpa gæti ekki stuðlað að betri heilsu. Ég drap stemmninguna með því að spyrja hann þá hvort ekki væri þá best fyrir mig að lesa Deepak Chopra frá A-Ö, en það var einmitt á þeirri stundu sem læknirinn áttaði sig á að hann var með fokking fávita inn á kontór hjá sér. Hann kvaddi og bað mig vel að lifa. Ég verð að segja að þrátt fyrir ótrúlegt getuleysi mitt í mannlegum samskiptum þá var þetta afskaplega frískandi heimsókn.

3 thoughts on “Deepak Chopra”

  1. Ég sé í hendi mér eftir að hafa lesið þessa reynslusögu að læknar eru líklegast fokking fávitar eins og þú hefur margoft bent á!

Comments are closed.