Tæknimál

Ég þoli illa að sitja vinnufundi. Ég sat einn í dag og mér tókst alveg án þess að ætla mér það að vera alveg einstaklega leiðinlegur. Það var mér bara svo eðlislægt að vera með leiðindi að ég þurfti nánda nærri ekkert að hafa fyrir því. Ég man að þegar ég vann á spítala voru haldnir vinnufundir minnst tvisvar á dag. Reyndar voru þeir ekki kallaðir vinnufundir heldur hétu þeir því fína nafni rapport. Mér þóttu þeir alveg sérstaklega skemmtilegir því þeir gengu meira og minna út á að tala um hægðir. Ég hef óneitanlega verið mikill áhugamaður um svokallaðar fyrirtakshægðir síðan ég þáði laun fyrir störf mín í heilbrigðisgeiranum. Á vinnufundunum sem ég sit á nú til dags er mikið talað um hvort er betra, windows eða skopparakringlustýrikerfið MacOSX. Þeir ganga einnig út á að kaffæra þá sem fundinn sitja í hinum og þessum orðaskrúða sem enginn skilur, ekki einu sinni þeir sem viðhafa gjálfrið. Þetta er ákveðin tækni sem ég hef ekki náð að tileinka mér. Dæmi um þetta er að segja eitthvað eins og: “Infrastrúkturinn er optimæseraður sem gerir obbjektana mjög rídundant”. Þegar er einhver byrjar að tala svona er hægt að ganga að því vísu að flestir þeir sem sitja fundinn annað hvort zóna út, eða þeim finnst þetta hljóma gáfulega, en skilja þetta engan veginn nógu vel til að segja að þetta sé fucking kjaftablaður.
Þá fannst mér nú skemmtilegra að tala um hægðir.

One thought on “Tæknimál”

Comments are closed.