Það er ekkert leyndarmál þó svo ég sé ekki síröflandi um mitt fyrra líferni, að ég átti eilitlum erfiðleikum með ákveðnar tegundir lyfja sem ég mér algerlega að óvörum gleypti í ótæpilegu magni. Ég dreg ekki dul á það, en sárasjaldan nenni ég að tala um þetta. Það þýðir þó ekki það, að ég hugsi ekki oft um þetta líferni sem ég tileinkaði mér í svo mörg ár..
Þetta mun vera tvöhundruð sjötugasti og áttundi laugardagurinn sem ég vakna upp allsgáður. Ég tel ekki daganna, vikurnar, einungis árin. Ég hef reyndar ekki verið meðlimur í Hí Hí og Ha Ha samtökunum um árskeið. Ástæðan fyrir því er ekki sú að ég kunni illa við hopp og hí, reyndar alveg þvert á móti. Ég ætla heldur ekki að gera grein fyrir því hvers vegna ég er ekki félagi hvorki hér, né nokkurs staðar annars staðar. Ég hef oft reynt að útskýra þetta fyrir fólki í einhverju tjitt tjatti, en mér leiðist það.
Ég er á því að fólk eigi bara að fá að syngja hver með sínu nefi. Það þurfa ekki allir að syngja Óli skans, hvað þá heldur Ólei Ólei Ólei, sem er án ef það lag sem er efst á lista hjá fólki sem viðhefur skemmtan fyrir utan gluggann minn helgi eftir helgi.
Ástæðan fyrir þessari færslu er sú að mér finnst magnað og undravert að geta vaknað á laugardagsmorgni án teljandi vandkvæða. Ég fór núna tildæmis út í morgun og hljóp u.þ.b 6 kílómetra. Eg varð var við fólk/uppvakninga á götum borgarinnar sem virtist vera á leið heim, ósköp framlágt eftir ævintýri næturinnar. Eftir því sem ég heyrði í gegnum svefninn þá var mikið við að vera á laugarveginum prýðilega í gærnótt. Ég hugsa að það sé kominn tími til að flytja.
Siggi þú ert snilldar bloggari, ég trúi ekki að ég sé ekki búin að vera að lesa bloggið þitt. Svo nú má þakka Möggu fyrir að hafa stolið textanum þínum því annars hefði ég misst af þessum hugleiðingum þínum um Óla skans söng-grúbbuna .
Og kann ég henni sérstakar þakkir fyrir.