Dyraverðir

Ég þoli ekki að geta ekki brugðið mér út úr húsi, án þess að hitta einhvern sem ég þekki eða kannast við. Það ber ekki að skilja það sem svo að ég þekki einhvern aragrúa af fólki. Það er þó þannig að þegar maður býr á jafn einangruðum stað og í henni Reykjavík, þá kannast maður kannski við fleiri en færri. Ég las grein um helgina á nytimes.com um það hvernig það er að vera dyravörður í New York. Það er víst svo samkvæmt þessari grein að sumt fólk er sérstaklega afhuga því að búa í byggingum þar sem dyraverðir eru ráðnir til starfa vegna þess að þeir nenna ekki að bjóða sama manninum góðan daginn oftar en einu sinni á sama degi. Enn fremur þykir New York búum það ekki eftirsóknarvert að viðhafa eitthvað tjitt tjatt um veður og vinda við dyraverðina sína. Ég verð að játa að ég skil þetta alveg fullkomlega. Mér þætti vænt um að geta farið út í matvörubúð án þess að þurfa að eiga innihaldslaus samskipti við einhvern sem ég er rétt svo málkunnugur. Ég er farinn að hallast að því að þetta geti einfaldlega ekki verið manninum hollt að búa í svona þröngu samfélagi. Þetta er gersamlega óþægilegt. Ég geri mér fyllilega grein fyrir að ég er enginn samskiptakóngur, en ég hef samt sem áður mikið yndi af því að vera í kringum fólk. Mér persónulega leið stórkostlega í fólksfjöldanum á Times Square. Ég drakk í mig allar þær manngerðir sem urðu á vegi mínum. Ég átti á sama tíma ekki von á að einhver færi að hrella mig með viðurstyggilegum samskiptum.

4 thoughts on “Dyraverðir”

  1. Ég er lasin heima og hef nákvæmlega ekkert að gera nema vafra um netið. Það útskýrir fjölda komu minna á síðuna þína í dag. Ég veit þú fylgist með svona hlutum.

  2. Siggi ég veit ekki hvað það er en mig grunar að þú sért svona kall sem er sífellt að knúsa annað fólk. Svona knúsari. Siggi knúsari.

  3. Aumingja Bergþóra. Má ég mæla með hvítlaukssnafs.

    Jú, það stemmir. Ég er orðrómaður knúsikall, hversu glæsilegt sem það nú hljómar.

  4. mér finnst dónaskapur að skoða annara manna blogg og láta ekki vita af því, ég vil því segja að það er alveg bráðskemmtilegt að lesa færslurnar þínar. Skil þetta með fólk. Gaman að því en það er samt óþarfi að vera alltaf að small-talka endalaust. Ég er í smábæ í minnesota, hér er endalaust verið að heilsa manni og spyrja hvernig maður hafi það, án þess að vilja í raun vita það. Rugl.

Comments are closed.