Sjónvarpsgláp

Þrátt fyrir að ég sé orðinn afhuga sjónvarpi kemur það fyrir að ég horfi á einn og einn þátt af The Apprentice, sem er án efa uppáhalds raunveruleikaþátturinn minn. Með tilliti til þess að þessir þættir eru ekkert nema auðvirðilegt sorp þá rekur marga í rogastans yfir því að jafn fágaður einstaklingur og ég leggist svona lágt. Ég skal útskýra. Ástæðan fyrir því að ég elska að horfa á þessa þætti er sú að ég er fyrir það fyrsta mikill áhugamaður um mannlega bresti. Mannlegir brestir fá hvergi betur sín notið en einmitt í raunveruleikaþætti. Þátttakendur þessara þátta hafa yfir höfuð ekki til að bera nein heilindi þegar á hólm er komið. Það er jú einstaka maður sem rembist sem rjúpan við staurinn að halda í heiðri hinum og þessum gildum, en þeir eru oftar en ekki troðnir undir af andstyggilegum meðbræðrum sínum. Það sem vekur sérstaka furðu mína er þetta óbilandi sjálfsálit sem þetta fólk hefur til að bera. Hvaðan kemur það eiginlega. Hefur það verið alið upp í því að það sé æðisgengið og það megi ekki gera mistök. Þau eru öll alltaf alveg klár á því að þau geti gert betur en manneskjan sem heldur um stjórnvölinn þá stundina. Þau eru sýnd í einkaviðtölum, þar sem þau baknaga hvort annað, og dásama svo sitt eigið ágæti. Hinsvegar þegar á það reynir, kúka þau sjálf svo kyrfilega í buxurnar og það fyrir framan milljónir áhorfenda.

Já, þetta er einkennileg skemmtan sem ég hef af þessu.

Comments are closed.