Guð er óður

Jæja, þá er bara kominn háttatími. Hver hefði séð þetta fyrir. Mig hefði aldrei órað fyrir þessu þegar ég vaknaði í morgun. Ég held athöfnin að sofa, sé svo gott sem ein af mínum uppáhaldsathöfnum. Mér er því spurn hvers vegna ég bý hér á Laugarveginum, með tilliti til þess að hér er ekki nokkur svefnfriður. Nú er klukkan u.þ.b 12:00 og gleðskapurinn er hafinn. Núna í alla nótt fram undir morgun kem ég til með að heyra í tónlist sem ég hata. Hatur nær eiginlega ekki yfir það hvað mér finnst um þennan hávaða og þá einstaklinga sem hafa af einhverjum orsökum komist að þeirri niðurstöðu að allir vilji heyra músikina þeirra. Þennan hávaða heyri ég í gegnum svefnrofin þegar þetta andstyggilega fólk keyrir hér framhjá á sportbílunum sínum. BAMM BAMM BAMM BAMM. Engin laglína, bara BAMM BAMM BAMM BAMM. Er ég orðinn gamall? Er farið að síga á seinni hluta lífs míns? Þegar ég hinsvegar glaðvakna vegna ólátanna, ligg ég í rúminu mínu og læt mig dreyma að eiga haglabyssu. Ég sé þá sjálfan mig tölta út fyrir, alveg sallarólegan. Miða haglaranum á húddið á þeim bíl sem hefur að mínu mati hæst og taka léttilega í gikkinn. Þetta kæmi bílnum samstundis í óhæft ökuástand, sem léttir fyrir mér því næst ríf ég upp bílhurðina og skýt úr hólk mínum í geislaspilarann. Skelfing viðstaddra breytist á örfáum sekúndum í fagnaðarlæti og ég uppsker áður óþekkta virðingu og aðdáun. Við þessa hugsun sofna ég svo aftur, rétt til þess eins að vera vakinn upp af einhverjum hálfvita sem kann aðeins að syngja eitt lag á fylleríum. Ólei, ólei, ólei. Ég grínast ekki með þetta. Þetta lag er sungið hérna um HVERJA helgi. Nú er ég búinn að troða böttplöggum í eyrun á mér. Rétt bráðum þakka ég í bænum mínum fyrir fegurðina í þessum heimi og svo líð ég fyrr en varir út af. Guð er óður.

6 thoughts on “Guð er óður”

  1. UPDATE!!!
    Það er engu líkara en allir djammarar Reykjavíkurborgar hafi lesið veflók minn, því það var nánast enginn hávaði þessa aðfaranótt laugardags. Ég svaf eins og engill. Já, engillinn sem ég óneitanlega er.

  2. Það er þá þér að kenna að í Hlíðahverfi var allt snarvitlaust í gleðsskapshávaða
    (vá mörg ess..) Það voru tvö partý í mínu húsi, eða næsta húsnúmeri reyndar, unglingar í risi, slagsmál útá götu, svo 50+ partý í kjallara með fyllerísrausi fram á nótt.
    Ég svaf ekki eins og engill..
    en gott að einhver gerði það 😉

  3. Sigurður ég veit ekki hvort ég myndi kalla þig engil, en skrif þín eru himnesk, svo líklega ertu bara engill. Orðljótur engill

  4. Má ég þá mæla með 5. hæð á Borgarspítalanum fyrir þig. Ró og friður allar nætur. Myndir sofa eins og engillinn sem þú ert.

  5. ‘Eg á haglabyssu og er fús til að lána þér hana

Comments are closed.